Punktar

Vonarstjarnan segir pass

Punktar

Vonarstjarna Framsóknar, Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, mun ekki bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Býst við miðstjórnarfundi í ágúst, þar sem Sigmundur Davíð verði í kjöri. Segir hann ferðast um landið að safna fylgi við endurkjör sitt. Af þessu má spá, að Framsókn fari í næstu kosningar með gaurinn á bakinu. Erfitt mun honum reynast að selja loforð í stíl við þau ævintýralegu, sem hann gaf fyrir síðustu kosningar. Búast má við, að formennska hans verði andstæðingum flokksins að vopni. Horfnir eru gamlir stuðningsmenn hans, svo að hann verður að reiða sig á almenna og alkunna heimsku flokksmanna.

Fjörug prófkjör pírata

Punktar

Sum prófkjör pírata verða fjörug að þessu sinni. Áhuginn stafar beinlínis af, að samkvæmt könnunum má búast við töluverðri fjölgun þingmanna flokksins. Eitt efnið bar brátt að, gekk í flokkinn, lýsti strax yfir áhuga á efsta sæti lista. Ekki varð af þeirri útkomu og varð af nokkur hvellur og illindi. Skrautlegra var þegar forustukona í framkvæmdaráði fór að skrifa hvassar færslur gegn þekktasta þingmanni flokksins. Rauk síðan úr flokknum með þjósti og í reiðikasti, þegar hugmyndirnar höfðu lítinn framgang. Nú er hún komin til baka og vill þingsæti hjá flokknum. Mér sýnast píratar hafa burði til að mæta flestum lukkuriddurunum.

Með tveimur hrútshornum

Punktar

Samræðustjórnmál virka, séu viðmælendur sammála um ýmis grundvallaratriði. Virka ekki í klofnu samfélagi eins og Íslandi. Hér stendur slagurinn milli hinna allra ríkustu og fátækari helmings fólks. Ríkisstjórnin stöðvaði aðgerðir í átt til jöfnunar lífskjara. Magnaði í staðinn stéttaskiptingu með árásum á velferð, heilsu og menntamál. Lækkaði skatta og gjöld hinna allra ríkustu og veitti þeim skuldaafslátt. Baráttan kristallast í slagnum um stjórnarskrá fólksins og þriggja paragraffa frumvarp forsætisráðherra. Þar gekk stjórnarandstaðan of langt í samræðustjórnmálum. Við bófa talar maður bara með tveimur hrútshornum.

Hún svindlar – þú borgar

Punktar

Mjólkursamsalan seldi sjálfri sér og skyldum aðila, Kaupfélagi Skagfirðinga, mjólk við vægu verði, nánast ókeypis. Okraði hins vegar árum saman á sömu vöru til Mjólku, samkeppnisaðilans. Er Mjólka nálgaðist gjaldþrot, keypti Kaupfélag Skagfirðinga Mjólku og verðið lækkaði. Þá sneri Mjólkursamsalan sér að okri á nýju fyrirtæki, Kú. Í verðlaunaskyni fyrir glæpsamlega viðskiptahætti gerði ríkisstjórnin tíu ára samning um mikinn ríkisstuðning við Mjólkursamsöluna og Kaupfélagið. Mjólkursamsalan fékk loks hálfs milljarðs stjórnvaldssekt fyrir okrið. Hálfa milljarðinn hyggst hún, að Framsóknarsið, leggja á herðar neytenda.

Fráleit paragröff

Punktar

Súrt er, að Sigurður Ingi Jóhannsson hyggist svívirða þjóðarviljann. Með því að hafna vinnu þjóðfundar, stjórnlagaráðs og þjóðaratkvæðagreiðslu við stjórnarskrá þjóðarinnar. Forsætisráðherra vill halda sumarþing um þriggja paragraffa ræfil frá stjórnlaganefnd Sigmundar Davíðs. Paragröffin eru í engu samræmi við áður upplýstan þjóðarvilja. Eru raunar sett fram til að gera fólki erfiðara fyrir að koma nýju stjórnarskránni í gegn. Ljóst er, að ekkert samkomulag verður á þingi um ræfil Sigurðar Inga. Forsætis er bara að koma illu af stað í lok ferils síns og tefja næstu alþingiskosningar fram til vors. Þetta eru fráleit paragröff.

