Almenningur hefur tæpast nokkuð á móti því, að ráðherrar hafi glæsilega bíla til afnota. Þvert á móti er ástæða til að ætla, að menn vilji, að sýnd sé sæmileg reisn á því sviði.
Fáir mundu rísa upp til andmæla, þótt einkennisklæddir bílstjórar flyttu forseta Íslands og forsætisráðherra milli húsa á gljáfægðum Rolls Royce bílum.
Ekkert ætti heldur að vera því til fyrirstöðu, að ríkið ætti nokkra glæsivagna til afnota fyrir ráðherra, forseta alþingis og forseta hæstaréttar.
Slík þjónusta gæti verið með stöðvarsniði. Landsfeður gætu látið með símtali kalla til bíl og bílstjóra. Væri enginn glæsivagn laus þá stundina, yrðu þeir að sætta sig við leigubíl.
Aðeins framúrstefnumenn í nöldri mundu amast við því, að ríkið kostaði slíka þjónustu, svo framarlega sem hún yrði metin til tekna á skattskýrslum landsfeðranna.
Gagnrýnin á bílabrask ráðherra stafar ekki af öfund. Hún stafar ekki af, að gagnrýnendur séu á móti því, að sjáist, hvar höfðingjar eru á ferð. En þetta hefur einmitt misskilizt.
Gagnrýnendur vilja, að landsfeður borgi skatta eftir sömu reglum og aðrir, svo og aðflutningsgjöld. Þeir vilja, að landsfeður hafi sama aðgang að lánum sem aðrir og með sömu kjörum. Um það snýst málið.
Ef ríkið ætti bíla til að flytja landsfeður milli húsa, þyrfti það ekki að hafa frekari afskipti af bílamálum ráðherra. Þeir gætu keypt og selt bíla eins og aðrir, án nokkurrar afskiptasemi blaðamanna né þingmanna.
Til skamms tíma máttu fráfarandi ráðherrar kaupa sér bíl án aðflutningsgjalda. Ólafur Jóhannsson notfærði sér þetta nýlega sem dómsmálaráðherra síðustu stjórnar á undan þessari. Fríðindi þessi þóttu siðlaus og hafa nú verið aflögð.
Nú mega ráðherrar taka úr ríkissjóði þriggja milljón króna lán með 19-22% vöxtum til tíu ára til kaupa á bíl. Það eru þessi fríðindi, sem gagnrýnd hafa verið að undanförnu.
Ráðherrar, sem setja sér slíkar reglur um fríðindi, haga sér eins og smáglæpamenn. Þeir eru að nota sér aðstöðuna til að komast yfir eignir.
Svo virðist sem tveir af þremur ráðherrum, sem þetta lán tóku, hafi séð að sér og skilað því. Situr þá Tómas Árnason einn uppi með smáglæpinn og hefur af því lítinn sóma.
Þetta svindlbrask var svo mikið feimnismál, að fjármálaráðherra neitaði stöðugt að segja fjölmiðlum frá því. Það var svo mikið feimnismál, að ráðuneytisstjóri fjármála neitaði í tvígang að segja þingnefnd frá því.
Málið upplýstist ekki fyrr en Ólafur Ragnar Grímsson knúði ráðherrana út í opinbera umræðu á alþingi. Sumir hafa legið honum á hálsi fyrir smámunasemi. En í raun á hann heiður skilið.
Gagnrýnin snýst nefnilega ekki um, hverjir megi aka um á fínum bílum. Hún snýst hins vegar um, hverjir megi stela. Á þessu tvennu hafa sumir ekki gert greinarmun.
Almenningur vill áreiðanlega, að ríkið hafi einkabíla og einkabílstjóra handa forseta Íslands og forsætisráðherra. Almenningur vill sennilega, að ríkið hafi sameiginlega bíla og bílstjóra fyrir aðra ráðherra, forseta alþingis og forseta hæstaréttar.
Fólk er ekki andvígt bilareisn landsfeðra. En það er andvígt pukri með lánsfjárhæðir, vexti og lánstíma. Það telur slíkt sýna litla reisn landsfeðranna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið