Punktar

Yfirstéttin brást öll

Punktar

Yfirstétt stjórnmála, stjórnsýslu og eftirlits gerði árum saman ekkert til að lina yfirvofandi þjáningar þjóðarinnar í aðdraganda hrunsins. Í heil þrjú ár litu þeir “alvarlegum augum” á stöðuna. Sannfærðu hver annan um, að “ekkert væri hægt að gera”, því að “lagastoðir skorti” til að grípa inn í atburðarásina. Þetta var hið fullkomna ástand fyrir eftirlitslausa græðgi. Yfirstéttin öll brást þjóðinni eins og hún lagði sig. Húkti með hendur í skauti meðan tjónið hrannaðist upp og varð að risavöxnu skrímsli. Öll gamla yfirstéttin er ábyrg fyrir hamförunum, sem nú eru nefndar “svokallað hrun”.

Takmarkalaus vangeta

Punktar

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir er helzti málsvari gömlu yfirstéttarinnar, sem keyrði þjóðina út í hrun. Flytur okkur daglegar fréttaskýringar af góðri framgöngu Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar fyrir Landsdómi. Vitnaleiðslur á þeim bæ hafi leitt í ljós, að allir hafi staðið sig ágætlega í aðdraganda hrunsins. Á öllum póstum hafi menn “litið alvarlegum augum” á þróunina, en “ekkert var hægt að gera”, því að “lagastoðir skorti”. Yfirheyrslurnar hafa raunar leitt í ljós takmarkalausa vangetu gömlu yfirstéttarinnar. Hún var fyrir löngu búin að missa alla stjórn í hendur mestu bófa Íslandssögunnar.

Undirmálsfólk Geirstímans

Punktar

Eftir langar yfirheyrslur fyrir Landsdómi situr eftir beizk tilfinning um þjóðfélag undirmálsfólks. Nánast öll yfirstétt landsins á valdatíma Geirs H. Haarde var skipuð óhæfum vesalingum. Þar á ég við ríkisstjórnina og hirð hennar, ráðuneytisstjórana og hirð þeirra, seðlabankastjórann og hirð hans, forstjóra fjármálaeftirlitsins og hirð hans. Þetta ömurlega gengi sá hrunið koma. Með löngum fyrirvara, sumir með þriggja ára fyrirvara. Samt sátu allir stjarfir með hendur í vösum. Gerðu ekkert til að lágmarka tjónið. Vissulega var þetta ömurlegt gengi andverðleikanna. Undirmálsfólk á öllum póstum.

Álið er léttvægt

Punktar

Álið er ekki verðmætasta atvinnugreinin, þótt Hagfræðistofnun háskólans haldi það. Til að finna vinnsluvirðið þarf að draga frá erlend aðföng, arð til útlanda og vexti af lánum til að afla orku. Taka þarf alla liði með í reikninginn, bæði inn og út. Sjávarútvegur er helmingi stærri atvinnugrein en álið. Og ferðaþjónusta er stærri en sjávarútvegur. Vinnsluvirði áliðnaðar til hagkerfisins er ekki nema 2,5%, sjávarútvegs 5% og ferðaþjónustu 5,5%. Höfum þessar einföldu staðreyndir í huga. En Hagfræðistofnun háskólans hefur löngum birt bölvað bull í skýrslum, sem þjóna undir kaupendur að skýrslum.

Telja læknar sig bófa?

Punktar

Undarleg er hegðun Læknafélagsins og félags lýtalækna, sem þverskallast við ósk Landlæknis um upplýsingar um brjóstaaðgerðir. Ég hef þessi félög grunuð um allt annað en dálæti á persónuvernd sjúklinga. Þau eru að reyna að koma í veg fyrir, að upplýsingar berist til þeirra, sem sætt hafa brjóstaaðgerðum. Núna fela þau sig að baki Persónuverndar bófa, sem liggur undir feldi og gefur sér góðan tíma. Úrskurði Persónuvernd bófa, að Landlæknir megi ekki halda skrá yfir aðgerðirnar, verður það enn einn steinninn í minnisvarða um stofnun, sem stendur í vegi fyrir afskiptum kerfisins af margs konar bófum.

