Hafrannsóknastofnunin hefur með hinni “svörtu” skýrslu sinni sett þjóðinni eins konar úrslitakosti. Nú þegar verði að hemla rösklega í sókninni í mikilvægustu fiskistofna Íslandsmiða, ef fiskveiðar eigi ekki smám saman að leggjast niður sem atvinnugrein hér á landi.
Samkvæmt skýrslunni virðast Íslendingar nú einir veiða á þessum miðum svipað magn af þorski og Hafrannsóknastofnunin telur að veiða megi í heild á Íslandsmiðum við núverandi aðstæður, 200 þúsund tonn. Þau 140 þúsund tonn, sem erlend skip veiða, eru þá algerlega umfram leyfilegt magn, að mati Hafrannsóknastofnunarinnar.
Framhald röksemdafærslunnar er ljóst. Fyrir hvert tonn, sem útlendingar veiða hér við land í leyfi eða óleyfi, verðum við að minnka afla okkar um annað tonn. Allar þær undanþágur, sem við semjum um við erlend ríki, koma að fullu niður á möguleikum okkar til að nýta miðin. Við höfum því í rauninni ekkert svigrúm til samninga við þau ríki, sem telja sig hafa sögulegan rétt til þorskveiða á Íslandsmiðum.
Og ástandið er í rauninni enn alvarlegra, ef tekið er með í reikninginn, að Hafrannsóknastofnunin telur íslenzka fiskveiðiflotann hæglega geta veitt 500 þúsund tonn af þorski, ef stofninn væri nægilega stór. Þetta þýðir, að sókn okkar í þorskinn er nú meira en tvöfalt meiri en hagkvæmt er að hafa hana. Við þurfum raunar ekki nema helminginn af flotanum til að veiða þau 230 þúsund tonn, sem Hafrannsóknastofnunin telur hámark á næsta ári.
En hið súra er einnig blandað sætu í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar. Ef við verðum góðu börnin og leyfum aðeins 230 þúsund tonna þorskveiði á næsta ári, á að vera unnt að veiða 290 þúsund tonn árið 1977 og síðan meira magn ár frá ári, unz eðlilegu hámarki sé náð að nýju í 500 þúsund tonnum. En það er einmitt magnið, sem núverandi fiskveiðifloti okkar ætti að anna með hagkvæmum rekstri.
Í þessu skyni og í samræmi við þetta vill Hafrannsóknastofnunin, að hverju sinni sé ákveðinn hámarksafli einstakra fisktegunda á Íslandsmiðum. Og hún vill fá heimild til að stöðva fyrirvaralaust veiðar á ákveðnum svæðum í allt að tíu daga, meðan svæðin séu rannsökuð nákvæmlega.
Þar á ofan vill Hafrannsóknastofnunin hækka leyfilega lágmarksstærð flestra mikilvægustu tegundanna, til dæmis þorsks úr 43 sentimetrum í 50 sentimetra. Vill stofnunin lögbinda stærri möskva við þorskveiðar og á svæðum, þar sem þorskur er meginuppistaða aflans.
Ýmsar fleiri harkalegar tillögur eru í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar. Aldrei áður hefur ábyrgur aðili dregið upp jafn dökka mynd af ástandinu á Íslandsmiðum. Sjávarútvegsráðherra er ekki sá eini, sem hefur hrokkið í kút við þessi tíðindi. En við verðum að kunna að taka fréttunum og haga okkur í samræmi við þær.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið