Punktar

Enn er tími

Punktar

Okkur er sagt, að enn séu tækifæri til að bjarga lífi jarðarinnar. Hér getum við tekið þátt í vörnum móður jarðar með því að eyða ekki Þjórsárverum og Fögrufjöllum við Langasjó, láta Kárahnjúka og Miklugljúfur vera lokin á skelfilegu atferli Íslendinga gegn móður náttúru. Við eigum ennfremur að koma vetnisvæðingu samgangna á láði, í legi og á lofti í gang að nýju sem allra fyrst. Engir vísindalegir þröskuldar eru lengur í vegi vetnisvæðingar. Okkur vantar aðeins verðlækkanir með fjöldaframleiðslu á vetnishverflum. Við eigum fyrst og fremst að hætta að berja höfðinu við steininn.

Við sjáum ekki

Punktar

Fyrst sáum við ekki, hvað var að gerast í vistkerfi jarðar. Síðan neituðum við að viðurkenna það. Sumir neita enn, til dæmis George W. Bush Bandaríkjaforseti. Á sama tíma þynnist íshellan og hverfur í norðurhöfum og jöklar Grænlands bráðna. Hafið stækkar og gengur á land og skapar hörmungar um allar strendur. Veður gerast ofsalegri, með tíðari og stærri hvirfilbyljum. Fiskistofnar hafa horfið í sumum höfum og eru byrjaðir að hverfa hér við land. Samanlagt eru þetta mestu fréttir mannkynssögunnar, sagðar í dagblöðum og sjónvarpi, en of fáir hafa enn vaknað til meðvitundar.

Hluti lífríkisins

Punktar

Við berum ábyrgð á heilsu jarðarinnar. Við höfum sett í gang ferli, sem eru að breytast í vítahringi. Regnskógarnir eru að byrja að breytast í eyðimerkur af því að hitinn mun aukast þar um fimm gráður. Á tempruðum landbúnaðarsvæðum mun hann aukast um átta gráður. Jörðin er lifandi fyrirbæri, sem hefur þolað ísaldir og eldgos, en hún þolir ekki áhlaup mannkyns á vistkerfi hennar. Við megum ekki líta á skóga og höf sem forðabúr. Við þurfum að líta á þessar auðlindir sem húðina á sjúkri jörð. Við erum hluti af lífríki jarðarinnar og getum ekki lengi haldið lífi með óbreyttri umgengni.

Ofbeldi mælt

Punktar

Lögreglan flaggaði nýlega vitlausri rannsókn, sem benti til, að ofbeldi væri ekki að aukast í þjóðfélaginu. Annað segir Slysadeild Landspítalans. Þangað leita fimm manns á hverjum degi vegna áverka af völdum ofbeldis. Ofneyzla áfengis tengist þessum vandræðum, margir eru nánast í áfengisdái, þegar þeir koma á deildina. Sumt af þessum áverkum er alvarlegs eðlis, svo sem höfuðáverkar og áverkar á brjósti og kviði af völdum sparka. Talsmenn Landsspítalans segja, að hluti þessara mála komi ekki á borð lögreglunnar, sem átti sig þess vegna ekki á stærð vandans.

Horfa á börnin

Punktar

Björn Bjarnason dómsmálaráðherrar vill að barnaníðingar horfi á fórnardýrin í skýrslutöku af kynferðisbrotamönnum. Hann segir í fyrsta lagi, að engar sannanir séu um, að slíkt fækki sakfellingum og að í öðru lagi sé það í samræmi við 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Ef allt væri með eðlilegum hætti, hefði sakfellingum fjölgað í slíkum málum, en þær hafa staðið í stað. Meiri reisn væri af málflutningi, sem sparaði börnum djúpstæð óþægindi af að standa andspænis kvalara sínum. Eðlilegast væri að taka skýrslur af börnum í Barnahúsi. En Björn er kerfiskarlinn.

Illa við fátæka

Punktar

Ríkisstjórnin hefur óbeit á Neytendasamtökunum og vill ekki fulltrúa þeirra í tíu manna nefnd um matvælaverð. Samtökin hafa þó reynslu af að bera saman matarverð á Íslandi og erlendis. Tólf þúsund félagsmenn eru í samtökunum, svo að ríkisstjórnin er að abbast upp á aðila, sem nýtur viðurkenningar fólks sem málsvari litla mannsins í samfélaginu. Stjórninni er almennt andvíg fátæklingum, svo sem sést af því, að aukizt hefur skattbyrði allra þeirra, sem hafa minna en milljón á mánuði. Mest hefur hún aukizt hjá þeim, sem hafa minna en kvartmilljón á mánuði, um 14% á tólf árum.

