Flýtum okkur hratt.

Greinar

Innflutt eldsneyti er nú þegar orðið svo dýrt, að innlent eldsneyti, sem framleitt væri úr vatnsafli með rafgreiningu, er um það bil að verða ódýrara – að beztu manna yfirsýn. Og innflutt benzín mun halda áfram að hækka í verði á næstu mánuðum og árum.

Þetta er engin framtíðartónlist. Bragi Árnason prófessor hefur bent á, að vinnsla innlends eldsneytis geti byggzt á viðurkenndum aðferðum, sem þegar hafa staðizt próf reynslunnar erlendis.

Ódýrast væri að framleiða vetni úr vatnsafli með rafgreiningu. Vetni má nota á vélar flugvéla, skipa og bíla eins og þær eru nú, með breyttum kveikjubúnaði. Vandinn er hins vegar sá, að vetni er loft, en ekki vökvi.

Það þýðir, að geymsla og flutningur vetnis þarfnast allt öðru vísi kerfis en nú er notað við fljótandi eldsneyti. Á því eru enn ýmsir tæknilegir erfiðleikar, sem hafa ekki verið leystir, en verða leystir.

Til bráðabirgða kemur því fremur til greina að taka vetnið og breyta því í metanol eða benzín eða dísilolíu með aðstoð kolefnis, sem unnið væri úr mó. Þar með væri fengið fljótandi eldsneyti, sem hentaði bæði núverandi vélum og núverandi geymslu- og flutningakerfi.

Metanol, benzín og dísilolía úr vatnsafli og mó yrðu dálítið dýrari en vetni, en samt einnig samkeppnishæf við innflutt eldsneyti, eins og verð þess er þegar orðið og verður síðar á þessu ári.

Íslendingar eru svo heppnir að hafa meira en nóg vatnsafl til allra orkuþarfa, þar á meðal til eldsneytis á vélar. Þar á ofan erum við svo heppnir að hafa meira en nógan mó til kolefnisblöndunar við vetni.

Þótt undarlegt megi virðast, er til áratuga gömul og mjög ítarleg úttekt á móbirgðum Íslands. Af henni má ráða, að vinnsluhæfur mór sé miklu meira en nógur til að brúa bilið, unz við getum farið að nota vetnið beint.

Bragi Árnason hefur í nokkur ár verið að benda okkur á þessar leiðir til að komast hjá innflutningi eldsneytis. Hugmyndir hans hafa hlotið stuðning annarra vísindamanna í orkumálum, svo sem Ágústar Valfells kjarnorkufræðings.

Stjórnmálamennirnir hafa hins vegar verið sljórri. Þeir eru núna fyrst að vakna upp við vondan draum sífelldra hækkana á innfluttu eldsneyti. Framsóknarflokkurinn varð fyrstur til og hefur skipað flokksnefnd í málið, með þátttöku Braga Árnasonar.

Nú hefur orkuráðherra skipað opinbera nefnd til að kanna þessa möguleika á framleiðslu innlends eldsneytis og er Bragi Árnason einnig í þeirri nefnd. Þróun er því byrjuð, þótt enn sé hún hægfara.

Nefndir eru einhver seinvirkasta leið til athafna, sem hugsazt getur. En því miður eru íslenzkir stjórnmálamenn methafar í dýrkun nefnda, einkum nefnda á nefndir ofan. Og við töpum milljónum á hverjum degi, sem líður.

Þegar loksins verður tekin ákvörðun um að gera eitthvað raunhæft, er langur vegur enn eftir. Nokkur ár tekur að hanna orkuver, vetnisver, móver og eldsneytisver. Síðan tekur nokkur ár að reisa þessi mannvirki.

Landsfeður eru hvattir til að flýta þessum undirbúningi sem mest má verða.

Jónas Kristjánsson.

P.S. Í leiðara í fyrradag gagnrýndi ég Hjörleif Guttormsson orkuráðherra fyrir að fresta virkjun Hrauneyjafoss. Mér hefur nú verið bent á, að samkomulag hans við Landsvirkjun fólst í frestun ákveðinna verkþátta, en ekki í frestun á gangsetningu véla orkuversins.

Dagblaðið