Punktar

Þríklofin Framsókn

Punktar

Framsóknarþingmenn geta ekki vænzt hjálpar stjórnarandstöðu við að knýja fram ráðherrafrumvörp, sem margir sjálfstæðisþingmenn eru andvígir. Þetta sér Vigdís Hauksdóttir. Hún leggur því til, að þing verði rofið á morgun og kosið verði í lok september. „Þetta segi ég til að hlífa landsmönnum við bulli, vitleysu og firru, sem verður annars næstu vikurnar. Í hádegisfréttum voru tvö mál komin strax í ágreining – þ.e. búvörusamningar og vegaframkvæmdir – þetta verður óbærilegt.“ Þannig er Framsókn þríklofin í þá, sem vilja kjósa í september, sem vilja kjósa í október og sem vilja kjósa næsta vor. Þetta stjórnarspil er búið.

Erfingjar Sigmundar

Punktar

Fylgislið Sigmundar Davíðs í Framsókn er skipað tveimur ráðherrum, þar af einum þingmanni. Lilja Alfreðsdóttir og Gunnar Bragi mættu ein á herráðsfundinn heima hjá Sigmundi. Aðrir ráðherrar og þingmenn flokksins áttuðu sig á, að Sigurður Ingi Jóhannsson talar við fólk og er viðmælandi. Hann er semsagt pólitíkus, en ekki til skiptis undir sæng eða í reiðikasti. Gunnar Bragi veit þetta ekki og Lilja er skjólstæðingur fyrrverandi forsætisráðherra. Hugsanlega tekst Eyglóu Harðardóttir að losa flokkinn við martröðina. Líklegra er, að samkomulag verði um Lilju sem konu hins nýja tíma. Sá tími er þó endanlega horfinn flokknum.

Valinn maður í hverju rúmi

Punktar

Prófkjörin gengu frábærlega hjá pírötum. Valinn maður í hverju rúmi og flétta kvenna og karla á hverjum lista, bara óvart. 21sta öldin sjálfkrafa gengin í garð hjá pírötum án sérstaks regluverks. Stóru málin eru yfirleitt hin sömu hjá sérhverjum í efstu sætum. Birgitta auðvitað efst og síðan löng röð af fólki með yfir 90% samræmi við mínar skoðanir. Slíkt blæs auðvitað út mitt vel pumpaða egó. Enginn stjórnmálaflokkur býður eins veglega framboðslista og píratar. Enda er almennur flótti hlaupinn í þinglið annarra flokka. Með hverri viku færist þjóðin nær þeirri byltingu, sem hún þarf til að lifa af þjófræði bófaflokkanna.

Farið hefur fé betra

Punktar

Engin eftirsjá er að Illuga Gunnarssyni úr pólitík. Persónugervingur spilltra stjórnmála og vanhugsaðra árása á menntun. Skrúfaði fyrir fullorðinsfræðslu á menntaskólastigi og stytti menntaskólanám um eitt ár. Fyrir hvorugu lá nokkur fagleg rannsókn. Þetta var bara hægri sinnað delluverk ráðherrans til að spilla fyrir opinberum rekstri. Verra var, að Illugi þjónustaði Orku Energy, sem hélt honum á floti með ódýru húsnæði. Gerði einkafyrirtækið að samstarfsaðila við kínverska orkuráðuneytið. Áður var Illugi frægur af ónýtri og ólöglegri stjórn á Sjóði 9, sem kostaði ríkið 11 milljarða að ástæðulausu. Farið hefur fé betra.

Bara dagsetningin komin

Punktar

Þá er dagsetningin 29. október komin, en EF-ið er enn á lofti. Hef enga trú á, að stjórnarandstaðan fallist á þingmál, sem eru ekki enn komin fram, svo sumt verður ríkisstjórnin að gefa eftir. Enda er ekkert samkomulag um dagsetninguna, bara tilkynning stjórnarinnar. Fróðlegt verður að sjá viðbrögð stjórnarandstöðu við þremur stjórnarskrárbreytingum í andstöðu við stjórnarskrá fólksins. Ætli þeir hiksti ekki margir á þeim bekknum rétt fyrir kosningar. Annað skrítið mál er búvörusamningurinn til tíu ára, sem flestir verða andvígir. Enn getur allt farið í háaloft á þessu sumarþingi í boði lamaðrar ríkisstjórnar á banabeði.

