Eru þeir allir eins?

Greinar

Mörgum finnst athyglisvert, hvernig afstaða heilla stjórnmálaflokka breytist, þegar stjórnarskipti verða. Þeir segja, að í stjórnarandstöðu séu flokkarnir alltaf á móti öllu, sem ríkisstjórnin geri, án tillits til efnisatriða málsins. Þegar flokkarnir komist hins vegar í stjórn, séu úrræði þeirra svo alltaf hin sömu. Það skipti því litlu, hverjir stjórni, hin pólitíska barátta sé eins og marklítill boltaleikur.

Málið er ekki svona einfalt, þótt nokkur sannleikur leynist í þessum kenningum manna, sem orðnir eru leiðir á stjórnmálaþrasinu. Það er alls ekki alltaf, að stjórnmálaflokkar kúvendi í skoðunum við breytingar á valdastöðu þeirra, þótt það sé allt of algengt.

Afstaða Alþýðubandalagsins fyrir og eftir stjórnarskiptin er dæmigerð fyrir þessar kúvendingar. Eftir skiptin er Alþýðubandalagið kerfisbundið á móti þeim frumvörpum, sem það stóð sjálft að á sínum tíma, bara af því að nýja stjórnin hefur tekið þau upp í meira eða minna óbreyttu formi. Og Alþýðubandalagið er einnig kerfisbundið á móti þeim björgunaraðgerðum, sem það var sjálft búið ,að samþykkja, þegar vinstri flokkarnir voru að reyna að endurholdga vinstristjórnina.

Hið sama má segja um Alþýðuflokkinn, nema hvað hann hefur tvisvar breytt um skoðun. Fyrst var hann á móti þessum aðgerðum, er hann var í andstöðu gegn vinstristjórninni. Síðan var hann með þeim, þegar hann tók þátt í viðræðunum um myndun nýrrar vinstristjórnar. Loks varð hann á móti þeim, þegar þessar viðræður fóru út um þúfur og stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við.

Ekki er samt rétt að gagnrýna Alþýðuflokkinn fyrir að fallast í stjórnarmyndunartilraunum á aðgerðir, sem flokkurinn var andvígur í vor.Forustumenn Alþýðuflokksins tóku þá greinilega fram, að andstaðan byggðist fyrst og fremst á því, að þeir treystu þáverandi ríkisstjórn ekki til að framkvæma björgunaraðgerðirnar, þótt þeir væru efnislega sammála sumum þeirra. Hin eina ábyrga afstaða er að fella stjórnina á þingi,sögðu forustumenn Alþýðuflokksins þá.

Sama er að segja um afstöðu Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma. Forustumenn flokksins lýstu þá yfir því, að þeir teldu margar tillögur ríkisstjórnarinnar út af fyrir sig réttar. En fyrst væri nauðsynlegt að fella stjórnina á Alþingi og gefa kjósendum tækifæri til að velja nýja stjórnendur með nýju umboði og meirihluta á Alþingi.

Andstaða Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins gegn tillögum ríkisstjórnarinnar í vor var þingræðisleg tilraun til að knýja fram kosningar og nýja ríkisstjórn, er byggi við nýfengið traust kjósenda. Þær tilraunir, sem nú eru gerðar til að vinna gegn áformum ríkisstjórnarinnar, eru hins vegar ekki þingræðislegar. Stjórnin hefur traustan meirihluta á þingi, en reynt er að egna utanaðkomandi aðila til að grafa undan aðgerðunum.

Hitt er svo rétt, að stjórnmálaflokkar hneigjast yfirleitt að sömu björgunaraðgerðum, þegar þeir bera ábyrgð á hlutunum. Það eru hin svokölluðu íhaldsúrræði, sem allir flokkar verða að grípa til, þegar í óefni er komið og þeir bera ábyrgð á úrræðunum. Það eru þau úrræði, sem reynslan sýnir, að duga helzt, þegar þjóðarskútan lendir í stórsjó.

Jónas Kristjánsson

Vísir