Sá fylgislausi hótar

Punktar

Fylgi Framsóknar er fallið niður í 6,4%, sögulegt lágmark. Jafnframt er fylgi ríkisstjórnarinnar 32%, á svipuðum slóðum og það hefur verið misserum saman. Svo notuð séu orð Bjarna Benediktssonar, þegar seig á ógæfuhliðina hjá Jóhönnu: „Er ekki kominn tími til að skila lyklunum?“ Í stað þess að fylgislaus Sigurður Ingi Jóhannsson segi af sér, vill hann heyja stríð út af stjórnarskránni. Vill spilla fyrir stjórnarskrá fólksins með því að leggja fram þriggja paragraffa ræfil. Sem ætlað er að hindra fulla auðlindarentu þjóðarinnar af greifunum, sem sitja einir að auðlindinni. Að öðrum kosti mun hann neita að efna loforð um haustkosningar.

Bindi veitir refsileysi

Punktar

Sértu í jakkafötum með hálsbindi, þá sleppurðu. Lög ná ekki til fínimanna. Hef enga trú á, að þjóðin sæki réttlæti yfir hrunbófum í hendur dómara. Þeir munu róa fram í gráðið og muldra um fyrningu og tæknilega vanreifun mála. Og fresta og fresta. Fínimenn eru ekki dæmdir. Verði stjórar dæmdir, fá þeir sérmeðferð á Kvíabryggju. Hefnd fólksins felst fyrst og fremst í að fylgjast með. Rifja upp, hvernig bófar, kontóristar og pólitíkusar léku þjóðina grátt. Hvernig eignum var komið undan til útlanda og aðrar voru brenndar. Hér vantar forngrískan dómstól götunnar til að vísa verstu bófunum í útlegð. Dómstólar eru stéttvíst ónýtir.

Flýr andverðleikana

Punktar

Sorglegt er, að Sigríður Benediktsdóttir skuli segja af sér sem framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika í Seðlabankanum. Þar hefur hún greint og metið kerfisáhættu og fjármálastöðugleika frá 2012 og mótað varúðarreglur fyrir fjármálakerfið. Áður sat hún í rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna. Átti mikinn þátt í skýrum og undanbragðalausum texta skýrslunnar. Hún fer í starf hjá Yale-háskóla sem vísindamaður og kennari, þar sem hún var fyrir hrunið. Hún gefst of snemma upp á Íslendingum. Spillta ríkisstjórnin er að hruni komin. Ný ríkisstjórn hefði þurft á henni að halda sem Seðlabankastjóra sínum.

Glórulaus ríkisstjórn

Punktar

Ríkisstjórn Jóhönnu lækkaði skuldir fátæklinga, sem skulduðu meira en þeir áttu. Stjórn Sigmundar Davíðs lækkaði skuldir hinna, sem áttu margfalt meiri eignir en skuldir. Til dæmis fengu 1250 stóreignamenn 1,5 milljarða afslátt skulda. Og þriðjungur eftirgjafafólksins skuldaði minna en 10 milljónir. Ekki er verið að létta á fátækum, heldur hinum allra ríkustu. Frá upphafi hefur stjórnarstefnan verið að hlúa að auðfólki, til dæmis með tugmilljarða afslætti af auðlindarentu og afnámi auðlegðarskatts. Féð er núna sótt með minnkun barnabóta og vaxtabóta. Verulega andstyggileg stjórn stundar glórulaust óréttlæti gagnvart almenningi.

Sama gamla tóbakið

Punktar

Endurnýjun pólitísku bófanna er við hæfi. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir andmælir ekki, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geymi peninga í skattaskjóli. Ritari flokksins segir þá bara mega ekki leyna því. Utanríkisráðherra Framsóknar telur sig geta gert nýjan varnarsamning við Bandaríkin. Lilja Alfreðsdóttir telur sig ekki þurfa að leita álits alþingis og utanríkismálanefndar þess. Þessar ungu konur eru gamla Ísland, fullar sjálfstrausti og yfirgangi. Þær munu ekki taka þátt í að breyta því í nýja Ísland. Þær munu ekki stuðla að jafnstöðu borgara, réttlæti og velferð. Þær eru bara endurnýjun á sama gamla tóbaksruddanum.

Gegnsæir skattar

Punktar

Bæta þarf hefðbundna birtingu álagningaskráa. Birta þær stafrænt á netinu. Úrelt er að fólk mæti á sérstakan stað í sérstaka sumaropnun. Birtingin er mikilvægur þáttur í að halda uppi pressu á jafnstöðu fólks til tekna. Þetta eru fjármál, en ekki einkamál. Fjármál eru opinber mál, því þau eru grunnur allrar spillingar. Eftirlit af hálfu skattaeftirlits hefur reynst ófullnægjandi hér á landi. Standa þarf gegn kröfum um, að skattar teljist vera viðkvæmar persónuupplýsingar, enda er birting þeirra samkvæmt lögum. Styrkasta stoð lýðræðis er gegnsæi um fjármál, þar á meðal um skatta, skattsvik og skattaskjól. Engan feluleik með skatta.

Jafnvel Vigdís hættir

Punktar

Pólitíkin er víða skrítin. Nigel Farage er helzti sigurvegari Brexit kosninganna í Bretlandi. Ætlar samt að segja af sér sem formaður UKIP, flokks andstæðinga Evrópusambandsins. Boris Johnson hefði verið sjálfkjörinn formaður Íhaldsins eftir ósigur David Cameron í Brexit. Johnson var helzti áróðursmaður útgöngu úr sambandinu. Hyggst samt ekki taka við formennsku flokksins. Farage og Johnson flýja báðir undan eigin sigri. Vita, að þeir geta ekki greitt úr vanda Bretlands við útgönguna. Svipaður ótti sligar þingmenn Framsóknar. Hver um annan þveran sjá þeir kosningaósigur blasa við. Jafnvel Vigdís Hauksdóttir hyggst hætta.

Ilmur þorskhausanna

Punktar

Hreppsnefndin á Laugum í Reykjadal ákvað á sínum tíma í vísdómi sínum, að þorskhausaverkun staðarins skyldi vera þar sem bæjartorg er annars staðar. Fagurri fabrikku var komið fyrir milli hótels og sundlaugar annars vegar og veitingahúss, hreppskontórs og hins frábæra Sparisjóðs Reykdæla hins vegar. Vafalaust var þetta talið til þess fallið að efla ferðaþjónustu staðarins. Einhverra hluta vegna fluttist hún samt á jaðra svæðisins, á Stóru-Laugar og Narfastaði. Fáir túrhestar ganga hins vegar um í vímu ilmsins af þorskhausum miðbæjartorgsins. Erfitt reynist stundum að éta kökuna og eiga hana í senn.

Fólkið styður Evrópu

Punktar

Daginn eftir Brexit spáði ég, að útkoman mundi fæla Evrópuþjóðir frá útgöngu úr Evrópusambandinu. Nefndi Dani sem dæmi. Í tveimur skoðanakönnunum kom svo í ljós, að Brexit jók fylgi Dana við aðild. Stuðningsfólki aðildar fjölgaði úr 50% í 70%. Andstæðingum aðildar fækkaði úr 22% í 18%. Sama mun koma í ljós í Hollandi, þar sem mikið var talað um útgöngu. Evrópusambandið er því síður en svo að gliðna í sundur. Það er traustara en það var fyrir Brexit. Og evran blífur meðan pundið fellur. Fólk fattar, að Brexit áróðurinn var rekinn á upphrópunum og lygum. Enda þorir Boris Johnson alls ekki að taka við formennsku í brezka íhaldsflokknum.

Þegja þunnu hljóði

Punktar

Sumir múslimar lagast illa að vestrænni veraldarhyggju. Margir klerkar íslams banna aðlögun. Predika þá karlrembu frá miðöldum, að konur og börn séu ekki fólk. Halda á lofti sharia trúarlögum á kostnað landsins laga. Gera óbilgjarnar kröfur um aðlögun kerfisins. Ofsækja hófsama múslima, sem vilja víkja frá miðaldahyggju. Snúa töpurum af annarri og þriðju kynslóð ríkisborgara til ofsa. Tugþúsundir ganga til liðs við öfgasamtökin Isis. Þúsundir fara til Sýrlands að berjast. Þúsundir eru komnir til baka, þar á meðal hundruð til norðurlanda. Samtök múslima eiga að taka fast á klerkavandanum, en hafa þagað þunnu hljóði.