Fínn hagsmunaklúbbur.

Greinar

Fyrir kemur, að nýir þingmenn, einkum varaþingmenn, spúa eldi og brennisteini, þegar þeir taka fyrst sæti á Alþingi, fullir hugsjóna og áhuga. Þeir gera stundum nokkrar tilraunir til að láta að sér kveða, marka spor sín á Alþingi.

Hinir eldri og reyndari þingmenn brosa góðlátlega að þessum ungæðishætti og láta ekkert raska ró sínni. En þeir gæta þess að láta nýliðana ekki komast upp með moðreyk. Alls staðar rísa háir veggir, sem hugsjónamálin komast ekki yfir.

Smám saman átta nýliðarnir sig á, að þeir eru hafðir að spotti. Hver á fætur öðrum stíga þeir niður úr háum söðli sínum og fara að semja sig að siðum og háttum þingmanna. Þeir reyna að verða eins og hinir strákarnir í klúbbnum.

Nýliðarnir læra að rugga ekki bátnum, því að þingmenn kæra sig ekki um ónæði. Þeir læra að umgangast þingmenn annarra flokka eins og hverja aðra klúbbfélaga. Þeir glata smám saman frumkvæói sínu og læra að gera ekki neitt annað en það, sem flokksforustan vill láta þá gera.

Alþingismenn eru enginn þverskurður þjóðfélagsins. Þeir eru raunar helzt til líkir hver öðrum, enda er forsaga þeirra að mörgu leyti svipuð. Þeir hafa unnið sig upp eftir flokksvélinni og hafa allir gengizt undir eldskírn baráttusætis í kosningum, hvar í flokki, sem þeir standa.

Þetta úrval heldur áfram, þegar á þing er komið. Þar heldur sérhæfingin áfram, er þingmennirnir fara að laga sig hver að öðrum og að hefðum þingstarfanna. Andinn á Alþingi er eins og í virðulegum brezkum karlaklúbbi, þar sem menn umgangast aðeins sína líka.

Í fínum klúbbum er ekki til siðs að gera neitt. Því fyrr sem nýliðar átta sig á þessu á Alþingi, þeim mun fyrr tekst þeim að koma sér fyrir í hinu nýja kerfi. Þeir komast smám saman í betri nefndir og fara svo loks að krækja sér í bitlinga í samlögum við aðra þingmenn.

Það tekur langan tíma að vinna sig upp í bankaráð og einstaka hæfileika til að verða stjórnarmaður eða kommissar Framkvæmdastofnunar ríkisins. Beztu klúbbstrákarnir verða svo ráðherrar í fyllingu tímans.

Þingmenn ráða mestu í athafnalífi þjóðarinnar með setu sinni í bönkum, sjóðum, Framkvæmdastofnun og ríkisstjórn. Þeir setja lög um að ná undir sig sífellt stærri hlutum af fjármagni þjóðarinnar til þess að ráðskast með og til þess að tryggja sér endurkosningu.

Það er bara í þykjustunni, að stjórnmálaflokkarnir hafa mismunandi stefnuskrár. Í reyndinni stefna þeir allir að því að þenja út ríkisbáknið og gefa þingmönnum færi á að úthluta sem flestum aurum, aðallega í formi lána, til vina og stuðningsmanna.

Þeir, sem reyna að segja þjóðinni frá staóreyndum þessa máls, eru ekki að grafa undan virðingu Alþingis. Það eru þingmennirnir sjálfir búnir að gera. Þeir hafa gert Alþingi að hagsmunaklúbbi, sem starfar að eflingu valda og fjárráða klúbbfélaganna.

Þingmenn hafa einangrað sig frá þjóðinni í lokuðum fjárplógsklúbbi og hafa auðvitað um leið rýrt traust þjóðarinnar á hornðsteini þingræðisins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið