Flokkafiðringur

Greinar

Óvinsældir ríkisstjórnarinnar virðast ætla að reynast varanlegar, þótt hlé hafi orðið á efnislegri gagnrýni á hendur henni eftir kjarasamningana í sumar. Ótal misgerðir hennar hafa ekki verið fyrirgefnar, þótt hún hafi staðið sig sæmilega í viðnámi gegn verðbólgu eftir kjarasamningana.

Um þessar mundir er fylgi flokkanna meira reikandi en verið hefur um langt árabil. Óánægja fylgismanna stjórnarflokkanna úr síðustu kosningum er svo mikil, að hún nær inn í það, sem áður var innsti hringur þeirra. Það er óneitanlega freistandi fyrir nýja og gamla flokka að reyna að ná þessu lausa fylgi.

Sagan kennir okkur hins vegar, að róðurinn á mið óánægju í öðrum flokkum reynist yfirleitt um síðir þyngri en ráð var fyrir gert, þegar lagt var úr vör. Flokksvélarnar og flokksböndin eru sterk, þegar til kosninga kemur. Sveiflan í atkvæðamagni reynist oft furðu lítil.

Svik vinstri stjórna við málstaðinn leiða oft til framboðs hópa yzt á vinstri væng. Sama gildir um svik hægri stjórna við sinn málstað. Þau leiða oft til framboðs hópa yzt á hægri væng. Það síðara gæti orðið uppi á teningnum í þetta sinn, úr því að hægri stjórn er við völd.

Slík framboð munu vafalaust hljóta sömu örlög og önnur fyrri af því tagi. Þau munu laða að nokkur hundruð atkvæði sérviturra manna og vera fjarri því að ná manni inn á þing. Nýir flokkar af þessu tagi munu líða út af eftir fyrstu atrennu.

Ákveðin refsing getur þó fylgt þessum flokkum. Nokkur hundruð atkvæði, sem tekin eru frá stórum flokki, geta leitt til þess, að hann missi einn uppbótarþingmann og hugsanlega kjördæmakosna þingmenn. Nýir flokkar, þótt skammlífir séu, geta þannig orðið gömlu flokkunum þrándur í götu.

Eini nýi flokkurinn, sem hefur lifað af nokkrar kosningar, er Samtök frjálslyndra og vinstri manna, enda er hann ekki á kanti stjórnmálanna, heldur nálægt miðju þeirra. En um þessar mundir virðist staða hans veikari en nokkru sinni fyrr. Nær allir forustumenn hans eru komnir í aðra flokka.

Sjálft móðurskipið, Karvel Pálmason, hyggst nú bjóða sig fram utan flokka. Erfitt er á þessu stigi að spá um möguleika hans. Óneitanlega er góður jarðvegur um þessar mundir fyrir framboð af slíku tagi.

Í landinu er fullt af hæfum mönnum, sem rúmast ekki vel innan gömlu flokkanna, en ættu heima á alþingi utan flokka. Framboð Karvels mun sjálfsagt hvetja til slíkra framboða. Hætt er þó við, að flestir þeir, sem gæla nú við hugmyndir um óháð framboð, treysti sér ekki í slaginn, þegar á reynir.

Leifar Samtakanna hyggjast bjóða fram í öllum kjördæmum. Ef framboðið verður sterkt í Reykjavík, er hugsanlegt, að flokkurinn nái þingmönnum og framhaldslífi.

En ákveðnastur allra í að hagnast á óvinsældum ríkisstjórnarinnar er þó Alþýðuflokkurinn. Þar er kosningaundirbúningurinn í fullum gangi, enda er flokkurinn gömul lífhöfn óánægðra sjálfstæðismanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið