Punktar

Ljótur leikur klerka

Punktar

Fogh Rasmussen sagðist telja, að islam geti samrýmzt lýðræði. Hins vegar sé nauðsynlegt fyrir múslima í Danmörku og almennt í Evrópu að fallast á lýðræði þess landsins, sem þeir gera að sínu heimalandi. Hann sagði, að Danmörk krefjist þess, að múslimar virði danska siði og reglur, svo sem málfrelsi, jafnrétti kvenna og algeran aðskilnað ríkis og trúar. Hann benti á þann ljóta leik, að múslimskir klerkar frá Danmörku fóru um lönd múslima með falsaðar teiknimyndir til að æsa ríki og þjóðir miðausturlanda upp gegn Dönum.

Dani er fastur fyrir

Punktar

Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra hefur ítrekað, að Danmörk muni ekki biðjast afsökunar á teiknimyndum af Múhameð spámanni. Hann hefur líka ítrekað, að ekki verði linað á reglum um innflytjendur. Þær hafa þótt vera hinar ströngustu í Evrópu. Hann segir þó, að þær séu hinar réttu. Önnur lönd í Evrópu muni taka þær upp. Stjórnvöld í löndum múslima hafa ekki beðizt afsökunar á manndrápum, morðhótunum og íkveikjum, enda segir hann, að þau noti myndirnar til að auglýsa múslimsku sína af pólitískum ástæðum innanlands.

Eins og Rómverjar

Punktar

Í Róm hagar þú þér eins og Rómverjar, segir enskt máltæki, “When in Rome do as the Romans”. Það geri ég, geng settlega um í kaþólskum kirkjum. Þegar ég var þrjár vikur í Marokko og tvær vikur í Egyptalandi, hagaði ég mér eins og ráðlagt er að gera, sýndi leiðsögumanni virðingu, þótt hann segði gott, að kona hafi hálfan rétt á við karl. Hið sama gildir um múslima, sem koma til Evrópu, þeir verða að laga sig að siðum þar. Þeir mega ekki láta illa, þótt þeim líki ekki siðir, þeirra á meðal háð. Þeir eiga í Róm að haga sér eins og Rómverjar.

Eftirlitskerfið

Punktar

George C. Deutsch var til skamms tíma talsmaður NASA, geimferðastofnunar Bandaríkjanna. Hann átti að gæta þess, að niðurstöður vísindamanna væru í samræmi við stjórnarstefnuna. Hann er frægastur fjölmargra slíkra eftirlitsmanna stjórnvalda með vísindamönnum. Hann hindraði viðtöl við James E. Hansen, helzta vísindamann NASA í umhverfismálum. Einkum reyndi hann að hindra, að minnzt væri á þróunarkenningu Darwins. Nú hefur komið í ljós, að prófgráða Deutsch er fölsuð, hann hefur alls enga. Því varð hann að segja af sér.

Lotus Notes

Punktar

Guardian segir, að ekkert forrit í heimi sé eins óvinsælt og Lotus Notes. Sérstakar heimasíður fjalla um, hversu ómögulegt það sé. Þetta kemur mér ekki á óvart, hef oft þurft að nota það og alltaf verið jafn hissa á, að það er beinlínis fjandsamlegt. Að grunni til er það samstarfsforrit, sem bætt er ofan á tölvupósti og ýmsu fleiru til að gera það að heildarforriti. Eins og oft vill verða um slík forrit, sem gera allt, gerir það alla hluti illa. Merkilegast við forritið er þó, að það skuli hafa lifað í áratug við þessar mótdrægu aðstæður.

Kastalavirkið

Punktar

Á sama tíma og múslimar láta ófriðlega gegn vestrænu málfrelsi er ekki lát á spennunni milli Bandaríkjanna og Evrópu. Bandaríkin hafa lokað sig af fyrir umheiminum og sjónarmiðum þaðan. Þau fara ein í krossferðir með sérvöldum stuðningsríkjum á borð við Bretland og Danmörku, Pólland og Ítalíu. Hugarfar ráðamanna í Bandaríkjunum er eins og í kastalavirkjum miðalda, þegar krossferðir voru í tízku. Afleiðingin af krossferðunum er sú, að 87% Íraka vilja strax losna við bandaríska herinn samkvæmt könnun þar í landi.

Miðaldaskríllinn

Punktar

Óeirðir miðaldaskrílsins í löndum múslima eru ekki sjálfbærar, heldur var stofnað til þeirra af stjórnvöldum af ýmsum hagsmunaástæðum. Stjórnvöld í Sýrlandi og Íran hafa lengi sætt vestrænni gagnrýni, eru að borga fyrir sig og Sýrland er þar á ofan að sýna tennur sínar í Líbanon. Hagsmunir klerka skipta einnig miklu í þessu samhengi. Þannig hefur tiltölulega borgaraleg Palestína smám saman tekið upp svipað trúarofstæki og ríkir annars staðar í heimi múslima. Þar er verið að æsa til trúarstríðs gegn brezk-bandarískum krossferðum nútímans.

Erfðabreytingarnar

Punktar

Heimsviðskiptastofnunin hefur sýnt eðli sitt með því að úrskurða, að Evrópa megi ekki hamla gegn erfðabreyttum matvælum með því að láta merkja þau sérstaklega á umbúðum. Það er ekki talið í þágu hnattvæðingar, að fólk fái í Evrópu að sjá, hvað það er að kaupa. Auðvitað munu Evrópumenn ekki taka neitt mark á hinum ógeðfellda úrskurði og halda áfram að neita sér um þau matvæli, sem íslenzk stjórnvöld reyna að troða upp á Íslendinga. Sama er að segja um þriðja heiminn. Frankenstein-fæða verður ekki talinn nothæfur matur næstu áratugina.

Þrír Kastróar

Punktar

Yfirgangur Bandaríkjanna í rómönsku Ameríku hefur margfaldað óvini þeirra. Nú er ekki lengur einn Castro á Kúbu, heldur annar í Venezúela og hinn þriðji kominn til valda í Bolivíu. Uppgangur róttækra manna af því tagi byggist á sárri fátækt almennings og hamslausri græðgi yfirstéttarinnar. Þegar bandarískir ráðgjafar hafa nógu lengið látið siga hermönnum á almenning í rómönsku Ameríku, snýst hann að lokum gegn öllum kvölurum sínum. Og fólkið í álfunni kennir frjálsri verzlun og hnattvæðingunni um döpur örlög sín.

Chamberlain er hér

Punktar

Meðan ráðamenn á Vesturlöndum báðust afsökunar út og suður á birtingu teikninga af Múhameð spámanni í Jyllandsposten, brenndi miðaldaskríll í heimi islams sendiráð og eftirlíkingar fólks, lét öllum illum látum, án þess að nokkrum ráðamanni í þessum ríkjum dytti í hug að biðjast afsökunar. Ástandið minnir á stöðuna fyrir 65 árum, þegar Neville Chamberlain hneigði sig og beygði, meðan Hitler lagði undir sig nágrannaríkin hvert af öðru. Fullorðnir menn á borð við Jimmy Carter verða sér til skammar með því að verja miðaldaskrílinn.

Skipta Halldóri út

Punktar

Valdabarátta manna Halldórs Ásgrímssonar í Framsóknarflokknum hefur gert lítinn flokk einsleitari. Fjöldi áhrifamanna er í ónáð forustunnar, þar á meðal Guðni Ágústsson og Siv Friðleifsdóttir, Kristinn H. Gunnarsson og Jónína Bjartmarz. Flokkurinn er svo illa farinn að fylgi, að skipta verður Halldóri út fyrir kosningar til að flokkurinn eyðist ekki alveg upp. Þá verður ekkert eftir af nothæfu fólki í áhrifastöðum. Aðstoðarmenn ráðherra og aðrir handaflsmenn í stofnun kvenfélaga og öðru innanflokksstríði sitja þar í öllum fletum.

Nýr járningamaður

Punktar

Ég er kominn með nýjan járningamann, ungan mann, sem er dæmigerður fyrir nútímann. Hann er með í farteskinu langa menntun í faginu í útlöndum, þar sem hann hefur lært hvort tveggja að járna heitt og kalt. Hann hefur líka lært heimasíðugerð til að kynna þjónustu sína, fyrsti járningamaðurinn, sem það gerir. Hann segist vera að taka þátt í að stofna félag járningamanna. Þar sem þetta er ein elzta og brýnasta atvinnugrein landsins, er gaman að sjá, hversu vel hún blómstrar í nútímanum, auðvitað við hlið marglofaðra hestanuddara.

Íslenzk hestanöfn

Punktar

Hvað sem verður um Íslendinga í framtíðinni, þá er sumarljóst, að íslenzki hesturinn er sjarmör, sendiherra og sigurvegari. Íslenzkir hestar eru orðnir tvöfalt fleiri í útlöndum en hér á landi. Í Þýzkalandi einu eru eins margir íslenzkir hestar og eru hér á landi. Þegar Íslendingar verða búnir að missa tungumálið og verða öllum gleymdir, svo sem réttlátt er vegna hræsni þeirra og félagslegs rétttrúnaðar, þá mun íslenzki hesturinn blómstra víða um heim og íslenzka enn vera notuð sem tungumál í nöfnum tugþúsunda íslenzkra hesta.

Flugsætið er dýrt

Punktar

Þeir, sem gagnrýna fólk fyrir jeppa, ættu að skoða þann kost í baráttunni gegn óhóflegri benzíneyðslu að hætta að ferðast til útlanda. Athuganir hafa leitt í ljós, að benzíneyðsla á hvert sæti í flugvél er meira í einni ferð fram og til baka er meiri en benzíneyðsla eins jeppa á ári. Með einni ferð Árna Finnssonar, framkvæmdastjóra Náttúruverndarsamtakanna, á ráðstefnu í útlöndum notar hann meira benzín er jeppakallinn og veldur meiri útblæstri gróðurhúsalofttegunda en jeppakallinn. Mörg er hræsnin í heiminum og margur er félagslegi rétttrúnaðurinn.

Grín að trúnni

Punktar

Ekki veit ég, hvað Múhameð spámaður sagði í rauninni. En þá kenningu, sem höfð er eftir honum, að hver karl fái 70 hreinar meyjar í himnaríki, er að sjálfsögðu eingöngu hægt að spotta. Og einnig er eðlilegt, að menn geri grín að dálæti ýmissa klerka múslima á hryðjuverkum og fjöldamorðum. Full ástæða er til að gera grín að spámanni múslima og trú þeirra. Hún sýnir umheiminum andlit, sem er grátt af forneskju, feðraveldi og ofbeldi. Því er heldur ekkert ljótt við, að vestræn ríki fari farlega við að leyfa múslimum búsetu hjá sér.