Múr milli múslima

Punktar

Súnnítar eru felmtri slegnir yfir framgangi sjíta, hafa að mestu tapað Írak í hendur þeirra fyrir tilverknað nýju krossfaranna. Álitsgjafar í Jórdaníu eru farnir að tala um, að nú þurfi múr eins og Berlínarmúr eða Ísraelsmúr milli sjíta og súnníta, múr sem liggi um Líbanon, Sýrland og Írak og hlífi Jórdönum og öðrum súnnítum gegn yfirgangi sjíta. Súnnítar eru ekki eins heittrúaðir og sjítar og wahabítar, sem ráða á Arabíuskaga og hafa fætt af sér hryðjuverk á Vesturlöndum. Súnnítar eru raunar sá hluti múslima, sem næst stendur Vesturlöndum, en hafa ekki fengið að njóta þess í samskiptum. Palestína er bezta dæmið um, að Bandaríkin og Bretland hafa ekki kunnað að buggja brú til friðsamlegra múslima.

Persía sigraði

Punktar

Krossferðir Bandaríkjanna og Bretlands um Miðausturlönd hafa aukið styrk Persíu, sem nánast vikulega ögrar Vesturlöndum og stefnir að sömu atómstöðu og Norður-Kórea. Amadinejad hefur séð, að eina leiðin til að verjast vestrinu er að ríkið verði svo öflugt hernaðarlega, að Bandaríkin leggi ekki í það. Persar eru orðnir 70 milljónir og búa ekki við mikinn klofning. Persía ræður nokkru um framvindu mála í Afganistan, þar sem herstjórar sjíta ráða í vestustu héruðunum. Einkum þó í Írak, þar sem sjítar hafa náð meirihluta á þingi og neita að sættast við súnníta, sem áður studdu Saddam Hussein. Þar á ofan eru sjítar áhrifamiklir í Sýrlandi og Líbanon, Ísraelum til mikils ama.

Vestrið kom ekki

Punktar

Menn væntu vestrænna framfara í Persíu, þegar Mohammad Katami varð forseti þar árið 1999. Menn bentu á vestrænan lífsstíl stúdenta og sögðu, að þar væri framtíðin. Erkiklerkarnir mundu smám saman hverfa í skuggann. Þetta gerðist ekki, vestrænir álitsgjafar og stjórnmálamenn höfðu ekki skilið stöðu trúarbragða í þjóðfélagi Persa. Þar ríkir róttæk trú sjíta, sem nánast frá upphafi íslams hefur verið andvíg meginstraumi súnníta í trúmálum. Katami náði engum árangri og verkfræðingurinn Mamúd Amadinejad varð forseti í fyrra. Fyrst neituðu menn að horfast í augu við, að hann var róttækur sjíti. Nú átta menn sig loksins á, að hann stefnir eindregið gegn Vesturlöndum og hefur þjóðina með sér.

Langisjór bíður

Punktar

Enn eru til einstæð náttúruverðmæti, sem bíða þess, að athafnamenn hins opinbera komi til að eyðileggja þau. Landsvirkjun hefur augastað á Langasjó, sem er önnur helzta náttúruperla landsins á eftir Þjórsárverum. Vegna sjónarmiða Framsóknar og Landsvirkjunar verða áhugamenn um náttúruvernd þegar að grípa til varna. Það er ekki nóg að fagna pólitískri niðurstöðu í Þjórsárverum, þegar landeyðingaröflin hafa Langasjó í sigtinu. Baráttan fyrir náttúru landsins verður ströng á næstu árum eins og hún hefur verið undanfarin ár. En tíminn vinnur óneitanlega með okkur.

Sveiflast ekki

Punktar

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra ber höfðinu við steininn, þorir ekki að skamma Sjálfstæðisflokkinn fyrir svik í Þjórsárverum, en skammar Samfylkinguna fyrir að berast ávallt með vindinum. Friðrik Sófusson í Landsvirkjun berst hins vegar ekki með vindinum. Hann hefur að vísu neyðst til að semja við Skeiða- og Gnúpverjahrepp um að skjóta á frest miðlunarlóni í verunum. Hann grætur þá niðurstöðu, nefnir milljarðinn sem hann hefur sóað í ráðagerðir þar og segir aðra virkjunarkosti vera dýrari. Er ekki kominn tími til, að Friðrik verði sendiherrafrú í Mósambik?

Snúast á sveif

Punktar

Tvisvar hef ég komið í Þjórsárver og Arnarfell og sannfærzt um einstæða náttúru svæðisins. Ég er feginn, að Sjálfstæðisflokkurinn er að snúast á sveif með náttúruverndarsinnum, fyrst í óbeinni samstöðu með meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur og síðan með yfirlýsingu Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra á Alþingi um, að fyllilega komi til greina að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Framsóknarmenn tregðast enn við undir forustu Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Þeir eru að verða utangátta í flokki með Landsvirkjun, sem hefur keyrt hratt í náttúruspjöllum.

Trúarlin Evrópa

Punktar

Þegar Póllandi losnaði undan oki kommúnismans árið 1989 báru 92% Pólverja
traust til kaþólsku kirkjunnar. Það hefur nú fallið niður í 46% og lækkar
enn. Þetta þýðir, að ofurtrúuð Bandaríkin hafa þar minna fylgi en þau
héldu. Austur-Evrópa er að verða eins vantrúuð og Vestur-Evrópa. Í
Frakklandi og Hollandi er íslam að verða útbreiddasta trúin. Því er von, að
mönnum í Evrópu hætti að verða um sel og vilji stöðva stefnu fjölmenningar.
Gjá er milli trúarofstækismanna í Bandaríkjunum og múslima annars vegar og
hins vegar Evrópumanna, sem vilja leiða trúarbragðadeilur hjá sér.

Að vera og gera

Punktar

Bandaríkjastjórn ver miklu fé í að reyna að telja múslimum trú um, að
Bandaríkin séu góð og hafi gott frelsi og gott lýðræði. Þetta hefur engin
áhrif, af því að múslimar eru ekki að pirrast á því, hver Bandaríkin séu
eða hvort Leví gallabuxur séu góðar. Múslimar pirrast ekki á því, hvað
Bandaríkin séu, heldur hvað þau gera. Sífelldar krossferðir Bandaríkjanna í
löndum múslima eru það, sem málið snýst um. Þær eru orsök þess, að
meirihluti múslima í heiminum elskar Osama bin Laden. Þessar krossferðir
valda því, að Osama er skyndilega orðið algengasta fornafn stráka í löndum
íslams.

Hlaðin hugtök

Punktar

EF ÉG BÝ til lúxusmat heima hjá mér, hefur það engin áhrif á landsframleiðslu eða svokallaða verga landsframleiðslu á enn fínna máli. Ef ég borða hins vegar vondan mat á dýru veitingahúsi, hækkar landsframleiðsla þjóðarinnar.

LANDSFRAMLEIÐSLA er hugtak, sem stendur ekki undir mikilli notkun. Hún er eins og reiknivél, sem kann bara að leggja saman, en ekki að draga frá. Samt er hún notuð til að meta stöðu þjóðarinnar og heimsins og til að draga ályktanir.

EF TÓLF PRÓSENT bandarískra negra á bezta aldri eru teknir af atvinnuleysisskrá og settir í fangelsi, eykst landsframleiðslan þar vestra um alla fyrirhöfnina við að reisa og reka fangelsi. Þetta er þar á ofan raunveruleiki.

EF LANDI á stóru svæði er fórnað fyrir Kárahnjúkavirkjun, hækkar landsframleiðsla vegna tilkostnaðarins, þótt útkoman sé bara niðurgreiðsla á rafmagni til stóriðju. Ef ekki hefði verið virkjað, hefði landsframleiðslan bara staðið í stað.

EF SKÓGUM Amazon er eytt, hækkar landsframleiðslan í Brazilíu, en hún stendur í stað, ef þeir eru látnir í friði og ekki fórnað ómælanlegum verðmætum regnskógarins. Þannig er landsframleiðslan hugtak, sem felur í sér margar hættur.

HAGFRÆÐIN byggist á lélegum hugtökum á þessu tagi, sem eru notuð til samanburðar út og suður, samanburðar milli ára, milli landa og milli hagkerfa. Þannig segja menn til dæmis, að vestan og austan hafs sé landsframleiðslan hin sama.

RAUNAR ERU hagkerfi, þjóðskipulag og umhverfisvernd misjöfn vestan og austan hafs. Margt er gagnlegt í Evrópu, sem mælist ekki í landsframleiðslu og annað er mótdrægt í Bandaríkjunum, sem telst þó þar vera landsframleiðsla.

DV