New York

A. New York

Borgarrölt, New York

Fjörug og mannleg

Liberty Statue, New York 2

Liberty Statue

New York er fjörug borg, allt að því vingjarnleg borg og líklega jafnvel mannleg borg. Hún er staðurinn, þar sem ókunnugir eru fyrirvaralaust teknir tali, ekki aðeins við barinn, heldur hvar sem er. Þeir eru viðurkenndir sem fólk, enda er þriðjungur borgaranna fæddur í útlöndum og því eins konar ókunnugir sjálfir.

New York er ekki Bandaríkin og ekki heldur Evrópa, heldur suðupottur beggja og þriðja heimsins að auki. Sumir borgarhlutar minna á bazar í Kairo eða Kalkútta. Alls staðar er mannhaf, alls staðar er verið að verzla og nú orðið ekki sízt á gangstéttum úti.

Sé einhver staður nafli alheimsins, þá er það miðborg New York, sem fjallað er um í þessari bók, — Manhattan. Sú eyja er miðstöð myndlistar, önnur af tveimur miðstöðvum leiklistar, fremsta miðstöð tónlistar og bókmennta. Hún er mesta safnaborg heims.

Næstu skref

B. Menning – Lincoln Center

Borgarrölt, New York

Lincoln Center

Metropolitan Opera, New York

Metropolitan Opera

Alvörutónlistin á Manhattan er stunduð í Lincoln Center syðst í Upper West Side, þar sem nokkrar nýlegar og nýtízkulegar hallir umlykja gosbrunnatorg. Lincoln Center var reist árin 1962-1968 sem eins konar menningarlegt Akrópólis eða Kapítólum í New York til dýrðar tónlistarguðinum, hannað af ýmsum þekktustu arkitektum Bandaríkjanna í virðulegum hásúlnastíl.

Gengið er upp tröppur frá Columbus Avenue inn á torgið. Þar er á vinstri hönd New York State Theater, á hægri hönd Avery Fisher Hall og beint framundan Metropolitan Opera House. Vivian Beaumont Theater og Alice Tully Hall eru að baki Avery Fisher Hall.

Til að vita, hvað er um að vera í Lincoln Center og öðru tónlistarlífi borgarinnar, er bezt að skoða skrá
rnar í vikuritinu New York.

Metropolitan Opera

Óperuhús Metropolitan Opera Company er þungamiðja Lincoln Center og snýr tíu hæða súlum og fimm rómönskum glerbogum að torginu. Inn um gluggana má sjá tvær litskrúðugar lágmyndir eftir Marc Chagall, teppalagt anddyri og virðulegar tröppur.

Met eins og það er kallað tekur 3.788 manns í sæti. Talið er eitt helzta hástigið á ferli óperusöngvara að koma hér fram. Óperutíminn er frá miðjum september til apríl. Hinn hluta ársins hafa aðrir höllina til umráða, einkum balletflokkar á borð við American Ballet Theater og Royal Ballet.

Þegar við vorum síðast í New York bauð Met upp á Valkyrjurnar eftir Wagner, Aida eftir Verdi, Manon Lescaut eftir Puccini og Madama Butterfly eftir sama höfund.

Næstu skref

C. Hverfin

Borgarrölt, New York

Downtown

Suðurendi Manhattan, New York

Suðurendi Manhattan eins og hann var fyrir hrun tvíburaturnanna

Bankahverfið, sem ýmist er kallað Financial District eða Downtown, er syðsti oddi Manhattan, þar sem borgin var stofnuð af hollenzkum landnemum, sem kölluðu hana Nýju Amsterdam. Nafnið Wall Street stafar af, að þar var í öndverðu veggurinn, sem Hollendingar reistu borginni til varnar gegn Indjánum.

Nú er Downtown samfelld hrúga turna úr stáli og gleri, stærsta
bankamiðstöð í heimi. Til skamms tíma var hverfið steindautt um helgar. En nú hefur verið komið upp vinsælli ferðamannaþjónustu við gömlu fiskihöfnina í South Street Seaport, komið upp stóru hóteli og nothæfum veitingahúsum í World Trade Center og verið að reisa lúxusíbúðir norðan við Battery Park, svo að fólk er nú orðið á ferli í Downtown um helgar.

Mjög lítið er af gömlum mannvirkjum í hverfinu, en þau, sem enn standa, verða helzta augnayndi okkar á einni gönguferðinni, sem lýst er aftar í þessari bók. Þau eru skólabókardæmi um, að gömul og hrörleg hús eru vinalegri og fallegri en glæsibyggingar nútímans. Eyðileggjendur Kvosarinnar í Reykjavík ættu að reyna að skilja þetta.

Skýjakljúfahverfið á þessum stað er að því leyti skemmtilegra en miðbæjarhverfið, að gatnakerfið er ekki eins og rúðustrikað blað, heldur fylgir gömlu reiðvegunum. Samt er auðvelt að rata, ef fólk tekur mið af skýjakljúfunum.

