Punktar

Ný stjórnarskrá dauðvona

Punktar

Bófaflokkar Sjálfstæðis og Framsóknar á Alþingi munu hindra atkvæðagreiðslu þjóðarinnar um nýja stjórnarskrá. Munu gera það með málþófi í næstu viku. Ef ekki tekst að ljúka málinu þá, er það fallið á tíma. Kjósendur geta fyrst og fremst sakað þessa tvo flokka um útkomuna. Að hluta er þetta líka að kenna verkstjórn í þingnefnd og á Alþingi. Stuðningsmenn stjórnarinnar höfðu allan veturinn til að ýta málinu fram. En voru með allt niðrum sig fram á síðustu stundu. Þannig hafa kaupin of oft gerzt á eyrinni á þessu kjörtímabili. Mál koma of seint fram og stjórnarandstaðan fer létt með að blaðra þau í hel.

Vissi ekki – gat ekki

Punktar

Þótt Landsdómur hafi spilazt dauflega, kom samt þar fram meginlínan í stefnu yfirstéttarinnar. Samkvæmt Jóni Daníelssyni hagfræðingi er hún þessi: Ég vissi ekki, ég gat ekki, þetta er öðrum að kenna. Þetta eru einkunnarorð aumingja, sem stjórnuðu þjóðfélaginu á valdaárum Davíðs og Geirs. Allir eru þeir vesalingar sammála um þetta, pólitíkusar og ríkiskontóristar Flokksins og álitsgjafi ríkissjónvarpsins. Bráðum kemur í ljós, að dómarar Flokksins og yfirstéttarinnar eru sömu skoðunar. Einkunnarorð Flokksins eru því: Vissi ekki, gat ekki, öðrum að kenna. Ríkið rak stjórnlaust á valdaskeiði hans.

Sveik Steingrímur?

Punktar

Hyggist Steingrímur J. Sigfússon afhenda kvótagreifum auðlindir hafsins til tuttugu ára, má afskrifa hann úr pólitík. Nú hafa greifarnir formlega séð aðeins rétt til eins árs í senn. Frumvarpið um fiskveiðistjórn verður lagt fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar í dag. Þá hefst spuni um, að málið sé eigi að síður í anda stjórnarsáttmálans. Sé lekinn réttur, hefur stjórnin endanlega klúðrað þjóðareign á kvóta eftir þriggja ára japl, jaml og fuður. Álit fólks á þessari ríkisstjórn mun endanlega fjúka brott með vindinum. Kvótagreifarnir hafa þá í krafti fjármagns endanlega haft þjóðina undir.

Dalai Lama norðursins

Punktar

Ólafur Ragnar Grímsson lætur Fletcher-skólann í Boston kynna sig sem Dalai Lama norðursins á ráðstefnu 26. marz. Eftir vonum er, að fríkaður ÓRG kynni sig sem eitt af stórhvelum veraldarsögunnar. Merkilegt er þó, að hann velur mann, sem hann neitaði sjálfur að tala við, þegar sá heimsótti Alþingi 2009. ÓRG var þá að gæta hagsmuna ofurbófanna í Kína, sem láta Dalai Lama fara í taugar sér. Sjálfshólið stingur því í stúf við hans eigin gerðir. Nær hefði hinu sjálfhverfa ofurmenni verið að kalla sig móður Theresu eða Sri Chinmoy norðursins. Sá síðari framdi nefnilega kraftaverk á Steingrími Hermannssyni.

Pólitíska öfgaskjólið

Punktar

Í skjóli pólitískra öfgamanna, Davíðs og Geirs, ýttu banka- og útrásarbófar þjóðinni fram af hengiflugi. Geir bað Flokkinn afsökunar, en ekki þjóðina. Enginn annarra öfgamanna hefur beðist afsökunar, hvað þá núverandi formaður Flokksins og þáverandi útrásarvíkingur. Meðan yfirgengileg afneitun stýrir hinum pólitísku höfuðpaurum er lítil von til þess að fólk kasti fortíðinni. Dag og nótt verður hamrað á óuppgerðum svikum Flokksins við alla þjóðina. Og á vangetu hans á að takast á við eigin fortíð. Á sama tíma þýðir ekkert að tuða um, að fólk eigi bara að líta fram á veginn og endurkjósa hrunflokkinn.

Skynsamlegt stjórnarskrár-ferli

Punktar

Skynsamlega afgreiddi Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd Alþingis tillögu Stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Hún verði borin undir atkvæði kjósenda í forsetakosningunum 30. júní. Kosið verði um tillöguna í heild og greidd atkvæði sérstaklega um fimm umdeild atriði. Þau eru um þjóðareign auðlinda, stöðu þjóðkirkjunnar, vægi atkvæða, skilyrði þjóðaratkvæðagreiðslna og um persónukjör. Skynsamlegt er að bera einmitt þessi atriði undir þjóðina, því að sitt sýnist hverjum um þau. Síðan á Alþingi að afgreiða málið í haust. Vonandi ber Alþingi gæfu til að samþykkja þessa meðferð stjórnarskrárinnar.

Varúð: Flokkurinn kemur aftur

Punktar

Væri pólitíkus spurður í dag, hvort hann mundi vinna með bófaflokknum í ríkisstjórn, mundi hann segja nei. Meirihluti kjósenda getur ekki sætt sig við, að pólitískir bófar í afneitun komist að völdum. Og pólitíkusar hlusta á kjósendur fyrir kosningar. Eftir kosningar er allt annað uppi á teningnum. Eftir langt þref munu pólitíkusar þá sannfæra sig um, að ekki sé annað í mynztrinu en Flokkurinn. Hagsmunir líðandi stundar munu þá vega þyngra en loforð gefin fyrir kosningar. Þið sjáið dæmið af nýju samstarfi í Kópavogi. Pólitíkus var kosinn út á brottrekstur Flokksins og starfar nú með honum.

Ósiðlegur mottumars

Punktar

Markaðsfræðilega kann það að vera sniðugt. En siðferðið gengur ekki upp. Ef Krabbameinsfélagið safnar fimmtíu milljónum með tuttugu milljóna kostnaði, er það á hálum ís. Er þá ótalinn ýmis kostnaður við ráðgjöf. Að venju segja menn efnislega, að tilgangurinn helgi meðalið. En hann gerir það bara ekki. Mottuævintýri Krabbameinsfélagsins er utan heilbrigðrar siðsemi. Það grefur undan tilraunum góðgerðarsamtaka til að hafa fé af fólki. Það gengur ekki, að nánast helmingur af söfnuðu fé brenni í útlögðum kostnaði við söfnunina. Eins og oftar áður grefur blinda markaðshyggjan undan siðavendni manna.

Auðræðið bakvið lýðræðið

Punktar

Eigendur ríkisins eru þau 1%, sem hafa gögn og gæði landsins af þjóðinni. Þannig er staðan um allan hinn vestræna heim. Á frontinum er haft svonefnt lýðræði. Það er sniðug aðferð við að gera almenning ábyrgan fyrir öllu, sem aflaga fer. Ríkisstjórnir koma og fara og sumar lofa ýmsu upp í ermina á sér. En embættismenn og dómarar yfirstéttarinnar sitja sem fastast og gera það til dæmis enn á Íslandi. Hér hefur fátt breytzt við hrun. Ríkisstjórnin hróflar ekki við gerræðinu að tjaldabaki. Bankarnir fara sínu fram sem fyrr og ríkiseigendur halda áfram að vera ríkiseigendur bakvið lýðræðistjöldin.

Lögreglustjórinn í rugli

Punktar

Löggan hefur einkennilega forgangsröðun. Neitar að kanna strax stórkostlega grófar hótanir um líkamsmeiðingar. Segir fólki að hafa bara samband eftir helgi. Stefán Eiríksson lögreglustjóri svarar út og suður og neitar að tjá sig um efnisatriði málsins. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð lögreglunnar eins og svo oft áður. Hún er eins og útspýtt hundskinn við að verja hagsmuni þeirra, sem reyna að ná eignum af almenningi. Getur svo ekki mætt, þegar almenningur þarf vernd fyrir geðsjúklingi. Forgangsröðun Stefáns er langt út af kortinu. Einn margra óhæfra embættismanna kerfisins, kvígildi Flokksins.

Gat í saksókn Alþingis

Punktar

Mistök saksóknara Alþingis felast fyrst og fremst í að láta ekki sérfræðinga meta, hvað Geir H. Haarde hefði getað gert. Þar er stórt gat í málflutningi fyrir Landsdómi. Saksóknari hefði átt að kveðja til vitni, sem geta fjallað á óhlutdrægan hátt um ýmsa kosti í stöðunni á ýmsum tímum. Þeir hefðu ekki verið sammála, en samanlagt hefði þeir getað veitt okkur innsýn í stöðuna. Hefði verið mun betra en núverandi rugl um, að Geir hefði ekki getað hindrað hrunið. Afglöpin felast ekki í skorti á stöðvun, heldur í skorti á aðgerðum við að takmarka tjón. Skyldur hans voru við almenning, en ekki við bankana.

Staðlaðir glæpir

Punktar

Endurskoðendur hafa ítrekað varið sig með því að segjast fara eftir stöðlum í endurskoðun. Það gerði Anderson líka í Enron-hneykslinu í Bandaríkjunum. Anderson var samt dæmt og hætti svo rekstri, ein stærsta endurskoðunarstofa heimsins. Vísað er til alþjóðastaðalsins 240, sem á að hindra bókhaldsfölsun fyrirtækja. Gerir ráð fyrir faglegri tortryggni endurskoðenda. Anderson sagðist nota hann þar og PriceWaterhouseCooper segist nota hann hér. Meira en lítið virðist þó vera athugavert við túlkun PWC á fáránlegri staðfestingu reikninga Landsbankans og Glitnis fyrir hrunið. Með eða án alþjóðastaðla.

Réttlæting en ekki réttlæti

Punktar

Að vísu snýst landsdómur um sýknu eða sekt Geirs H. Haarde. En einnig voru væntingar til dómsins um að varpa ljósi á atburðarás í aðdraganda hrunsins. Minna varð úr slíku en efni stóðu til. Spurningar dómara voru ómarkvissar og þeir spurðu ekki út úr, heldur lásu bara af spurningalista. Sumt kom samt í ljós, einkum misræmi milli vitna. Ekki er það samt nóg til þess, að fólk fái á tilfinninguna, að réttlæti hafi verið þjónað. Landsdómur hreinsar ekki andrúmsloftið í samfélaginu. Menn munu áfram rífast um staðreyndir og menn munu áfram afneita staðreyndum. Réttlætingar halda áfram í stað réttlætis.

Geir gat hindrað tjón

Punktar

Geir H. Haarde gat gert heilmikið til að lina þjáningar þjóðarinnar vegna hrunsins. Hann vissi um hrunið með nokkurra ára fyrirvara. Jafnvel þótt hann hefði ekki vaknað fyrr en í upphafi ársins 2008, hefði hann getað gert gagn. Hann hefði getað sleppt því að tryggja innistæður í sjóðum umfram skylduna. Hann hefði getað beðið leiðtoga lífs síns, Davíð Oddsson, um að sóa ekki gjaldeyri þjóðarinnar í viðskiptabankana. Davíð vissi þá þegar, að þeir voru nánast gjaldþrota. Geir hefði árið 2008 kannski ekki getað hindrað hrunið. En hefði getað minnkað tjónið í hruninu niður í brot af því, sem það varð.

Stórkarlaleg vörn

Punktar

Ef Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið sakaður um að vera barnaníðingur, hefur það farið framhjá mér. Hann er hins vegar sakaður um dómgreindarbrest. Einkum í bréfi til barnungrar stúlku, sem þá var skiptinemi í Venezúela. Jón Baldvin hefur beðist afsökunar á bréfinu og kennir Bakkusi konungi um málið. Fjölskylda hans hefur samt gripið til varna í baráttustíl og er það hennar eigin ákvörðun. Sonur hans kom til landsins af þessu tilefni og gaf út stórkarlalegar yfirlýsingar. Mér er samt ekki ljóst í hverju vörnin felst umfram þær venjulegu stöðuyfirlýsingar, sem einkenna íslenzk ágreiningsefni.