Fallinn er enn einn fáránlegi meiðyrðadómurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur. Starfsmenn DV eru dæmdir fyrir að segja satt og rétt frá fjármálabraski Eiðs Smára Guðjohnsen. Brask hans hefur þó komið niður á þjóðinni og sérstaklega á Kópavogi. Dómurinn byggist á, að bankaleynd hafi verið rofin. Þetta mál staðfestir enn einu sinni, að dómvenja meiðyrðamála um peninga stendur okkur fyrir þrifum. Síðustu ár segja okkur, að fráleitt er að telja fjármál til einkamála. Hér þarf að breyta stjórnarskrá og afnema bankaleynd. Með sama framhaldi fellur allt aftur í sama farveg þagnarmúrs um svindl og brask.