Um þessar mundir er að koma vel í ljós, að einungis tvö dagblaðanna, Morgunblaðið og Dagblaðið, eru nógu mikið seld til að treysta sér til að taka þátt í nákvæmu upplagseftirliti á vegum Verzlunarráðs Íslands.
Með þessu upplagseftirliti á ekki aðeins að kanna prentað upplag dagblaðanna. og nokkurra annarra rita, heldur einnig dreifingu upplagsins og tekjurnar, sem dagblöðin hafa af sölunni. Finna á, hversu mörg eintök dagblöðin selja í rauninni.
Sérstakur trúnaðarmaður Verzlunarráðs Íslands á að annast eftirlitið. Hann á að hafa aðgang að bókhaldi dagblaðanna og öðrum skjölum þeirra, svo og að skjölum prentsmiðja þeirra, sem prenta blöðin. Ekki er enn vitað, hver þessi eftirlitsmaður verður.
Fullyrðingar dagblaðanna sjálfra um upplag og sölu verða því ekki teknar gildar. Hlutlaus og utanaðkomandi aðili á að tryggja, að sannleikurinn komi í ljós.
Undirbúningur þessa hófst fyrir tæpu ári að frumkvæði Verzlunarráðs. Það kallaði saman nefnd ráðamanna allra dagblaðanna, nokkurra annarra rita og stærstu auglýsingastofanna. Í vetur sem leið vann þessi nefnd að smíði samnings um upplagseftirlitið.
Nefndarmenn gerðu athugasemdir við uppkast, sem lagt var fram af hálfu Verzlunarráðs. Á þeim athugasemdum var byggður endanlegur samningur, sem var tilbúinn til undirskriftar í vor. Dagblaðið og Morgunblaðið skrifuðu strax undir samninginn.
Ráðamenn hinna dagblaðanna fóru hins vegar undan í flæmingi, nema Þjóðviljamenn, sem hreinlega neituðu að skrifa undir. Framkvæmdastjórar Vísis, Tímans og Alþýðublaðsins þóttust þurfa að bera málið fyrir stjórnarfundi.
Síðan hafa stjórnarfundir verið haldnir, en upplagseftirlitinu ekkert þokað áfram. Ráðamenn Vísis, Tímans og Alþýðublaðsins hafa að yfirvarpi, að ekki hafi verið könnuð ýmis atriði, sem voru þó könnuð í nefndinni í vetur og eru í samningnum, sem tilbúinn er til undirskriftar.
Viðbrögðin byggjast á því, að ráðamenn Vísis, Tímans og Alþýðublaðsins vilja ekki upplagseftirlit fremur en ráðamenn Þjóðviljans. Þeir vilja áfram geta haldið fram verulega ýktum tölum um upplag og sölu blaða sinna.
Það væri til dæmis afar sárt fyrir Vísi, ef Verzlunarráð birti réttar tölur af þessu tagi. Á hverjum degi segist Vísir vera mest lesna síðdegisblaðið, þótt Dagblaðið hafi helmingi meiri sölu. Tölur Verzlunarráðs mundu kippa grundvellinum undan fullyrðingum Vísis.
Staðreyndirnar tala sínu máli. Aðeins Morgunblaðið og Dagblaðið þora að láta þjóðina vita um raunverulegt upplag, raunverulega dreifingu og raunverulega sölu. Hjá hinum dagblöðunum er þetta feimnismál. Skýringin. er auðvitað sú, að Morgunblaðið og Dagblaðið eru langsamlega mest seldu blöðin.
Verzlunarráð hefur gert sitt bezta til að reyna að siðbæta verzlunarhætti á þessu sviði. En það er erfitt, þegar fjögur blaðanna kæra sig ekki um slíkt.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið