Fjárlögin gegn verðbólgu

Greinar

Sneið ríkisbáknsins af þjóðarframleiðslunni hækkaði úr 20% í 29,1% á valdaskeiði vinstristjórnarinnar. Þetta var nærri helmings aukning á aðeins þremur árum og olli stórfelldu misgengi í þjóðfélaginu.

Útþensla ríkisvaldsins á kostnað annarra þátta þjóðarbúsins var ein helzta forsenda hinnar einstæðu verðbólgu, sem ríkti á þessum tíma. Í stað þess að draga saman seglin gekk ríkið á undan með slæmu fordæmi. Það tók vinnuafl frá framleiðslunni, sjálfri undirstöðu þjóðarbúsins. Það sprengdi upp verðlag og þurrkaði upp lánsfé.

Ein gagnlegasta reglan í nútímalegri stjórnun efnahagsmála er, að ríkið hamli gegn sveiflum með því að auka umsvif sín á samdráttartímum og draga saman seglin á þenslutímum. Þessi gullna regla var þverbrotin á valdatíma vinstristjórnarinnar.

Afleiðingin var sú, að efnahagslífið komst í þvílíkar ógöngur, að ríkisstjórnin varð að hrökklast frá. Efnahagslegt hrun var á næsta leiti, þegar nýja ríkisstjórnin tók við fyrir nokkrum vikum. Hún tók þegar til óspilltra málanna við að snúa þróuninni í átt til betri vegar.

Einn meginþátturinn í þeirri viðleitni er, að ríkið dragi sjálft saman seglin til að auka streymi fjármagns og vinnuafls til framleiðslunnar. Fjárlagafrumvarpið, sem lagt var fram á Alþingi fyrir helgina, ber ákveðin einkenni þessarar gerbreyttu stefnu.

Þar sem ríkisstjórnin hefur aðeins setið að völdum í nokkrar vikur, er þess ekki að vænta, að hún hafi að fullu getað sett svipmót sitt á ríkisbáknið. Slíkt tekur lengri tíma. En ríkisstjórnin hefur þó náð þeim áfangasigri að stöðva frekari útþenslu ríkisbáknsins og lækka hlutdeild þess í þjóðarframleiðslunni.

Lækkunin er að vísu ekki mikil í þessari fyrstu atrennu. Sneið ríkisbúsins í þjóðarbúinu er rýrð úr 29,1% í 28,7%, með fjárlagafrumvarpinu nýja. En höfuðatriðið í því efni er, að ríkisstjórninni hefur tekizt á skömmum tíma að stöðva hina sjálfvirku útþenslu báknsins.

Við gerð næsta fjárlagafrumvarps, þegar ríkisstjórninni hefur tekizt að móta stefnuna í heilt ár, má vænta þess, að hlutfall ríkisbáknsins geti lækkað enn frekar. Æskilegast væri, ef unnt væri á nokkrum árum að koma því niður í 20% þjóðarframleiðslunnar eins og var á tímum viðreisnarstjórnar.

En á því eru ýmis vandkvæði. Þjónusta ríkisins hefur aukizt á mörgum sviðum. Grunnskólalögin eru dæmi um nýjan og stóran kostnaðarlið, sem óhjákvæmilega mun vaxa á næstu árum. Slík atriði valda því, að viðleitninni við að rýra ríkisbáknið eru takmörk sett.

Meginatriðið er samt, að stefnt sé að samdrætti hjá ríkinu, meðan almenn þensla ríkir í þjóðfélaginu. Þessi stefna hefur borið áfangasigur úr býtum í nýja fjárlagafrumvarpinu og sá sigur er mikilvægur þáttur í endurreisn efnahagslífsins.

Jónas Kristjánsson

Vísir