Punktar

Allt vill lagið hafa

Punktar

Hvorki Vinstri græn né Samfylkingin taka undir kröfu Pírata um samþykkt nýrrar stjórnarskrár á stuttu alþingi. Sýnir takmarkaðan áhuga gömlu flokkanna á nýrri stjórnarskrá, annan en að tala og tala um hana. Hefur þó verið rædd árum saman og verið snyrt til á þingi fyrir fjórum árum. Sýnir líka, að píratar komast skammt með þetta höfuðmál, nema með því að finna sátt í málinu. Kannski verður að semja um millilangt kjörtímabil, 3 ár. Slíkt mundi líka gefa tíma til að afgreiða nokkur fjárlög með áherzlum Pírata í uppboðum veiðileyfa og frjálsum strandveiðum, í heilbrigðismálum, velferð og skólamálum. Allt vill lagið hafa.

Ónothæft prófkjörsapp

Punktar

Nánari skoðun á prófkjörs-appi pírata sýnir, að það er mér ónothæft. Þar eru hvorki spurningar um viðhorf til breytinga í náttúruvernd né til breytinga á höfundarétti. Þar eru heldur ekki spurningar um þátttöku í starfi pírata. Þar af leiðandi sjást engin svör þessara hundrað frambjóðenda í þessum mikilvægu málaflokkum. Engar fréttir hafa komið fram um, að bætt verði úr þessu og að frambjóðendur verði beðnir um að bóka afstöðu sína. Þetta þýðir, að ég get ekki notað prófkjörs-appið til að velja frambjóðendur, heldur verð ég að fara fjallabaksleiðina með því að skoða heimasíður þeirra. Það er tveggja daga verk.

Minnkandi trúgirni

Punktar

Sigmundur Davíð hyggst endurheimta stöðu sína í flokknum og auka fylgi hans með nýrri sjónhverfingu í vísitölumálum. Verður í andstöðu við samstarfsflokkinn, sem vill fara ögn meira með löndum í óframkvæmanlegum loforðum. Sigmundi Davíð halda hins vegar engar hömlur, hvorki veruleiki né rök. Honum gekk svo ofurvel í síðustu kosningum, þegar hann lofaði öllu, sem fólk vildi heyra. Ekkert fé er til ráðstöfunar upp í loforðin. Nema tekin verði upp auðlindarenta með uppboði á kvóta og auðlegðarskattur endurheimtur. Hvorugt vilja ríkisstjórnarflokkarnir heyra. En hætt er við, að kjósendur verði núna minna trúgjarnir en síðast.

Misjafnt líf í tuskunum

Punktar

Pírataspjallið er líflegasta pólitíkin þessar vikurnar. Þar er allt að gerast, fyllt í göt á stefnuskránnni og frambjóðendur kynna sig og mál sín. Hinn nýi flokkurinn lætur ekki mikið fyrir sér fara. Viðreisn virkar eins og safnþró þeirra, sem gefast upp á breytingu Sjálfstæðisflokksins yfir í fullþroskaðan bófaflokk þjófræðis. Engin orka virðist eftir í Samfylkingunni, gamla settið er enn í framboði, að Möllernum frátöldum. Framsókn er mörkuð dauðanum, ráfandi um með leifarnar af von Wintris úr skattaparadísinni á aflandseyjunni. Vinstri græn njóta þess, að Píratar hafa ekki enn fattað mikilvægi ósnortinna víðerna.

Þú finnur frambjóðandann

Punktar

Búinn að skoða slóðina http://stefnumot.piratar.is/. Lízt vel á þá leið til að velja milli margra frambjóðenda í prófkjöri. Aðalgallinn er spurningalistinn. Þar vantar heila spurningaflokka, sem skipta máli. Svo sem aðild að störfum pírata, viðhorf til ósnortinna víðerna og höfundaréttar. Legg til, að slíku verði bætt við. Sömuleiðis vantar enn svör mikilvægra frambjóðenda. Öllu þessu á að vera auðvelt að kippa í liðinn. Notendaumhverfi slóðarinnar er vænt og gefur okkur kost á að breyta vægi spurninga og skoða nánar svör frambjóðenda. Svona geta aðrir flokkar ekki, því enginn trúir neinu orði frambjóðenda þeirra.

