Evrópa er aumingi

Greinar

Ráðherrar hinna níu ríkja Efnahagsbandalags Evrópu samþykktu ekki í gær að styðja við bak Hollendinga í olíukúgun Arabaríkjanna gegn þeim. Þess í stað samþykktu ráðherrarnir að kyssa á vöndinn og lýsa yfir stuðningi bandalagsríkjanna við málstað Araba.

Loksins hafa ríki Efnahagsbandalags Evrópu sameinazt sem eitt afl í alþjóðapólitísku máli. Þetta er því sögulegur viðburður, sein þjóðir Evrópu vildu gjarnan vera stoltar af. En því miður hefur Evrópa nú sameinazt í mestu niðurlægingu sinni á síðustu öldum.

Hvað gerir Evrópa, þegar herir Bandaríkjanna eru farnir heim og Sovétríkin byrja að stríða henni? Gefst Evrópa þá ekki upp fyrir Sovétríkjunum í hverju málinu á fætur öðru, úr því að hún gefst nú svo auðveldlega upp fyrir Aröbum?

Evrópa og Efnahagsbandalagið hafa opinberað ræfildóm sinn. Þær vonir eru brostnar, að bandalagið sé að verða þriðja heimsveldið við hlið Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. 250 milljón manna veldið reyndist vera pappírstígrisdýr, þegar á átti að herða.

Ræfildómur Evrópu. gagnvart kúgun Arabaríkjanna hlýtur að æsa ráðamenn Sovétríkjanna til að færa sig upp á skaftið gagnvart Evrópu. Þeir sjá fram á möguleika á að ýta ríkjum álfunnar smám saman í þá stöðu að vera eins konar fylgihnettir hins sterka. meginlandsveldis, Sovétríkjanna, ekki sízt ef Bandaríkin fara senn að gefast upp á varnarsamstarfinu við Evrópu.

Evrópuríkin níu og Efnahagsbandalagið áttu vissulega bágt. Olíukúgun Araba var sett fram af fullri hörku. Ríki Evrópu sáu fram á stórfelld vandamál í samgöngum og iðnaði eftir áramótin. En þau kusu ekki að láta kúgun mæta kúgun, eins og hinn sterki hefði gert.

Ef ráðamenn Evrópu hefðu bitið á jaxlinn og farið af fullum krafti út í olíustríð gegn Aröbum, væri staða Evrópu í heiminum ekki eins eymdarleg og hún er nú. Það hefði vel verið hægt að framkvæma neyðarráðstafanir í olíumálum, eins og Hollendingar voru byrjaðir að gera. Og það hefði vel verið hægt að hertaka olíulindir Líbýu til að sýna tennurnar.

Í þessu máli var um að tefla stöðu Evrópu í framtíðarþróun alþjóðastjórnmála. Í stað þess að leika sóknarleik lék Evrópa varnarleik, sem mun kalla á fleiri og sterkari sóknarleiki af hálfu þeirra, sem hafa hag af því að kúga Evrópu.

Almenningsálitið í flestum, ef ekki öllum hinna níu ríkja Efnahagsbandalagsins er eindregið með Ísraelsmönnum í deilu þeirra við Araba, ekki sízt síðan Arabar réðust með vopnavaldi á Ísraelsmenn í fyrra mánuði. Þetta almenningsálit hunza ráðamennirnir með hérahjörtun.

Hvergi í heiminum er stuðningurinn við Ísrael eindregnari en einmitt hér á Íslandi. Samband landanna hefur verið sérlega náið síðustu tvo áratugina, enda þykjumst við sjá ýmsar hliðstæður í gamalli og nýrri sögu þjóðanna. Við vonum því, að ríkisstjórn okkar haldi uppi heiðri okkar og geri á alþjóðavettvangi sitt til að styðja vinaþjóð okkar, sem á nú um sárt að binda vegna ægivalds Sovétríkjanna og Arabaríkjanna og ræfildóms Evrópuríkjanna.

Jónas Kristjánsson

Vísir