Monsanto, helzta fyrirtæki heimsins á sviði erfðabreyttra matvæla, hefur gefizt upp á að hasla sér völl í Bretlandi og ætlar að hætta öllum rekstri þar. Komið hefur í ljós, að allur almenningur í landinu er feiknarlega andvígur erfðabreyttum matvælum eftir mikla umræðu, sem hefur farið fram um þau þar í landi. Monsanto hefur einnig ákveðið að kveðja meginland Evrópu, þar sem andstaða er líka mikil. Fyrr í þessari viku lýsti Margot Wallstrom, ráðherra umhverfismála Evrópusambandsins, yfir því, að bandarísk fyrirtæki hefðu reynt að ljúga og þvinga erfðabreyttum matvælum upp á Evrópu, þar sem þau hentuðu ekki. Græningjar eru að vonum afar ánægðir með þessa þróun mála. Frá þessu segir BBC.