“Fámennur hópur getur valdið slíkum usla í atvinnu- og efnahagslífi, að sköpum getur skipt,” sagði Sigurður Líndal prófessor nýlega í kjallaragrein í Dagblaðinu. Þessi ummæli hefur Grafíska sveinafélagið reynt að staðfesta að undanförnu.
Sigurður sagði einnig: “Aðstaða aðilja vinnumarkaðarins er svo sterk – ekki sízt vegna verkaskiptingar, sem grundvallast á mikilli sérhæfingu – að vinnustöðvun má beita þannig, að jafna má við fjárkúgun.”
Þessi ummæli Sigurðar hefur Grafíska sveinafélagið einnig reynt að staðfesta. Tveir menn stöðvuðu með einföldu vaktavinnubanni útkomu tveggja stærstu dagblaðanna. Aðrir tveir menn stöðvuðu á sama hátt útkomu hinna fjögurra.
Fjárkúgun að hætti grafískra fer því þannig fram, að fjórir menn neyða sex dagblöð til að halda uppi nærri fullum kostnaði án þess að nokkrar tekjur komi á móti. Þetta er eins konar óverjandi skot í horn.
Dagblöðin gátu valið milli 100 milljón króna sameiginlegs verkfallstjóns á viku og ríflegrar launahækkunar, sem hefði þó aðeins numið broti verkfallstjónsins. Á máli mafíunnar er talað um “tilboð, sem ekki er hægt að hafna”.
Á sama tíma getur stéttarfélagið haldið uppi mönnunum fjórum, sem stöðvuðu blöðin sex, ef til vill með aðstoð norrænna systurfélaga. Spilin voru þannig gefin, að öll trompin virtust vera í höndum fjárkúgunarinnar.
Af hverju gáfust dagblöðin þá ekki upp og spöruðu sér stórfé með því að láta kúga sig til fjár? Skýringin er hin sama og hjá þeim fyrirtækjum í Bandaríkjunum, sem hafa sameinazt um að reka mafíuna af höndum sér.
Sá, sem einu sinni lætur undan fjárkúgun, er dæmdur ævilangt undir fjárkúgun. Hinn, sem ekki lætur kúga sig til fjár, má búast við meiri aðgát og friði í framtíðinni. Þetta er hið nýja sjónarmið vinnuveitendasambandsins.
Það kom strax í ljós í vor í farmannadeilunni. Þar var verkbanni beitt gegn verkfalli. Fyrirtækin gátu sparað sér verulegan hluta kostnaðar síns. Afleiðingin varð sú, að deiluaðilar stóðu tiltölulega jafnt að vígi. Fjárkúgunin mistókst.
Með víðtæku verkbanni, sem var í aðsigi, hefðu dagblöðin sparað sér mestan hluta útgjalda sinna. Sum þeirra hefðu komizt niður í minna tap á dag en þau hafa í fullum rekstri. Þar með gátu þau mætt í hringinn á jafnréttisgrundvelli.
Því miður hafa verkbönn slæm áhrif á afkomu saklauss fólks, sem engan þátt á í fjárkúgun að hætti grafískra. En launalaust frí frá störfum hefði þó verið skárra en atvinnuskortur vegna gjaldþrots vinnustaðarins.
Með samstöðu um verkbann gengu vinnuveitendur um leið erinda ríkisstjórnarinnar í varnarstríði hennar við verðbólguna. Það stríð tapast endanlega, ef einstakir hópar fyrirtækja láta beita sig fjárkúgun, sem síðan kemur skriðunni af stað.
Einnig hafa vinnuveitendur gengið erinda Alþýðusambandsins, sem hefur reynt að hjálpa ríkisstjórninni með því að fallast á kjararamma til áramóta. Sambandið vill tæpast, að hálaunahópar auki bilið milli sín og láglaunahópa.
Fjárkúgunin olli samtökum launþega álitshnekki og vakti mikla athygli á gagnrýni Sigurðar Líndal. Fjárkúgunin olli miklu tjóni, en náði samt ekki markmiði sínu. Og stundartjón er betra en varanleg kúgun.
Þannig mistókst algerlega fjárkúgun að hætti grafískra.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið