Punktar

Hausverkur Englands

Punktar

Skotar vilja strax hefja viðræður við Evrópusambandið um framhald á aðild Skota. Það segir Nicola Sturgeon forsætisráðherra skozku heimastjórnarinnar. Ekki bara styður þjóðernisflokkur hennar framhald á aðildinni, heldur hyggjast kratar gera það líka. Þannig stendur nánast allt alþingi Skotlands að skjótum viðræðum. Skotar vita um hagnaðinn af aðildinni og styrkina frá Bruxelles og vilja ekki, að England dragi Skotland með sér út í öngþveitið. Skotar ætla meira að segja að krækja í banka frá London til Edinborgar. Í London rífa bankamenn hár sitt og heimta sjálfstæði borgarinnar. Brexit er fyrst og fremst hausverkur Englands.

Þöggunaráráttan

Punktar

„Lýðræðislegt hlutverk tjáningarfrelsisins er fyrst og fremst sá að tryggja, að vondar skoðanir sé hægt að ræða opinskátt, þar á meðal af þeim, sem vita betur. Sú umræða á sér ekki stað með þöggun, og þá skiptir engu máli, hvort þöggunina megi réttlæta lagatæknilega eða ekki: sú nauðsynlega umræða á sér samt ekki stað með þöggun, en hún þarf samt að eiga sér stað. Engin lagarök breyta þeirri staðreynd. Löglegt er ekki það sama og skynsamlegt.“ Ég geri orð Helga Hrafns Gunnarssonar þingpírata að mínum. Bæti við, að siðblindur Hæstiréttur leyfir kæranda að taka til sín orð um nafnlausan mann. Og leyfir kæranda að ákveða, að tiltekið orð sé móðgandi, þótt Íslenzk Orðabók segi merkinguna aðra. Öllu svona dómarugli ber Blaðamannafélaginu að mæta með að standa undir kærum til æðri dómstóls í Evrópu.

Engir lukkuriddarar

Punktar

Jafnvel prófessorar í stjórnmálafræði virðast eiga erfitt með að skilja pírata. Virðast telja Machiavellisma ráða gerðum allra, því að það er pólitísk venja. Hvarf Helga Hrafns af þingi mun ekki veikja pírata. Hann vill heldur beina orku sinni að of veiku innra starfi pírata. Einnig mun áhugaleysi Birgittu á embætti ráðherra ekki veikja pírata. Hún vill heldur beina orku sinni að ónýtu innra starfi alþingis. Brottfall Jóns Þórs pírata af þingi veikti ekki pírata. Hann kemur aftur í haust, hokinn af reynslu af lífi fólks í malbikinu. Ekkert af þessu skilja fræðingarnir. Þeir ganga bara út frá lukkuriddurum stjórnmálanna.

Vaxandi móðgunargirni

Punktar

Hatursglæpur er sérkennilegt hugtak. Mér sýnist það snúast um tjáningu skoðana, sem valdaaðili telur rangar eða óþægilegar. Lögreglufulltrúi hatursglæpa er dæmi um slíkt fyrirbæri. „Tjáning fordóma grefur undan samstöðu í samfélaginu,“ segir hún. Þá er eftir að skilgreina, hvað séu fordómar. Þeim fjölgar, er vilja fá að ráða, hvað sé tjáð. Samkvæmt móðgunargjörnu fjölmenningarfólki flokkast gagnrýni á Íslam sem fordómar. Þetta er eins og í Sovétríkjunum sálugu, þar sem ýmsar skoðanir voru flokkaðar sem refsiverðar. Orðið hatursglæpur er orðið að eins konar vígorði þeirra, sem þola illa það, sem þeir telja vera rangar skoðanir. Flokkun skoðana í fordóma og þolanlegar skoðanir eru óheillaþróun í lýðræðinu.

Ríkið verndi sjómenn

Punktar

Í skjóli einokunar á kvóta eiga kvótagreifar alls kostar við sjómenn um laun og kjör. Láta sjómenn taka þátt í skipakaupakostnaði og olíukostnaði. Neita árum saman að semja, nema ríkið taki yfir aukinn hluta af launakostnaði. Sjómenn, sem berjast gegn þessu, eru reknir úr skipsrúmi og frystir út af öðrum illhvelum kvótans. Greifarnir hafa undanfarin ár verið fyrirmynd annarra auðgreifa í ýktri græðgi og siðblindu. Ný og siðvædd ríkisstjórn þarf að taka á þessu. Setja lög um kjarasamninga við misjafnt afl aðila. Þar sé gert ráð fyrir, að sérstakur kjaradómur úthýsi kostnaðarhlutdeild og taki tillit til ofsagróðans af einokun á þjóðarauðlind.

Fórnardýr valdshyggju

Punktar

Lilja Alfreðsdóttir varð snemma fórnardýr valdshyggju. Telur sig vera eins konar einræðisherra utanríkismála. Geti gert varnarsamning við erlent ríki án þess að málið sé rætt hjá þingi og þjóð. Svoleiðis var gert í gamla daga, en nú er komið árið 2016 og nýtt Ísland, sem vafalítið mun fella þennan samning úr gildi. Nú er litið öðrum augum á Nató og Bandaríkin en á síðustu öld. Þá átti Nató að verja friðinn í Evrópu, en er nú komið út um víðan völl. Bandaríkin hafa flækt Nató í alls konar furðuverk í öðrum álfum. Valdið miklu manntjóni og eyðingu innviða í Afganistan og Írak. Lilja er síðborið afkvæmi gamla Íslands, sem er á útleið.

Ísland rýrir velferð

Punktar

Óstjórn bófanna hefur notað fjölþjóðatölur frá 2013 til að monta sig af góðum verkum ríkisstjórnar Jóhönnu. Komnar eru tölur frá The Social Progress Index um þróun velferðar. Þar hefur Ísland lækkað um sex sæti 2015, niður í það sextánda. Orðið lægst norðurlanda. Þetta index er merkara en önnur, því það mælir önnur atriði en hina rangnefndu landsframleiðslu. 53 mælitæki meta heilsuþjónustu, menntun, umburðarlyndi og framafæri. Förum til dæmis illa út úr mælingu á rýrari þátttöku í framhaldsskólum, lakara framboði á ódýru húsnæði, skorti á trúfrelsi og tjáningarfrelsi. Pilsfaldakapítalismi fer hér hins vegar með himinskautum.

(The Social Progress Index)

Hvítir riddarar

Punktar

Björn Þorláksson segist eiga skilið fyrsta sæti í prófkjöri pírata í norðaustri. Vegna vasklegrar framgöngu sem frjáls ritstjóri á Akureyri. Lenti í sjöunda sæti samkvæmt Schulze-reiknireglum pírata. Sakar þá um smölun og svindl gegn sér. Sjálfur fór Björn vítt og breitt um kjördæmið til að kynna sig. Gerir lítið úr meðframbjóðendum, sem hann áður lofaði í hástert. Ég kalla hann tapsáran; þetta voru leikreglur. Síðkomnu frægðarfólki er og verður ekki sjálfkrafa tekið sem hvítum riddara. Ég man Guðmund Franklín, sem í þrjá mánuði hóf alla pistla sína með orðunum „við píratar“. Hvarf svo í fússi, þegar hann hafði áttað sig á stöðunni.

Hvorki siðir guðs né manna

Punktar

Ólöf Nordal lét rjúfa kirkjugrið í Laugarnesi eins og óeirðamenn á Sturlungaöld, þegar siðblindingjar lögðu niður þjóðveldið. Væntanlega verður biskup að helga kirkjuna að nýju, svo að hún verði messufær. Bófarnir eru harðir í horn að taka nú sem fyrr. Á sama tíma setur Ólöf reglugerð um að banna sjálfboðaliðum og blaðamönnum að heimsækja flóttafólk. „Telur ráðuneytið, að með þessu sé verið að stuðla að því að koma mannúðlega fram við skjólstæðinga stofnunarinnar,“ segir þar á Newspeak upp úr Orwell. Pyndingaráðuneytið hét þar ástarmálaráðuneytið. Aflendingurinn Ólöf Nordal í skattaskjóli bófa kann hvorki siði guðs né manna.

Ótímabær Þórðargleði

Punktar

Hægri öfgaflokkar í Evrópu vonast til, að fleiri ríki en Bretland segi sig úr Evrópusambandinu. Ótímabær Þórðargleði, því kjarni sambandsins mun standa saman og evran mun hafa sinn gang. Miklu líklegra er, að Brexit hafi neikvæð áhrif á útgönguviljann, þegar fólk sér afleiðingarnar í Bretlandi. Fólk mun sjá, að ekki dugir að saka Evrópusambandið um innri vanda ríkja. Bræðin út af yfirgangi hinna ríku er vestræn staðreynd, sem kemur ekki sambandinu sérstaklega við. Leiðtogar þess verða samt að sjá, að hætta verður að reka það sem leiðtogaklúbb. Fólk þarf að fá miklu meira lýðræði, svo almenna hatrið á Bruxelles fari að koðna niður.

Linnulaus samúð

Punktar

Fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að stórlækka auðlindarentu á kvóta og afnema auðlegðarskatt. Hún hafði ekki lofað því, heldur mörgu öðru, sem hún kom aldrei í verk. Nú hefur hún framkvæmt eitt sinna síðustu verka. Notar ríkissjóð til að borga hluta af kostnaði útgerðarinnar vegna fæðispeninga sjómanna. Notar ríkissjóð til að létta árlega hálfum milljarði kostnaðar af greifum. Þeir eru þó að öðru leyti á framfæri ríkissjóðs vegna einkaréttar á veiðum. Þessi furðulega stefna heitir pilsfaldakapítalismi og kemur niður á velferð almennings. Samúð og meðvirkni ríkisstjórnar bófaflokka snýst um gjafir til ríkisrekinna auðgreifa.

Pund, bankar og landslið

Punktar

Hlutabréf í brezkum bönkum falla daglega í verði eftir Brexit. Viðskipti með bréf í Barclays og Royal Bank of Scotland voru stöðvuð í kauphöllinni. Gengi Lloyds hríðfellur daglega. Fjölþjóðabankar ráðgera flutning til Frankfurt, þar sem London verður ekki lengur aðgöngumiði að Evrópu. Frankfurt tekur við af London sem bankamiðstöð Evrópu. Banksterar í London gráta hástöfum, en auðvitað hefur enginn samúð með þeim. Pundið hefur fallið meðan evran heldur velli og krónan rís eins og íslenzka landsliðið. Til að kóróna vandræðin vantar bara, að enska landsliðið falli í kvöld eins og pundið og bankarnir í London.

Engin allsherjarlausn

Punktar

Brexit er dæmi um, að beint lýðræði jafngildir ekki góðri útkomu. Fulltrúaræði jafngildir ekki heldur góðri útkomu. Við þekkjum betur hér á landi dæmin um síðari kostinn. Spilling þings, lygar ráðherra og heimska þingmanna er daglegur vandi hér á landi. Þess vegna heimta menn beint lýðræði. En það færir okkur ný vandamál í stað þeirra, sem það losar okkur við. Lýðræði er bara aðferð til að fá fólkið að borði valdsins, ekki til að leysa allan vanda. En valdamenn þurfa að standa við beina lýðræðið, þegar þeir hafa boðið upp á þjóðaratkvæði um stór mál, svo sem Brexit eða nýja stjórnarskrá. Var ekki gert hér á landi. Þess vegna þurfum við beinna lýðræði. Án þess að vænta þess, að það leysi allan vanda.

Kann varla á tölvupóst

Punktar

Davíð og skrímslunum gekk ekkert að innleiða þá söguskoðun, að Ríkisútvarpið hafi frá upphafi stýrt sigurför Guðna forsetaefnis. Flokkurinn getur ekki lengur stýrt því í krafti fjölmiðlaveldis, hver sé söguskoðun fólks. Mogginn er dauður sem áhrifaafl. Sjáið afleiðingar þess, að blaðið hefur árum saman farið hamförum í stuðningi við Davíð og hrunskoðanir hans. Fylgi hans til embættis forseta  minnkaði í baráttunni. Stafrænir miðlar fólksins sjálfs hafa tekið við. Þar myndast og koma fram skoðanir á framvindu mála. Davíð hefur engan skilning á, hvernig nýja öldin er orðin. Kann varla á tölvupóst og þekkir ekki fésbókina.

Efni í flokksformann

Punktar

Fyrr eða síðar kemst Sjálfstæðisflokkurinn að því, að hann geti ekki lengur haft aflending í skattaskjóli að formanni. Sama gildir um varaformanninn. Þá liggur beint við að leita um formennsku til Höllu Tómasdóttur. Hún hefur sýnt ótvíræðan kjörþokka í lokaspretti baráttunnar um forsetaembættið. Líklega verður Viðreisn fyrri til. Benedikt Jóhannsson skortir þennan kjörþokka og veit það. Halla hefur því úr ýmsu að velja, er fólk fer að hugsa í alvöru um þingkosningar. Viðreisn er snarari í snúningum og gæti orðið fyrri til. Gæti orðið til þess, að Viðreisn taki senn við af Sjálfstæðisflokknum sem leiðandi afl hægra megin við miðjuna.