Flissandi dómarar

Punktar

Þótt yfirheyrslur Landsdóms séu skrípaleikur innan yfirstéttarinnar, koma þar fram ýmsar þverstæður. Spurningar dómara leiða sumt í ljós, þótt þeir kunni ekki að fylgja þeim eftir. Eða vilji ekki. Davíð Oddsson sagði, að löngu fyrir hrun hafi ekki verið hægt að bjarga bönkunum. Fjáraustur hans í gjaldþrota banka sker þeim mun meira í augu. Því riðaði ríkissjóður sjálfur til falls. Seðlabankamaður sagði fyrir dómi, að bankar hefðu lengi hagað sér eins og bófar. Samt spreðaði Davíð dýrmætum gjaldeyri í þá. Dómarar flissuðu svo eins og skólapíur, þegar hann sagði fimmaurabrandara í fínimannsboðinu.

Óhæfir vesalingar

Punktar

Ráðamenn þjóðarinnar og eftirlitsstofnana ríkisins litu árum saman “mjög alvarlegum augum” á stöðu og þróun bankanna. Starfsmenn Seðlabankans töldu bankana að falli komna árið 2005, þremur árum fyrir hrun. Davíð Oddsson var sama sinnis ári síðar. Skipuð var sérstök nefnd ráðuneytisstjóra, sem litu “mjög alvarlegum augum” á málin. Samt var gjaldeyri Seðlabankans spreðað í bankana og ríkið gert nánast gjaldþrota. Tinandi yfirstétt taldi “lagastoðir skorta” til að taka hendur úr vösum. Vitnin fyrir Landsdómi sýnast samfelld hjörð vesalinga, sem voru óhæfir til að gegna ábyrgðarstörfum fyrir þjóðina.

Árin hans Geirs

Punktar

Aumingjar íslenzkrar embættismannastéttar koma fyrir Landsdóm hver á fætur öðrum og segja sömu sögu. Þeir sáu ekkert, vissu ekkert, gátu ekkert, gerðu ekkert. Aðrir áttu kannski að gera eitthvað, en ekki þeir sjálfir. Ekki var hægt að gera neitt, hrunið var meira eða minna óumflýjanlegt. Fyrirsjáanlegt með þriggja ára fyrirvara árið 2005. Þeir sögðu hver öðrum, að “lagastoðir skorti” til að taka til höndum. Stóra sagan er sú, sem Egill Helgason lýsir í bloggi sínu. Aumingjarnir játa, að þeir hafi fyrir löngu verið búnir að missa tökin. Í stjórnsýslu Íslands ríkti algert stjórnleysi árin hans Geirs.

Ránið í Seðlabankanum

Punktar

Stóra tjónið í hruninu var ránið á gjaldeyrissjóði okkar í Seðlabankanum á síðustu vikunum fyrir hrun. Höfuðpaurar voru Davíð Oddsson seðlabankastjóri og bankastjórar Kaupþings. Fluttu sjóðinn úr Seðlabankanum yfir í Kaupþing. Upphæðin er núna metin á rúmlega áttatíu milljarða róna í erlendri valútu. Þetta gerði Seðlabankann gjaldþrota og setti ríkissjóð á hliðina við að bjarga bankanum. Við vitum, að hluti ránsfengsins fór til félagsins Lindsor á Tortola-eyju í Karabía-hafi. Að öðru leyti hefur þetta rán hvergi verið til rannsóknar í kerfinu. Davíð sleppur fyrir horn, blessaður öðlingurinn.

Mannasættir verði forseti

Punktar

Frambjóðandi til forseta má ekki vera umdeildur eins og Ólafur Ragnar. Um hana þarf að nást víðtæk sátt. Hún má til dæmis ekki hafa verið framámaður í deilum þjóðarinnar í umhverfismálum. Og hún má ekki ekki verða skotspónn í deilum milli hverfis 101 og landsbyggðarinnar. Auðvitað má hún ekki vera aðili að deilum um evru eða Evrópusamband. Yfirleitt ekki hafa neina þá sérstöðu eða sérvizku, sem gerir fylgisliði Ólafs kleift að beita þekktum flokkadráttum. Við þurfum ekki ófriðarseggi á Bessastöðum. Bezt væri móðir, sem mundi sóma sér vel sem húsfreyja ALLRAR þjóðarinnar á Bessastöðum.

