Starfsfólk í færeyskum frystihúsum hefur 31-37% hærri laun en starfsfólk í íslenzkum frystihúsum, þrátt fyrir kjarasamningana í sumar, sem sagðir eru vera að sliga íslenzku frystihúsin.
Í þessum hlutfallstölum er miðað við bónuskerfið, sem notað er víða hérlendis. Ef aðeins er miðað við tímakaup í dagvinnu og næturvinnu, en ekki bónusgreiðslur, er dæmið mun óhagstæðara fyrir okkur. Í slíkum samanburði hefur færeyskt frystihúsafólk 58-64% hærri laun.
Færeysk frystihús greiða nokkurn veginn sama verð fyrir fisk upp úr sjó og íslenzk frystibús gera, þegar gert hefur verið ráð fyrir verðbótum og greiðslum í stofnfjársjóð hér á landi.
Þessar staðreyndir komu fram í nákvæmri athugun, sem Dagblaðið hefur látið gera og birtist í blaðinu í gær. Þar er rakinn í einstökum atriðum munurinn á launakostnaði og hráefniskostnaði frystihúsa í þessum löndum og reynt að taka tillit til sem flestra hliðaratriða.
Jafnframt er vitað, að færeysk frystihús selja sínar afurðir á vegum íslenzkra sölusamtaka og á sama verði og íslenzk frystihús gera. Færeysku frystihúsin eru samt ekki að sigla í strand, þrátt fyrir sama fiskverð og hærri laun.
Ef gert er ráð fyrir, að laun séu fjórðungur rekstrarkostnaðar frystihúsa, er niðurstaða dæmisins sú, að færeysk frystihús séu 8-13% betur rekin en íslenzk frystihús.
Ýmsar skýringar eru á þessum mismun. Þeim er yfirleitt það sameiginlegt, að þær eiga einkum við um Suðvesturland, þar sem erfiðleikar frystihúsanna eru mestir.
Í fyrsta lagi er verð á karfa upp úr sjó alltof hátt hér á landi. Þar er um að ræða tilraun til að beina togurunum frá þorskfiskum, en hún tekur ekki tillit til greiðslugetu frystihúsanna. Munurinn á karfaverðinu er ekki tekinn með í samanburðinum hér að ofan.
Í öðru lagi er óhófleg samkeppni milli frystihúsa um takmarkað hráefni, einkum á Suðvesturlandi. Þetta hefur leitt til undirborðsgreiðslna og óstöðugrar hráefnisöflunar. Þessi skýring er sennilega sú, sem mestu máli skiptir.
Í þriðja lagi er óhóflegur akstur og aðrar tilfærslur með hráefnið, einkum á Suðvesturlandi. Þetta hækkar flutningskostnaðinn og gerir hráefnið verra til vinnslu.
Sjálfsagt eru skýringarnar fleiri. En þessar þrjár gefa samt töluverða vísbendingu um hvernig frystihúsin og aðrir þeir aðilar, sem málið varðar, geta brugðizt við vandanum.
Loka þarf óhagkvæmum frystihúsum og jafna hráefnisöflun hinna. Lækka þarf verð á karfa og ef til vill einnig ufsa. Afnema þarf óhóflega flutninga á fiski á landi.
Ef þetta dugir ekki til að gera íslenzk frystihús samkeppnishæf við færeysk, er til enn eitt ráð. Það er .að draga um tíma úr fjárfestingum dótturfyrirtækja vestanhafs.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið