Erlendir aurar

Greinar

Draga má í efa, að menn, sem ekki geta skammlaust rekið stjórnmálaflokk, geti rekið þjóðfélag. Einmitt á þessari forsendu taka margir Alþýðuflokkinn ekki alvarlega sem stjórnmálaflokk.

Alþýðuflokkurinn virðist ekki lengur hafa fjárhagslegan bakhjarl í stuðningsfólki sínu og kjósendum. Rekstur flokksins og málgagns hans er kominn á annarra herðar og í vaxandi mæli á herðar erlendra aðila.

Þann fyrirvara verður að hafa á þessari gagnrýni, að fjáröflun annarra stjórnmálaflokka kann einnig að vera ámælisverð með svipuðum eða öðrum hætti. Um það eru ekki til öruggar heimildir.

Ljóst er, að verðbólga og miðstýring fjármagns freistar stjórnmálamanna að veita flokksgæðingum fyrirgreiðslu gegn því, að hluti gróðans gangi til flokksvélarinnar.

Fjármálaspilling stjórnmálaflokka kemst þó á undarlegra stig, þegar þeir eru farnir að lifa á stuðningsstofnunum annarra flokka og á erlendum hagsmunaaðilum. Sú er einmitt sérstaða Alþýðuflokksins.

Í tvö ár hefur hlutafélag Vísis rekið Alþýðublaðið með tapi, sem nemur um 15 milljónum króna á ári á verðlagi síðasta árs. Hlutafélagið er eign harðra sjálfstæðisflokksmanna, sem styðja þann flokk 90% í blaði sínu, Vísi.

Jafnvel með villtasta ímyndunarafli er ekki unnt að telja hjartagæzku valda því, að stuðningsmenn annarra flokka borgi meira en milljón á mánuði með málgagni Alþýðuflokksins.

Nú er ætlunin að koma þessu tapi og ríflega því yfir á herðar norskra jafnaðarmanna. Þeir hafa samþykkt að gefa Alþýðublaðinu og Vísi pappír, sem gæti numið um 40 milljónum króna á þessu ári.

Sömuleiðis er upplýst, að fjárgjafir frá Norðurlöndum, einkum Noregi, eru ekki ný bóla hjá Alþýðuflokknum. Starfsmaður Alþýðuflokksins er á launum hjá sjóðum norrænna jafnaðarmanna. Slíkir sjóðir hafa einnig greitt erlendan ferðakostnað stjórnmálamanna Alþýðuflokksins.

Norskir jafnaðarmenn hafa norskra hagsmuna að gæta hér á landi, til dæmis vegna varnarmála og Atlantshafsbandalagsins. Norskir stjórnmálamenn hafa á undanförnum áratugum oft reynt að hafa áhrif á íslenzka stjórnmálamenn.

Einn íslenzkur alþýðuflokksmaður, Vilmundur Gylfason, hefur haft siðferðilega reisn til að andmæla móttöku hinna erlendu peninga. Aðrir ráðamenn flokksins hafa ekki tekið í sama streng.

Frumvarp nokkurra þingmanna um bann við erlendum stjórnmálapeningum er því tímabært og þarft. Í rauninni þyrfti einnig lög um opna og opinbera endurskoðun bókhalds og reikninga stjórnmálaflokka.

Þegar íslenzkir stjórnmálamenn eru orðnir aðilar að sukki á borð við það, sem hér hefur verið lýst, er rétt að draga í efa, að þeir séu færir um að fást við sukk opinberra fjármála.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið