Punktar

Sjálfsmark ríkisstjórnarinnar

Punktar

Ríkisstjórnin getur sjálfri sér kennt um hrun stjórnarflokkanna í könnun Gallups. Hún beit sig fast í stefnu Sjálfstæðisflokksins, þegar hann var í stjórnarforustu í fyrrahaust. Ríkisstjórn vinstri grænna hefur lokað sig inni í fílabeinsturni og hlustar ekki á góð ráð. Hún fellst ekki á, að skynsamlegt sé, að Alþingi setji þak á árlegar greiðslur vegna IceSave. Allt eða ekkert, segir Steingrímur, þegar meiri þörf er á millileið en nokkru sinni fyrr. Afleiðingin er, að þjóðin er farin að halda, að IceSave sé núverandi ríkisstjórn að kenna. Ríkisstjórnin getur sjálfri sér um kennt.

Ríkisstjórnin heyrir ekkert

Punktar

Því meira sem ég les um IceSave því sannfærðari er ég um, að ríkisstjórnin hafi rangt fyrir sér. Hún er komin í sjálfheldu og hlustar ekki á nein ráð. Steingrímur J. Sigfússon bölsótast eins og reiður tarfur. Gylfi Magnússon fer endalaust með sömu, sljóu þuluna eins og zombie. Á sama tíma er þjóðin orðin skelfingu lostin. Stafar af, að hún treystir ekki ríkisstjórninni. Lygar hennar eru orðnar of ljósar öllum, sem sjá vilja. Ríkisstjórninni hefur verið bent á sáttaleið, plan B, sem róar þjóðina og róar þá, sem vilja lána okkur: Þak á ársgreiðslum. En hún heyrir ekkert. Flækist bara fyrir.

Ónýt lög og ónýt túlkun

Punktar

Nefnd um endurskoðun upplýsingalaga er skipuð, því að ónýt eru gömlu lögin og framkvæmd þeirra. Nefndin á að taka á orðalaginu og ekki síður á túlkun þeirra í úrskurðarnefnd um upplýsingar. Í hvoru tveggja felst hörð gagnrýni á Pál Hreinsson lögmann. Hann samdi lögin prívat og persónulega. Hefur æ síðan harðstýrt túlkun þeirra í úrskurðarnefnd. Hann er þannig persónulega ábyrgur fyrir hluta af aðhaldsskorti, sem leiddi til hruns. Samt skipaði Alþingi misheppnaða lagasmiðinn sem formann sannleiksnefndar. Þar abbaðist hann upp á Sigríði Benediktsdóttur. Hann hefur þó ekki enn verið rekinn.

Þúsund milljarða bruninn

Punktar

Gizka á, að IceSave kosti okkur 600 milljarða. Lánarugl Davíðs Oddssonar í fyrrasumar kostar 300 milljarða. Endurreisn bankanna kostar 500 milljarða. Aukinn gjaldeyrisforði kostar 300 milljarða. Síðasta talan var nauðsynleg, þótt ekki hefði orðið hrun, Seðlabankinn var vanfjármagnaður. Eftir stendur, að yfir þúsund milljarðar brunnu í vitleysu. Brunnu í ruglinu, þegar óðir bankamenn lánuðu eigendum sínum og öðrum snillingum án nothæfra veða. Einkum voru það snaróðir bankastjórar, sem ollu hruni þjóðarinnar. Grínistar útrásar, seðlabanka og eftirlitsstofnana áttu þar örlitlu minni aðild.

Brenglað siðferði skilanefnda

Punktar

Skilanefndir gömlu bankanna eru skipaðar lögmönnum, endurskoðendum og öðru fólki með brenglað siðferði. Við og við þarf einhver skilanefndarmaður að segja af sér vegna vanhæfni, nú síðast Lárus Finnbogason í Landsbankanum. Engin skilanefndin hefur reynt að stjaka við bankastjórum og öðru valdaliði bankanna. Það gengur enn allt laust. Í alvöruríki sæti þetta fólk allt inni, bankastjórar, deildarstjórar, lögmenn, endurskoðendur. Þessir óðu um bankana í fyrra, rændu þá og rupluðu. Til að lána sjálfum sér, eigendum bankanna og vildarvinum án nokkurra veðtrygginga. Allir ganga skúrkarnir ennþá lausir.

Bakari hengdur fyrir smið

Punktar

Stjórnin hefur í flestu staðið sig vel og stjórnarandstaðan hefur í flestu staðið sig illa. Samt töpuðu stjórnarflokkarnir miklu fylgi í könnun Gallups og andstaðan vann mikið fylgi. Skýringin er IceSave, klúður stjórnarinnar í samningunum við Bretland og Holland. Það fer svo illa í þjóðina, að halda mætti, að IceSave sé ríkisstjórninni að kenna. Raunar er IceSave fyrst og fremst Sjálfstæðisflokknum að kenna og að nokkru leyti Framsóknarflokknum líka og Samfylkingunni. Sjálfstæðisflokkurinn bjó til kerfið, sem leiddi til IceSave hrunsins. Hann samdi um greiðslur, sem hann þykist nú vera andvígur.

Enn eru menn trylltir

Punktar

Til skamms tíma voru menn trylltir og töldu sig geta allt. Þá var ákveðið að reisa höll við höfnina í Reykjavík og bora göng víðs vegar um fjöll. Nú er komið hrun. Samt er allt enn á fullu í ofurdýru framkvæmdarugli. Göngin undir Vaðlaheiði eru eitt skýrasta dæmið. Kristján Möller samgönguráðherra ætlar að taka göngin fram yfir dauðans alvöru, tvöföldun Suðurlandsvegar. Kristján Möller er dæmigerður dreifbýlispotari. Samfylkingin er algerlega ábyrg fyrir honum. Hún hefur búið til ráðherra úr vargi, sem er ófær um að taka samfélagslegar ákvarðanir. Spillingin er á fullu í Samfylkingunni.

Guð almáttugur með kúlulán

Punktar

Skúbb ársins er neðst á forsíðu DV í dag: “Lögfræðingurinn, sem úrskurðaði um niðurfellingu ábyrgða var sjálfur með 450 milljóna kúlulán.” Lengra getur spillingin ekki náð, meiri getur vanhæfnin ekki orðið. Mánuðum saman hafa menn vitnað í lögmanninn eins og guð almáttugan. Sér er nú hver guð. Gylfi Magnússon vísaði til hans eins og til Hæstaréttar, er enn einu sinni orðinn að fífli. Lögmaður Kaupþings var að úrskurða um sjálfan sig, svo einfalt er það. Hann er enn lögmaður bankans, svo botnlaust er siðleysið. Því meira sem hlutirnir breytast, þeim mun meira eru þeir eins og þeir hafa alltaf verið.

IceSave málið er auðleyst

Punktar

Því miður er ekki hægt að vera andvígur IceSave samningnum til streitu. Of miklu hefur verið lofað til að hægt sé að bakka út. En þorri þjóðarinnar er andvígur. Lausnin felst í, að Alþingi samþykki ruglið með einum fyrirvara: Greiðslubyrði ábyrgðarinnar í vöxtum og afborgunum verði ekki meiri en tvö prósent af landsframleiðslu. Fyrirvarinn snýst bara um greiðslugetu. Hún er það, sem flestir efast um, því að lausu endarnir eru hrikalegir. Með föstu þaki á greiðslur næst sanngirni í málið og þjóðin róast. Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn halda ró sinni. Hvort tveggja er nauðsynlegt.

Fíflaðir lífeyrissjóðir

Punktar

Helztu lífeyrissjóðir landsins hafa verið ginntir til að fjármagna gat í Vaðlaheiði. Það er ekki þjóðhagslegt verkefni, heldur gæluverk Kristjáns Möller kjördæmispotara. Þetta er lífeyrissjóðunum til skammar. Annað mál hefði verið, ef þeir hefðu fjármagnað Suðurlandsveg eða önnur lífsspursmál. Einkennilegt er, að alltaf er kallað í lífeyrissjóðina, ef einhver vitleysa er í gangi. Margsinnis hafa þeir verið kallaðir á fundi vegna galinna hugmynda um endurlífgun gjaldþrota banka. Senn verða þeir kallaðir til að fjármagna Landsvirkjun, sem komin er í ruslflokk og fær ekki meira lánað.

Stanford og Bagger sitja inni

Punktar

Bandaríkjamenn voru ekki lengi að handsama Allen Stanford og aðstoðarmenn hans. Í vetur komst upp, að hann hafði leikið sama leikinn og Landsbankinn hafði leikið með IceSave í Bretlandi. Hann hefur verið ákærður og situr í gæzluvarðhaldi, unz dómur fellur. Á yfir höfði sér 250 ára fangelsi. Danir voru ekki heldur lengi að handsama hinn landflótta Stein Bagger. Hann dró að sér 16 milljarða króna og hefur þegar fengið dóm. Hér hefur réttvísin haft lengri tíma til ráðstöfunar. Samt hefur enginn eigandi eða stjórnandi Landsbankans gamla enn verið dreginn í gæzluvarðhald vegna fjárglæfranna.

Landstjórinn bullar og lýgur

Punktar

Landstjóri Íslands bullar bæði og lýgur. Franek Roswadowski segir IceSave-skuldina ekki munu sliga íslenzka þjóðarbúið. Fullyrðir það út í loftið og færir engin rök, vitnar ekki í neinar heimildir. Þannig bullar hann meira en aðrir, sem tala um IceSave. Þeir reyna þó að hanga í rökum. Roswadowski landsstjóri lýgur líka. Þykist ekki kannast við, að IceSave komi Alþjóða gjaldeyrissjóðnum neitt við. Varð Geir Haarde þó að breyta lánsumsókn, sem hann sendi sjóðnum. Í breytingunni var staðfest ábyrgð Íslands á IceSave. Eins og aðrir mektarmenn segir landsstjórinn það, sem hentar hverju sinni.

Grátið að ástæðulausu

Punktar

Gjaldþrot eru ótrúlega fá. Fyrstu fimm mánuði ársins eru þau aðeins 37% fleiri en þau voru á sama tíma í fyrra. Í maí varð raunar fækkun gjaldþrota milli ára. Flest eru gjaldþrotin í byggingum. Við því er að búast, í þeim bransa hafa smáfyrirtæki jafnan risið og hnigið eftir aðstæðum. Tölurnar um gjaldþrot sýna ekki óeðlilegt ástand. Fullyrðingar um, að atvinnulífið sé að sporðreisast, styðjast ekki við nein gögn. Ástandið er ekki gott, en það er lítið verra en það var fyrir hrun. Látum ekki villast af hagsmunaaðilum, svo sem Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins, sem hafa atvinnu af að gráta.

Setjið IceSave í hægagang

Punktar

Kominn er tími til að taka dampinn úr umræðunni um IceSave. Við þurfum að skipta yfir í hlutlausan gír. Henda má samningnum inn á Alþingi og setja hann þar í nefnd. Gefa sér þar góðan tíma. Ekki byrja að rífast hástöfum. Finna heldur einhverja millileið, helzt einhverja, sem flestir geta sætt sig við. Finna leið, sem útlendingar taka sem eins konar samþykki með semingi. Og sem við hin tökum sem eins konar yfirlýsingu um að málið sé óraunhæft. Ekki sé hægt að heimta, að 300.000 manns borgi 900.000.000.000 krónur. Útlendingar skilja hugtakið þrjár milljónir króna á hvert mannsbarn.

Fórnum bara Steingrími

Punktar

Steingrímur Sigfússon er farinn að æpa út af IceSave. Hann um það, hann getur bara sagt af sér. Hefur keyrt sig út á yztu nöf og núna fram af henni. Hann laug, að samingurinn væri frábær, sem reyndist svo vera ömurlegur. Við skulum leggja Steingrím til hliðar. Við skulum heldur semja um, að Alþingi viðurkenni IceSave samninginn með einu skilyrði. Að ársgreiðslur skaðabóta og vaxta fari ekki yfir 2% af landsframleiðslu. Slíkt mun ekki valda hvelli erlendis og ekki frysta opinber lán. Við munum ekki fá nein lán að sinni á frjálsum markaði hvort sem er. Fórnum bara Steingrími og lífið heldur áfram.