Næstu skref

D. Downtown

Borgarrölt, New York

World Trade Center

World Trade Center er ekki lengur til. En þar byrjar bókin, sem kom út 1988, fyrstu gönguferðina og ég læt þann kafla standa, þótt hann vísi ekki lengur veginn. Hann segir þó frá nýliðinni fortíð:

World Trade Center, New York

Svona leit World Trade Center út, séð frá jörð

Við hefjum fyrstu gönguferðina við World Trade Center. Í suðurturninum, WTC nr. 2, tökum við örskjóta lyftuna upp á 107. hæð og virðum fyrir okkur nálægt útsýni yfir bankaturnana í Downtown og fjarlægara útsýni suður til frelsisstyttu og Verrazano-brúar og norður til skýjakljúfanna í Midtown. Frá 107. hæð er farið í rennistiga upp á sjálft turnþakið, 110 hæð. Svipað útsýni er að hafa úr veitingasölunum á 107. hæð  í WTC nr. 1.

Byggingu turnanna var lokið árið 1974 og voru þeir þá um skeið hinir hæstu í heimi, átta hæðum hærri en Empire State. Þeir eru frekar einfaldir að útliti og skekkja raunar heildarmyndina af skýjakljúfaþyrpingu bankahverfisins. En þeir sjást alls staðar að og eru auðþekkjanlegir.

Byggingarnar í World Trade Center mynda hring umhverfis stórt torg. Undir torginu er stórt verzlunarsvæði, sem tengir húsin saman. Þar eru um 60 verzlanir, auk veitingahúsa, banka og annarrar þjónustu. Þar á meðal er útibú frá TKTS, stofnuninni, sem selur leikhúsmiða á hálfvirði á sýningardegi. Á torginu sjálfu eru frægar styttur eftir Koenig, Rosati og Nagare.

Battery Park City

Vestan við World Trade Center, þar sem áður voru bryggjur, hefur verið búið til nokkurra ferkílómetra land út í Hudson River. Þar er verið að reisa Battery Park City, stórborg íbúða með görðum í kring. Þessu hverfi er ætlað að veita mannlífi í syðsta hluta Manhattan, bankahverfið, sem hingað til hefur verið dautt um kvöld og helgar.

Næstu skref

E. Villages – Chinatown

Borgarrölt, New York
Mott Street, New York

Fisksali á Mott Street

Mott Street

Gönguferðina um Chinatown hefjum við á Chatam Square á Bowery. Það er suðurendinn á Skid Row, rónabæli borgarinnar. Skid Row er heiti neðsta hluta Bowery, frá Chatam Square norður til 4th Street. Rónarnir eru meinlausir, en sums staðar þarf að sæta lagi við að klofa yfir þá.

Chatham Square, Bowery, New York

Chatham Square, Bowery

Við ætlum ekki að skoða Bowery, heldur förum til vesturs frá Chatam Square inn í Mott Street, ás kínverska hverfisins. Þar mætir okkur krydduð matarlykt úr verzlunum og veitingahúsum, hafsjór óskiljanlegra auglýsingaskilta á kínversku og símaklefar með kínversku pagóðu-þaki.

Við förum rólega, lítum inn í tvær þvergötur til hægri, Pell og Bayard Streets, og njótum þess að vera um stundarsakir í allt annarri heimsálfu, þar sem meira að segja blöðin sjö í söluturnunum eru á kínversku. Við höfum valið sunnudag til gönguferðarinnar, því að þá koma Kínverjar úr öðrum hverfum og þá er mest um að vera í Mott Street.

Við fáum okkur að lokum hádegismat á einhverju hinna betri veitingahúsa, Hee Sung Feung, Say Eng Look, Hwa Yuan Szechuan, Canton eða Phoenix Garden.

Næstu skref

F. Midtown – Times Square

Borgarrölt, New York

Times Square

Father Duffy Square, New York 2

Father Duffy Square, norðurendi Times Square

Við hefjum sjöttu ferð á Times Square, miðpunkti leikhús-, bíó- og klámhverfis borgarinnar. Við lítum yfir auglýsingaskiltin og hina löngu biðröð við leikhúsmiðasöluna TKTS við Father Duffy Square.

Síðan göngum við norður eftir Broadway, sem er ás þessa hverfis. Á vinstri hönd er Marriott-hótelið, sem reynir að mynda virðuleika í annars glannalegu hverfinu. Á daginn er þetta svæði fremur hráslagalegt, en eftir sólarlag verður það að neonljósa-draumaheimi.

Í hliðargötunum eru leikhúsin hlið við hlið, samtals 42 að tölu, flest milli 7th og 8th Avenues. Hins vegar er lítið um sómasamleg veitingahús. Ágætar pylsur fást hjá Nathan’s Famous og grísk mússaka á Pantheon. Aðeins norðar er betra fæði í nokkrum veitingahúsum, sem getið er framar í þessari bók, Café des Sports, Siam Inn, Tastings I og Russian Tea Room.

Næstu skref