Nýr forseti sameini fólk

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson er mesta sundrungarafl þjóðarinnar. Í staðinn þurfum við sameiningartákn á Bessastöðum. Valinkunnan einstakling, helzt konu, sem líkleg er til að bera klæði á vopnin. Slíkan forseta vantar núna, þegar margvíslegur ágreiningur hefur tætt samfélagið. Hún má gjarna vera meira til hægri en til vinstri í pólitík, því að það dregur úr Þórðarstuðningi slíkra við Ólaf Ragnar Grímsson. Kannski finnst einhver úr Stjórnlagaráði. Enginn pólitíkus má koma nálægt framboðinu. Kosningamál nýs forseta verður einfalt: Sundrum ekki þjóðinni, heldur sameinum hana. Hafið málefnin ekki of flókin.

Jafngildi nauðgunar

Punktar

Ógeðfelldur dómur Arnfríðar Einarsdóttur héraðsdómara yfir ritstjórum DV er sömu ættar og aðrir slíkir. Að mati hennar á refsing fyrir meinta móðgun að jafngilda refsingu fyrir nauðgun. Hvort tveggja kostar milljón krónur í héraðsdómi. Þetta mál snýst um, að hún telur, að upphaf rannsóknar lögreglu sé ekki “rannsókn” lögreglu, heldur sé bara um “skoðun” málsins að ræða á því stigi. Samkvæmt því var frétt DV of snemmbúin. Svona rugl hjá dómara bætist við fyrri dæmi um, að almennt þjáist héraðsdómarar af greindarskorti. Þar lendi þeir lagatæknar, sem ekki geti unnið fyrir sér í einkabransanum.

Misstu stjórn fyrir löngu

Punktar

Helztu valdamenn landsins vissu árum saman að bankarnir voru að hrynja, en gerðu ekkert. Arnór Sighvatsson segir þetta hafa verið vitað í þrjú ár, frá 2005 til 2008, þegar bankarnir hrundu. Á þeim tíma stunduðu ríkisstjórn og seðlabanki linnulausan áróður fyrir snilli íslenzkra bankamanna. Segja nú, að ekkert hafi verið hægt að gera eftir árið 2005. Samkvæmt því var tómlæti þeirra þegar búið að koma okkur á hausinn árið 2005. Samt höfðu þeir þá þegar setið lengi með hendur í skauti og horft á himininn hrynja. “Ég var fyrir löngu búinn að missa stjórn” er aumt innihald varnar Davíðs og Geirs.

Hægfara tíðindi um hrun

Punktar

Váleg tíðindi bárust lúshægt innan valdastéttarinnar. Arnór Sighvatsson, þáverandi yfirhagfræðingur Seðlabankans, vissi 2005, að bankarnir voru að hrynja. Þáverandi yfirmaður hans, Davíð Oddsson seðlabankastjóri vissi þetta árið 2006. Geir H. Haarde, þáverandi forsætis vissi það árið 2007. Svo var það bankaráðherrann Björgvin G. Sigurðsson, sem vissi það ekki fyrr en í sjálfu hruninu í október 2008. Allt er þetta samkvæmt vitnisburði þeirra sjálfra fyrir Landsdómi. Þar kom líka fram, að þeir töluðust yfirleitt ekki við. Sérkennilegt ástand miðað við ástarbréf og fullkomið eftirlitsleysi.

Lélegar yfirheyrslur

Punktar

Landsdómur er heppinn að hafa ákveðið að halda yfirheyrslum sínum leyndum fyrir þjóðinni. Yfirheyrslur fara þannig fram, að formaður dómsins þylur spurningar, sem vitni svarar hverri á eftir annarri. Aldrei kemur fyrir, að svar við einni spurningu leiði til annarrar spurningar. Góðir blaðamenn vita hins vegar, að þannig er fyrst hægt að knýja fram svör, sem vitni reyna að leyna. Þuldar yfirheyrslur eru ekki til þess fallnar að knýja fram hulinn sannleika. Þær eru bara léleg drottningarviðtöl. Endurspegla, að íslenzk dómarastétt er ekki starfi sínu vaxin. Spurði Davíð ekki um ástarbréfin.