Isavia fær að ruddast

Punktar

Isavia geymir ekki gögn um utanferðir stjórnenda og greiðslur af viðskipta­korti fé­lags­ins fyr­ir slík­ar ferðir. Hin margfræga Úrskurðar­nefnd um upp­lýs­inga­mál úrskurðaði, að svo megi vera. Isavia er í ríkiseigu, ein af mörgum stofnunum, sem hafa verið hlutafélagavædd. Reynslan af slíku er ótvíræð. Þær hætta að fara eftir ríkisreglum og byrja að ruddast að hætti einkafyrirtækja. Laun forstjóra og stjórnarmanna margfaldast og á endanum er stofnunum hreinlega stolið frá ríkinu, samanber Kögun. Slík hlutafélög eru að því leyti verri en einkarekstur, að þau lifa á einkavæddri ríkiseinokun. Gera þarf þau aftur að ríkisstofnunum.

Ástarbréfin vega þyngst

Punktar

Ríkisendurskoðandi telur, að mesta tjón ríkissjóðs í hruninu hafi falizt í 175 milljarða greiðslu upp í tæknilegt gjaldþrot Seðlabankans í lúkum Davíðs Oddssonar. Sú upphæð lendir á baki þjóðarinnar. Stóru bankarnir höfðu verið stöðvaðir, en þeir tóku í staðinn lán í litlu bönkunum. Þau lán voru „tryggð“ með svonefndum ástarbréfum Seðlabankans, það er illa tryggð í ónýtum veðum. Glufan var of lengi opin vegna getuleysis Davíðs. Af þessu varð meira tjón en af völdum IceSave. „Lán eiga að vera veitt með tryggum veðum“, segir Sveinn Arason ríkisendurskoðandi. Ekki enn hefur Davíð verið látinn svara til saka.

Norðrið er ófriðlegra

Punktar

Eftir margvíslegar vegavillur víða um heim íslams í Asíu er Nato aftur farið að snúa sér að markmiðinu, vörnum við Norður-Atlantshafið. Toppfundur bandalagsins í Póllandi snerist að mestu um Rússland, sinn gamla óvin úr blessaða stríðinu kalda. Varnir Úkraínu voru í fókus, en líka löndin í norðri. Svíar sendu Löfven forsætisráðherra  og Finnar sendu Niinistö forseta. Noregur hafði áður sent út neyðarkall vegna meiri umsvifa Rússlands í Norðurhöfum. Aftur er rætt um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Nató. Það grefur undan fjölþjóða samstarfi um norðrið með aðild Rússlands. Okkar afskekkti heimshluti er orðinn miðlægari og ófriðlegri.

Málþóf eftir helgi

Punktar

Öfugt við það, sem Sigríður Andersen og fleiri stjórnarþingmenn fullyrða, mun málþóf ekki byrja, þegar kjördagur verður ákveðinn. Miklu líklegra er, að þófið endi, þegar kjördagur er ákveðinn. Hefjist þingfundir eftir helgi, án þess að kjördagur hafi verið ákveðinn, mun málþóf hefjast á fyrsta degi þings. Þetta á að vera deginum ljósara. Dagsetning kosninga er lausn vandans, en ekki orsök hans. Öllum er ljóst, að ríkisstjórnin er dauð. Getur ekki einu sinni komið sér sjálfri saman um verðbólgufrumvarp húsnæðislána, þótt hún segi afgreiðslu þess vera forsendu haustkosninga. Það er ekki heil brú í stjórnarpólitík sumarsins.

Dagsetningu, takk

Punktar

Tveir mánuðir eru til kosninga. Sumarþing er samt ekki hafið og kosningabarátta ekki hafin enn. Ekki eru tilbúin nein frumvörp, þótt listi æskilegra mála sé sífellt að lengjast. Nú er talað um, að afgreiða þurfi frumvarp um verðbólgu húsnæðislána. Ekki er vitað til, að neitt hafi verið unnið í því máli, aðeins að stjórnarflokkarnir séu ferlega ósammála. Frumvarp er því auðvitað ekki til, ekki einu sinni drög að frumvarpi. Á sama tíma eru allir flokkar á fullu við að setja í gang prófkjör eða uppstillingarnefndir. Samt skirrist ríkisstjórnin enn við að dagsetja kosningarnar. Ég held hún fari illa út úr þessu ráðaleysi.

Stórasta þjóð heims

Punktar

Íslenzk kynþáttahyggja fékk byr undir báða vængi, þegar Ólafur Ragnar Grímsson forseti gerðist klappstýra útrásarinnar. Sagði, að Íslendingar væru genetískt hæfari en aðrir til að stofna áhættusöm gróðafyrirtæki um allan heim. Við vitum öll, hvernig það fór. Enn eimir af þeirri hugsun, að Íslendingar séu „stórasta“ þjóð í heimi, beztir í öllu, sem þeir takast á hendur. Genetíska stefnan á sér málgagnið Rómur. Þar eru stórhuga Íslendingar bornir saman við þýzkar smásálir, sem séu varfærnar, vilji eiga fyrir kostnaði, sjái hindranir og vankanta. Allir vita, að Þjóðverjar eru forsjálir. Og að skuldsettir Íslendingar eru án fyrirhyggju.

Hrægammurinn okkar

Punktar

Hagsmunir Sigmundar Davíðs eru öfugir við hagsmuni okkar. Hefur hag af að fela skattsvikið fé á aflandseyju til að breytast í hrægamm til að kaupa gjaldþrota banka fyrir afslátt af krónugengi. Á sama tíma og hann lofar krónuna í hástert, geymir hann aurinn sinn í eyjum. Segist hafa eytt vikum í að safna upplýsingum um Wintris, en hefur samt ekki upplýst neitt. Það var einhver Soros, sem á að hafa skipulagt alþjóðlegt samsæri gegn Sigmundi. Soros þessi lét Sigmund Davíð lenda í kröfum á gjaldþrota íslenzka banka. Gerði hann óvart að hrægammi. SDG skilaði ekki tilskildu CFC framtali um neitt. Brask hans kom fram í skjalaleka.

Einn kemur illu af stað

Punktar

Forustufólk stjórnarandstöðunnar er sammála um, að andinn á Alþingi hafi batnað verulega, þegar Sigmundur Davíð hvarf á brott og Sigurður Ingi Jóhannsson tók við. Sigmundi Davíð er svo illa við andóf, að hann ræður ekki við sig. Sigurður Ingi hins vegar kemur fram eins og mannasættir. Því má búast við hinu versta, takist Sigmundi að halda formennsku í Framsókn og gera að nýju kröfu til stóls forsætisráðherra. Þá fer allt aftur í bál og brand, því Sigmundur kann lítið í mannlegum samskiptum. Er raunar meira eða minna sambandslaus við veruleikann og lifir eigin lífi inni í firrtum loforðum. Framsókn á bágt. þegar SDG tjáir sig.

Gúmmívíxlar kosninganna

Punktar

Langt var til kosninga í fyrra, þegar stjórnarandstaðan vildi afturvirka hækkun bóta til aldraðra og öryrkja. Þá sagði Sigmundur Davíð málið vera “ómerkilega brellu” og “auma tilraun til popúlisma”. Nú eru kosningar í nánd og Sigmundur Davíð hefur skipt 180° um skoðun. Segir núna, að hækkun bótanna þurfi að vera afturvirk. Hann er ekki lengur að lofa upp í eigin ermi, heldur upp í ermi píratans, sem verður forsætisráðherra eftir kosningar. Fleiri loforð eru ódýr um þessar mundir. Stjórnin lofar upp í ermi næsta forsætisráðherra, að styrkir til afreksíþrótta hækki um 100 milljónir á ári. Slíkt heitir „kosningavíxill“.

Ástin er kólnuð

Punktar

Fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra tala í kross um verðtryggingu húsnæðislána. Sá fyrrverandi segir afnám hennar vera forsendu þess, að kosið verði í haust. Fjármála segir hins vegar, að verðtryggingin verði ekki afnumin af sitjandi ríkisstjórn. Ætl­unin sé bara að „minnka vægi“ verð­trygg­ingar til að auðvelda fólki að greiða niður höf­uð­stól hús­næð­is­lána og fjár­magna ný lán. Í meira lagi dularfullt orðalag um, að fátækir verði áfram látnir borga fyrir skuldseiga. Líklega verða ekki báðir aflendingarnir í skattaskjóli saman á mynd á nýjum glæru- og sjónhverfingafundi í Hörpu. Ástin er kólnuð og allt í frosti.