Fjör í borg

Greinar

Verkefni borgarstjórnar Reykjavikur eru ekki eingöngu þau að leggja malbikaðar götur heim til borgarbúa, kalt og heitt vatn og rafmagn í hús þeirra og sjá um ýmsa félagslega þjónustu. Þetta eru vissulega brýnustu verkefnin og þau, sem mest eru áberandi, þegar borgin er í sem örustum vexti.

Eftir því sem viðgangur borgarinnar eykst, fara ný verkefni að skjóta upp kollinum. Og það er einmitt þetta, sem hefur verið að gerast í Reykjavík á allra síðustu misserum. Fegrun borgarlandsins var fyrst á dagskrá og síðan ýmsar aðgerðir til að gæða borgarlandið lífi.

Dæmi um þetta er nýlega samþykkt tillaga frá borgarstjóra um skemmtanir og menningarstarf fyrir almenning á opnum svæðum borgarinnar, torgum hennar, göngugötum og görðum víðs vegar um bæinn. Þessi ráðagerð kostar tiltölulega lítið fé í samanburði við aðra þjónustu borgarinnar, en gæti orðið til verulegrar.upplyftingar.

Ætlunin er að fá lúðrasveitir, svo og aðrar hljómsveitir og söngflokka til að gæða hin opnu svæði lífi, þegar Reykvíkingar eiga frí um helgar. Einnig er í ráði að gefa ýmsum samtökum, eins og t.d. skátum, tækifæri til að kynna almenningi starf sitt á þessum opnu svæðum. Margt fleira kemur til greina, svo sem danssýningar, uppfærslur á atriðum úr revíum og ýmiss konar upplestur.

Miklatún er dæmi um opið svæði af þessu tagi. Þar er kominn hinn snyrtilegasti garður, sem þarf að gæða lífi með hljómleikum, tjaldbúðum skáta, leiktækjum og höggmyndasýningum, svo að örfá dæmi séu nefnd, en veitingaaðstaða er þegar fyrir hendi á Kjarvalsstöðum.

Þjóðhátíðarárið gefur borginni gott tækifæri til að hefja þetta starf. Upphafsatriðið er álfadansinn á Melavellinum annað kvöld, en síðan er ráðgert að láta hverja dagskrána reka aðra víðs vegar um borgina, einkum þegar sól er farin að hækka verulega á lofti. Ekki er ætlunin að láta staðar numið, þótt þjóðhátíðarárið líði, heldur gera þessar útidagskrár að föstum lið í borgarlífinu.

Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri hefur einnig.haft frumkvæði að göngugötum í miðborginni. Ákveðið hefur verið að stefna að því að koma upp göngusvæði, er nái ofan frá Hlemmi niður í Aðalstræti. Verður þegar í vetur hafizt handa við að breyta austurhluta Austurstrætis í þetta horf, og á þeim hluta að ljúka þegar í vor.

Margar fleiri áætlanir af þessu tagi eru á prjónunum hjá borginni. Verið er að skipuleggja góða aðstöðu fyrir smábáta, bæði trillur, róðrarbáta og seglbáta. Göngubrú frá Gufunesi út í Viðey er í undirbúningi. Og unnið er af fullum krafti að skipulagi víðtækra gróðurvinja út um alla borg, ekki eingöngu fyrir gras og tré, heldur einnig leiktæki og aðra þá aðstöðu, er laðað getur borgarbúa að.

Hér er í uppsiglingu merkilegasta átakið í stjórn borgarinnar síðan malbikunar- og hitaveituáætlanirnar voru framkvæmdar.

Jónas Kristjánsson

Vísir