“Í okkar landi er engum meinað að láta í ljósi skoðun sína á einu eða neinu og gagnrýna það, sem miður fer”, sagði Michael Kostikov, fulltrúi sovézku fréttastofunnar á Íslandi, í kjallaragrein í Dagblaðinu fyrr í þessum mánuði.
Þessi ummæli sýna, hversu gerólík sovézk rökfræði er þeirri, sem við eigum að venjast á Vesturlöndum. Það er erfitt að tala við menn, sem geta sett fram fullyrðingar, er við teljum fáránlegar, og geta það án þess að blikna né blána. En seint verða slíkir menn teknir alvarlega á Vesturlöndum.
Ótal sannanir eru fyrir því, að stjórn Sovétríkjanna lætur ofsækja harðlega þá menn, sem þar í landi reyna að halda því uppi, sem hér á landi og í flestum nágrannalanda okkar væri aðeins talinn eðlilegur þáttur í venjulegri stjórnarandstöðu, gagnrýni á stjórnarstefnuna og á kerfið sjálft.
Hér á landi rífa menn sig eins og þeim þóknast án ótta við ofsóknir hins opinbera. Menn fá í mesta lagi fjársekt, ef sjálft orðbragð þeirra keyrir úr hófi fram, en ekki vegna innihalds þess, sem þeir segja.
Í Sovétríkjunum eru gagnrýnendur hins vegar settir á geðveikrahæli, látnir taka hættuleg lyf, sæta brottrekstri úr starfi og missi atvinnuleyfis, eru hindraðir í að ferðast úr landi, eru handteknir fyrirvaralaust og sitja í gæzluvarðhaldi mánuðum saman án dómsúrskurðar. Reynt er að brjóta þá niður fjárhagslega, líkamlega og andlega.
“Við höfum hingað til leyst úr öllum okkar vandamálum sjálfir, án utanaðkomandi íhlutunar og viljum halda áfram að gera það”, sagði Kostikov ennfremur í greininni. Þetta er ábending hans um, að mannréttindi í Sovétríkjunum komi okkur ekki við og sé jafnvel íhlutun í sovézk innanríkismál.
Vesturlandabúar telja sér hins vegar fullkomlega heimilt að ræða mannréttindi í Sovétríkjunum, ekki síður en þeir ræða vandamál Bandaríkjanna og annarra ríkja heims. Og okkur finnst sérstök ástæða til að ræða um Sovétríkin, þar sem þau seilast mjög til áhrifa um heim allan.
Þar á ofan teljum við okkur fullkomlega heimilt að knýja ríkisstjórnir Vesturlanda til að taka ákveðnari afstöðu gegn sífelldum og svívirðilegum brotum stjórnar Sovétríkjanna á Helsinki-yfirlýsingunni.
“Að sjálfsögðu reynum við ekki að troða okkar reynslu upp á einn eða neinn”, segir enn í hinni makalausu röksemdafærslu Kostikovs í kjallaragreininni.
Það vill svo til, að íhlutun Sovétríkjanna í innanríkismál annarra ríkja er miklu freklegri en gagnrýni Vesturlandabúa á mannréttindabrotum austantjalds. Ekkert ríki í heiminum er iðjusamara við að troða reynslu sinni upp á aðra, ekki bara í Austur-Evrópu. heldur einnig í þriðja heiminum og á Vesturlöndum.
Þegar fulltrúi Sovétríkjanna segir skoðanafrelsi ríkja í landi sínu, hafnar afskiptum okkar af mannréttindum þar eystra og heldur því fram, að Sovétríkin skipti sér ekki af málum annarra ríkja, þá þekkjum við rökfræði Félaga Napóleons úr bók George Orwells.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið