Evrópusambandið er engan veginn undir það búið að bíta í skjaldarrendur í öryggismálum heimsins. Það hefur smám saman þróazt úr viðskiptastofnun um efnahagsstofnun yfir í pólitíska stofnun, sem nú er að semja sér stjórnarskrá. Hernaðarlega er það dvergur, sem er rétt að byrja að taka við hlutverki Atlantshafsbandalagsins í friðargæzlu á Balkanskaga. Því er það meira af vilja en mætti, að leiðtogar ríkja þess samþykktu í gær að taka upp ágengari utanríkisstefnu, meðal annars með refsiaðgerðum gegn ríkjum, sem stöðugt ögra umheiminum. Þetta bendir til, að sambandið fari senn að stíga fyrstu skrefin til að láta að sér kveða í öðrum heimsálfum, væntanlega með meiri útgjöldum til langdrægra hermála. Samþykkt ráðherranna felur einnig í sér, að sambandið muni stefna að eigin utanríkisstefnu, sem ekki þarf að fara saman við utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Thomas Fuller skrifar um þetta í International Herald Tribune.