Hvað vilja þessir hundrað

Punktar

Nú tikkar klukkan í prófkjöri pírata fyrir Reykjavíkurkjördæmin og Kragann. Yfir 100 manns eru í framboði. Mig langar að sjá skrá um viðhorf frambjóðenda til mikilvægustu stefnumála pírata. Hverjir fylgja stefnuskránni í sem flestum atriðum? Sér í lagi langar mig að vita um viðhorf frambjóðenda til uppkasts stjórnlagaráðs að stjórnarskrá. Það er á stefnuskránni, en margir frambjóðendur hafa ekki tjáð sig enn. Einstakir kjósendur geta auðvitað grafið þetta upp sjálfir fyrir sig, en það tekur mikinn tíma. Þægilegra væri að geta rúllað yfir þessar staðreyndir í töflu. Mundi stuðla að upplýstri ákvörðun fleiri kjósenda.

Meirihluti auðveldar stjórnarskrá

Punktar

Vitum ekki nú, hversu mikið fylgi er við stjórnarskrá stjórnlagaráðs eða útgáfu hennar eftir breytingar í meðförum alþingis 2012. Þjóðaratkvæðagreiðslan 2012 gaf þó vísbendingu um almennan stuðning. Skipan alþingis eftir haustkosningar svarar þeirri spurningu. Fái píratar meirihluta, er málið einfalt, nýja skráin verður staðfest í þjóðaratkvæði. Forsetinn getur ekki gengið gegn vilja fólks. Verði hins vegar samstarf flokka um meirihluta, fer útkoma stjórnarskrármálsins eftir samkomulagi málsaðila. Leitað verður að öruggum meirihluta um niðurstöðu. Farsælast verður, að píratar fái meirihluta og geti höndlað framvindu málsins.

Einn af seglum heims

Punktar

Miðbærinn í Reykjavík er aftur orðinn skemmtilegur eftir áratugi eymdar. Hann er fullur af útlendingum, sem ráfa um, helmingurinn með snjallsíma fyrir augum. Miðbærinn teygir sig vestur eftir Norðurströnd og austur eftir Sæbraut. Miklu betra er að fara um miðbæinn, síðan takmarkaðar voru ferðir rútubíla. Allar verzlanir eru opnar alla daga. Mér finnst erfitt að skilja, hvernig mannþröngin rýrir verzlunarveltu á Laugavegi. Lundabúðir fara mér ekki í taugar. Kaffihús og matstaðir eru á hverju horni. Þetta er eins og í útlandinu. Ísland er ekki lengur verstöð, heldur einn af seglum heimsins. Strøget í Køben er mér gleymt.

Sigmundur á ekki séns

Punktar

Pólitíkin er að mestu þögnuð þessa hásumardaga. „Íslandi allt“ bréf Sigmundar Davíðs gleymdist fljótt, enda muna sumir ekki lengur eftir þeim skrítna fugli. Hann er búinn að agitera fyrir sér um land allt og telur sig eiga pólitíska endurfæðingu vísa. Ég efast um, að það sé nær veruleikanum en annað, sem frá honum hefur komið síðustu ár. Hálfur heimurinn hefur séð myndbandið af hræddum bófa, sem kominn er inn í horn. Ekki verður framar hægt að sýna hann erlendis. Margir framsóknarmenn skilja það, mest í hans eigin kjördæmi. Alþjóðlegur persónugervingur spillingar í skattaskjólum á aflandseyjum á ekki lengur séns.

Deilt um meðferð alka

Punktar

Á hverri viku sækja þúsundir Íslendinga fundi í hundrað AA-klúbbum. Margir ná þeim árangri að vera án áfengis árum saman, sumir ævilangt. Klúbbar eru þar fyrir konur og yngra fólk. SÁÁ byggjast mikið á þessu starfi og vísa fólki til eftirmeðferðar í AA. SÁÁ bæta þó við ýmissi læknisfræði. Veita ríkinu þjónustu við svo vægu verði, að enginn samkeppni verður til. Í ljós hefur komið, að sú aðferð hentar bezt miðaldra körlum og sízt ungum konum. Leiddi til gagnrýni á SÁÁ á þessu ári. SÁÁ voru þó áfram ánægð með sig og svöruðu fullum hálsi. Kanna þarf fleiri og líklega dýrari aðferðir, er henta þeim, sem ekki fíla SÁÁ og AA.

Hverju skal trúa?

Punktar

Umræða um svokallaðan múslimavanda í Evrópu slengist fram og aftur í bylgjum. Í fyrra var algengt að telja aðlögun þeirra ganga sæmilega og glæpir ekki taldir sérstakt vandamál. Upp úr áramótum breyttist þetta eftir róstur í Köln og víðar í Þýzkalandi, svo og eftir þátt norska ríkissjónvarpsins um róstur í ýmsum borgum Svíþjóðar. Þá kom fram, að lögreglan hafði skipulega brenglað og þaggað tölur um glæpi múslima. Þýzka sjónvarpið baðst afsökunar á aðild að þessari þöggun. Sex mánuðum síðar kemur lögreglustjóri í Málmey fram og segir norska sjónvarpið og fleiri fjölmiðla hafa ýkt málið. Hverju á maður að trúa?

Alkóhólismi er veiki

Punktar

Rækilegasta rannsókn á alkóhólisma stóð 1940-1995 á vegum teymis vísindamanna  við Harvard. Niðurstaða var birt í bókunum „The Natural History of Alcoholism“ 1983 og 1995. Hún felst í að alkóhólismi sé líkamlegur og andlegur sjúkdómur. Hefur sú niðurstaða fengið viðurkenningu bandarísku læknasamtakanna. Ennfremur var niðurstaðan, að AA-klúbbarnir væru vænlegasta leið alkóhólista til bata. Sá galli er á þessari rannsókn, að í úrtakinu voru eingöngu karlmenn. Síðar hafa verið gerðar athugasemdir við, að niðurstaðan ætti ekki í sömu hlutföllum við til dæmis ungar konur. Sá ágreiningur er enn óútkljáður meðal fræðimanna.

Ísland er ekki dýrt

Punktar

Ísland er ekki of dýrt fyrir ferðamenn, allra sízt Reykjavík. Landið er í tízku og öll tízka er dýrari en Bónus. Lýsingar erlendra túrista benda ekki til okurs í Reykjavík. Hótel fá góðar einkunnir og veitingahús frábærar. Frávikin eru fá og kunn flestum, sem vita vilja. Taka má tillit til styttra ferðatímabils úti á landi. Sumt er þar þó á mörkum okurs, einkum veitingar við þjóðveg 1. Um allt er jafnóðum skrifað á þar til hönnuðum heimasíðum. Skussarnir sleppa því ekki undan aðhaldi. Mesti skussinn er ríkið, er útvegar of lítið hreinlæti, of lítil bílaplön, of lítið af göngustígum, of lítið af malbiki og verkkvíðinn ráðherra.

Þjófræði eða lýðræði

Punktar

Til eru tvær nýjar stjórnarskrár. Önnur frá stjórnlagaráði, sú sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hin frá nefnd alþingis 2013, sem hafði samráð við lagatækna um tæknilegar, en ekki efnislegar breytingar. Píratar hafa forustu í baráttu fyrir þessum nýju skrám. Telja þær vera forsendu aukins lýðræðis og siðvæðingar hins pólitíska lífs. Þeim ber skylda til að ákveða, hvorri skránni þeir tefla fram í viðræðum við aðra stjórnmálaflokka. Þannig verður málið handfast í einu skjali. Í þeim viðræðum ætti að geta komið fram, hvor hugnast öðrum flokkum betur. Á slíkum grunni er hægt að heyja baráttu milli lýðræðis og þjófræðis.

Komin á endastöð

Punktar

Stjórnarflokkarnir eru klofnir í afstöðu til haustkosninga. Leiðtogarnir segja ekkert hafa komi upp, sem hindri þær. Þeim fylgir þorri þingmanna Sjálfstæðis og minnihluti þingmanna Framsóknar. Sigmundur Davíð er kominn á stjá og hefur tekið forustu fyrir þeim, sem hafna haustkosningum. Staða hans er veik, einkum í kjördæmi hans sjálfs. Pólitískt er hann dauður af öðrum ástæðum. Með Sigmundi á þessum væng er marklaust dót í þingflokki Framsóknar svo og Moggi og ýlfrandi hægrið í vefmiðlum. Útkoman er eins og Katrín Jakobsdóttir segir: „Best væri að rík­is­stjórnin við­ur­kenndi það, sem allir sjá: Hún er komin á endastöð.“