Fimmta herdeildin

Greinar

Borgarfulltrúar minnihlutaflokkanna í Reykjavík eru eins og fulltrúar meirihlutans kjörnir til að starfa fyrir borgina og borgarbúa. Þeir eru ekki undanþegnir allri ábyrgð, þótt þeir séu í minnihluta. Þetta skiptir sérstöku máli, þegar flokksbræður minnihlutafulltrúanna í Reykjavík fara með völd í ríkisstjórninni. Þá ber minnihlutafulltrúunum skylda til að reyna að fá ríkisstjórnina ofan af ofsóknum á hendur Reykjavík.

Nú eru einmitt slíkar aðstæður. Ríkisstjórnin hefur á skömmum ferli sínum stórhækkað verð á allri þjónustu ríkisins en staðið harðlega gegn því, að Reykjavíkurborg fengi að hækka verð á sinni þjónustu til samræmis við verðbólguna. Þetta hefur hún getað gert, því að verðlagsstjórnin er í hennar höndum.

Fyrri ríkisstjórnir hafa ekki haft slíka stefnu gegn Reykjavíkurborg og þá um leið öðrum sveitarfélögum í landinu. Birgir Ísleifur Gunnarsson borgarstjóri benti á það í umræðum um fjárhagsáætlun næsta árs, að hingað til hefðu ríkisstjórnir jafnan treyst sveitarfélögum til að verðleggja þjónustu sína, ef undan eru skilin stutt verðstöðvunartímabil. Af þessu hefði fengizt góð reynsla. Sveitarstjórnir hefðu ekki misnotað þetta vald, heldur fremur tregðazt í lengstu lög við að hækka verð þjónustu sinnar.

Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar reynt að eyðileggja fjárhag Rafmagnsveitu og Hitaveitu Reykjavíkur með því að neita þeim um hækkanir Er ekki unnt að sjá annað en að hún stefni að því að gera þessi borgarfyrirtæki gjaldþrota.

Hún neyddist þó til að lina á kverkatakinu, þegar olíustríðið hófst á heimsmarkaðinum og allir sáu, hve nauðsynlegt var að efla og stækka hitaveitur á landinu. Enda risu upp sveitarfélögin í nágrenni Reykjavíkur, sem ætluðu að hefja samstarf við borgina um hitaveitu, og gagnrýndu kverkataksstefnuna. Varð ríkisstjórnin að heimila nokkra hækkun á hitaveitutaxta, en hvergi nærri nóga.

Fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn eru ekki sérlega athafnasamir í starfi. Tillögur þeirra eru bergmál og stundum yfirboð á tillögum meiri hlutans, sem sumar hverjar eru þegar komnar til framkvæmda. Stundum leggja þeir til, að þessum framkvæmdum verði hraðað. En þeir bjóða ekki upp á neitt nýtt, enga stefnubreytingu, og virðast með því játa, að stjórn borgarinnar sé í góðum höndum.

Þrátt fyrir þessi vandræði minnihlutans má hann ekki gefast upp. Hann getur unnið borginni margvíslegt gagn á öðrum sviðum. Borgarfulltrúar hans geta til dæmis reynt að hafa góð áhrif á flokksbræður sína í ríkisstjórn og fengið þá til að losa kverkatakið á fyrirtækjum borgarinnar. Til þess hafa þeir betri aðstöðu en aðrir borgarfulltrúar.

En þetta hafa þeir ekki gert. Með þegjandi þögninni hafa þeir stutt ofsóknir ríkisstjórnarinnar á hendur Reykjavík og þar með starfað eins og fimmta herdeildin meðal Reykvíkinga.

Jónas Kristjánsson

Vísir