Vafasamt má telja, áð unnt verði til lengdar að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi á Íslandi, nema lífskjör séu í nokkru samræmi við lífskjör nágrannalandanna. Þetta er alveg óháð því, hvort lífsgæðakapphlaupinu. fylgir nokkur hamingja eða gæfa. Það, sem máli skiptir, er, að góð lífskjör munu freista manna hér eftir sem hingað til.
Íslendingar eru komnir í tiltölulega gott samband við umheiminn. Margir geta bjargað sér á ensku og norrænum málum og flestir eru fljótir að tileinka sér þau, ef þeir þurfa á þeim að halda. Og reynslan sýnir, að Íslendingar eru vel gjaldgengir á vinnumarkaði norrænu- og enskumælandi þjóða.
Í litlu kreppunni hér á landi á árunum í kringum 1967 flykktust atvinnulausir og ævintýragjarnir Íslendingar til nágrannalandanna og fjarlægari landa, allt til Ástralíu. Þessi blóðmissir var ekki alvarlegur, þar sem íslenzku efnahagserfiðleikarnir voru aðeins tímabundnir.
Setjum hins vegar svo, að næsta áratuginn verði varanlegur lífskjaramunur á Íslandi og nágrannalöndunum. Góðar samgöngur munu gera muninn sífellt tilfinnanlegri. Trú manna á mátt þjóðarinnar og megin mun rýrna. Vonleysi mun grípa um sig. Hinir framtakssamari munu þúsundum saman hugsa sér til brottfarar, en eftir munu sitja þeir, sem síður geta bjargað sér.
Að undanförnu hafa íslenzk lífskjör dregizt hægt og sígandi aftur úr lífskjörum annarra þjóða á Norðurlöndum. Láglaunafólk hefur hér á landi helmingi lægri tímalaun en í Færeyjum, Danmörku og Noregi, svo að ekki sé minnzt á Svíþjóð. Menn reyna að bæta sér þetta upp með aukavinnu, sem gerir íslenzkan vinnudag um 25% lengri en vinnudag Dana.
Þessi dugnaður nægir samt ekki til að jafna muninn. Þjóðartekjur eru 25% meiri í Danmörku en hér, og trúlega er svipaður munur á ráðstöfunartekjum heimilanna, þegar tekið hefur verið tillit til hinnar íslenzku yfirvinnu.
Ekki segir þetta alla söguna, því að ódýrara er að lifa í Danmörku en á Íslandi. Einkum er munurinn áberandi í matnum, enda er danskur landbúnaður tiltölulega hagkvæmur. En þar í landi er jafnvel rafmagnið ódýrara, þótt það sé nær allt framleitt með olíu.
Að sjálfsögðu er dýrara að vera fámenn þjóð í stóru landi en fjölmenn þjóð í litlu landi. En á móti kemur, að Danir verja miklum fjárhæðum til landvarna og jafnar það aðstöðumuninn.
Lífskjaramunurinn stafar fyrst og fremst af því, að danska þjóðfélagið er betur rekið en hið íslenzka. Þeim nægir að fjárfesta 20% af árlegum þjóðartekjum, en við þurfum 30%, enda eru þær dýrar Kröflurnar og Þörungavinnslurnar. Við erum með landbúnað á framfæri ríkissjóðs, en þar er landbúnaðurinn ein kjölfestan.
Þetta eru bara tvö dæmi af mörgum um þörfina á uppskurði á efnahagskerfi okkar til að minnka aftur lífskjaramuninn, hindra alvarlegan fólksflótta og tryggja á þann hátt framhald efnahagslegs sjálfstæðis þjóðarinnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið