Föðurleg meinbægni

Greinar

Heilbrigðisráð Reykjavíkur mundi vafalaust banna öll sjóböð við strendur borgarinnar, ef sjávarmengunin væri svipuð og í Miðjarðarhafinu. Það hefur bannað Nauthólsvíkina, þótt mengun þar sé minni en við strendur Miðjarðarhafsins. Ekki er vitað til, að mönnum verði meint af sjóböðum í Miðjarðarhafinu, og mega menn prísa sig sæla, að áhrif Heilbrigðisráðs Reykjavíkur skuli ekki ná þangað.

Þetta ráð er ekkert sérviturra en önnur íslenzk ráð. Í velmegunarþjóðfélaginu hér er orðin árátta að hið opinbera reynir að hafa vit fyrir fólki í stóru og smáu. Menn mega ekki einu sinni drekka cyclamat í gosdrykkjum, af því að þeir gætu fengið krabbamein af því að drekka 700 flöskur á dag í 200 ár. Það kemur því ekki á óvart, að Heilbrigðisráð Reykjavíkur skuli nú vilja meina mönnum heita lækinn í Nauthólsvík. Þar er bara á ferðinni hin föðurlega meinbægni kerfisins.

Þegar svona ákvörðun er tekin, er ekkert verið að leita ráða hjá því fólki, sem verið er að vernda. Dagblaðið hefur birt viðtöl við marga, sem hafa notfært sér heita lækinn á daginn. Allir eru þeir sammála um, að lækurinn ætti að vera opinn áfram, en ýmsar endurbætur ætti að framkvæma. Vildu þeir, að einföldum búningsklefum og salernum yrði komið upp.

Á daginn eru í læknum ömmur og ungbörn og allt þar á milli. Þessu fólki hefur enn ekki orðið meint af. Vatnið í læknum virðist hreinna en í heitum pottum sundlauganna, enda er gífurlegur munur á rennsli. Viðmælendur Dagblaðsins töldu sögur af glerbrotum og öðrum sóðaskap verulega orðum auknar. Umgengni á staðnum væri tæplega eins sóðaleg og gengur og gerist hér á landi.

Það, sem gerzt hefur, er, að siðavandur framkvæmdastjóri annars ráðs borgarinnar hefur ritað heilbrigðisráði bréf, þar sem hann efast um, að hann geti haldið uppi æskulýðsstarfi í námunda við ósóma lækjarins, drykkjuskap, sóðaskap og ýmislegt ósiðlegt athæfi. Þetta bréf frá einu ráði til annars nægir til að heilbrigðisráð krefst lokunar lækjarins.

Rétt mun vera, að á nóttunni er við lækinn annar bragur en á daginn. Lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af drukknum unglingum við lækinn á þeim tíma. Samt virðist hún ekki hafa verulegar áhyggjur af þessu, enda valda unglingarnir ekki ónæði annars staðar meðan þeir eru í læknum. Og líklega er heitur lækur hættuminni í næturlífinu en kaldur skafl.

Draga má úr vandamálum næturlífsins á ýmsan hátt. Hér að framan hefur verið minnzt á búningsklefa og salerni. Einnig má fjölga ruslatunnum og gera þær snyrtilegri. Síðast en ekki sízt mætti koma upp eftirliti, er einkum beindist að því að draga úr slysahættu. Samt yrði lækurinn ein ódýrasta þjónusta Reykjavíkur við borgarbúa.

Borgaryfirvöld eiga að hafa vit á að laga sig eftir aðstæðum og reyna að leysa vandamálin við heita lækinn í stað þess að banna þau. Föðurleg meinbægni á ekki að ráða ríkjum, þótt borgin hafi komið sér upp hverju ráðinu ofan á annað.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið