Eitt merkasta nýmælið á síðasta alþingi var frumvarpið um framhaldsskóla, sem þar var sýnt í vor. Það hefur legið hjá umsagnaraðilum í sumar og verður væntanlega lagt fram að nýju á alþingi í haust.
Frumvarpið fjallar um fjölbreytt framhaldsnám í skólakerfinu, eins konar miðskóla milli grunnskóla annars vegar og háskóla hins vegar. Að baki frumvarpsins liggur mikil vinna, sem minnir á vinnuna, sem lögð var í grunnskólafrumvarpið fyrir fáum árum.
Einkum er mikill matur í greinargerðinni, sem fylgir frumvarpinu. Þar er sett fram í einstökum atriðum sú stefna, að íslenzkir táningar skuli eiga kost á fjölbreyttu námi á ótal sviðum, þegar grunnskólanámi er lokið.
Með frumvarpinu er stefnt að því, að framhaldsskólarnir verði fjölbrautaskólar á borð við þá, sem teknir eru til starfa í Breiðholti og í Keflavík. Sérnám getur þannig hafizt mun fyrr en hingað til hefur verið. Og þar að auki er ætlunin að rjúfa múra milli námsbrauta.
Frumvarpið er samt ekkert “Sesam, sesam, opnist þú”. Það kemur ekki í staðinn fyrir frambærileg kjör og menntun kennara. Það kemur ekki í staðinn fyrir fjármagn til skólamála. né hið óáþreifanlega innihald skólastarfs, sem ekki verður mælt í krónum né lögum.
Frumvarpið er bara rammi, sem á að auðvelda frekari tilraunir skólamanna til að gæða skólakerfið lífi. Sem slíkt er það tímabært og nytsamlegt.
Hið eina, sem opinberlega hefur verið deilt á í frumvarpinu, er skipting kostnaðar af framhaldsskólum milli ríkis og sveitarfélaga. Þar er gert ráð fyrir, að ríkið greiði launakostnað og hálfan annan rekstrarkostnað eins og í grunnskólunum, en 70% byggingakostnaðar í stað 50%, sem gildir í grunnskólum.
Ágreiningurinn um þetta er hluti stærri deilna um verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Talsmenn sveitarfélaga vilja gjarna, að þau taki við völdum og ábyrgð frá ríkinu, en vilja jafnframt, að jafnvægi sé í aukningu kostnaðar og tekna sveitarfélaganna.
Á frumvarpinu er sá galli, að þar er gert ráð fyrir óþarflega fjölmennu framhaldsskólaráði. Bændur og kvenfélög eiga þar ekki erindi fremur en skátar og KFUM. Fulltrúar atvinnulífsins þurfa ekki heldur að vera þar, þar sem þeir geta haft sín áhrif í námssviðsnefndunum.
Vel meint en gagnslaust er ákvæðið um, að “í hverjum landshluta verði eins fjölbreytilegt val námsbrauta og við verður komið”.
Fyrir nemandann skiptir máli, hvort hann getur stundað skólann heiman frá sér eða hvort hann þarf að fara í heimavist. Fyrir Patreksfirðing er til dæmis bezt að geta stundað sitt nám á Patreksfirði. Ef það er ekki hægt, er ekkert víst, að hann vilji fremur stunda það á Ísafirði heldur en á Akureyri eða í Reykjavík. Það er heimangangan, sem skiptir máli, ekki landshlutinn.
Hér í þessum dálki verður á næstunni sett fram tillaga um, hvernig leysa megi þetta mál á þann hátt, að byggðasjónarmiða sé betur gætt en í frumvarpinu.
En í öllum helztu atriðum er frumvarpið samt ágætt.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið