Blogg í útlöndum er upp og ofan, aðallega ofan. Þar er þraut að finna gott blogg. Hér er hins vegar auðvelt að finna gott blogg. Ég á við alvöru texta, sem á erindi til fólks. Blogg.gattin.is birtir lista yfir 25 vinsælustu bloggara vikunnar. Sá, sem fylgist með þessum 25, fær fréttir og skoðanir, er skipta máli. Lítið er um rugl eða óviðkomandi efni. Leitun er að eins þroskuðum bloggheimi og þeim íslenzka. Myndazt hefur fjölmennur hópur nafngreinds fólks, sem setur efni sitt fram á skiljanlegan og rökréttan hátt. Sem betur fer hefur hópurinn fjölbreyttar skoðanir á framvindu mála.