Tillögum embættismanna um landhelgissamning við Vestur-Þýzkaland hefur nú verið dreift meðal alþingismanna. Viðtökurnar á þingi munu svo móta að verulegu leyti afstöðuna, sem ríkisstjórnin tekur síðan í málinu.
Tillögurnar fela í sér, að 57 vestur-þýzkir togarar megi veiða 85 þúsund tonn á ári á Íslandsmiðum, innan og utan 50 mílna landhelginnar. Á þessu hafsvæði veiða þeir núna rúmlega 90 þúsund tonn á ári, aðallega karfa og ufsa, en tiltölulega lítið af þorski.
Af þessum togurum mega samkvæmt tillögunum 17 vera frystiskip með sömu veiðarfæri og venjulegir togarar, en engin verksmiðjuskip með ryksuguveiðarfæri. Í tillögunum eru einnig ákvæði um svæðaskiptingu og veiðitímabil eins og voru í brezku samningunum í fyrra.
Eðlilegt er, að mönnum veitist erfitt að taka afstöðu í þessu máli. Ýmislegt er enn óljóst, svo sem áhrif hugsanlegs samnings á 200 mílna stefnuna og á viðskiptahagsmuni Íslendinga í Vestur-Evrópu.
Vestur-Þýzkaland stendur nú fyrir refsiaðgerðum Efnahagsbandalagsins gagnvart Íslandi. Fela þær í sér, að umsamin tollafríðindi fyrir íslenzkar sjávarafurðir taka ekki gildi fyrr en samið hefur verið í landhelgisdeilunni. Þessar refsiaðgerðir munu þyngjast um næstu áramót, því að þá hækka tollar nokkurra ríkja bandalagsins gagnvart ríkjum, sem ekki hafa gildan viðskiptasamning við það.
Þegar þetta er ritað, er ekki vitað, hversu miklir fjármunir eru í húfi. Ekki er.vitað, hversu mikið væri unnt að selja af sjávarafurðum til Vestur-Evrópu undir eðlilegum kringumstæðum, né hversu mikið mundi sparast í tollum, ef viðskiptasamningur okkar við Efnahagsbandalagið tæki gildi að fullu.
Þessi atriði skipta máli, þar sem markaður íslenzkra sjávarafurða í austri og vestri er óvenju erfiður um þessar mundir og þar sem fyrirsjáanlegir eru miklir erfiðleikar í sölu á rækju og lagmeti. Ákvörðun í málinu ætti meðal annars að byggjast á haldgóðu mati á mikilvægi þessara hagsmuna.
Einnig er óljóst, hvaða áhrif samningur við Vestur-Þýzkaland mundi hafa á framvindu 200 mílna málsins. Ekki hafa komið fram neinar rökstuddar hugmyndir um, hvort slíkur samningur mundi veikja eða styrkja aðstöðu okkar í 200 mílna baráttunni, sem vitaskuld er langtum mikilvægari en samningur við Vestur-Þýzkaland.
Ákvörðun í málinu ætti meðal annars að byggjast á haldgóðu mati sérfróðra manna á, hvort gagni 200 mílna stefnunni betur að bíða átekta og fara að öllu með gát eða grípa gæsina meðan hún gefst. Við verðum alténd að forðast að gera nokkuð, sem spillt getur gildi útfærslu efnahagslögsögu okkar í 200 mílur á næsta ári.
Ýmis slík atriði þarf að kanna nákvæmlega áður en ákvörðun er tekin um landhelgissamning við Vestur-Þýzkaland. Vega þarf og meta af raunsæi kosti og galla slíks samnings og gjalda varhug við þeim, sem reyna að þyrla upp moldviðri til að villa þjóð og þingmönnum sýn.
Jónas Kristjánsson
Vísir