Evrópa er að breytast þessar vikurnar. Innan Evrópusambandsins er að myndast efnahagsbandalag ríkja, sem hafna óreiðu í ríkisrekstri að hætti Grikklands. Verður eins konar fjárlagabandalag með ströngum reglum um ábyrga yfirstjórn ríkisfjármála. Þannig skiptast ríki Evrópusambandsins upp í kjarnaríki og jaðarríki. Ekki er ljóst, hvernig skiptingin verður, né hvort evran fellur niður sem gjaldmiðill sumra jaðarríkja. Í brimsjóum líðandi stundar hefur evran staðið sig vel og hækkað að verðgildi í samanburði við dollar. En sum ríki hafa ekki næga burði í innviðum til að fá að hafa evru sem gjaldmiðil.