22 af 25 aðildarríkjum Evrópusambandsins hafa hafnað tillögu stjórnarráðs þess um að afnema bann við sumum erfðabreyttum mat og fóðri. Það þýðir, að einstök lönd bandalagsins geta nú ráðið sjálf boðum og bönnum á þessu sviði. Reglugerðir sveitastjórna um hrein svæði, laus við erfðabreyttan gróður, munu öðlast fullt gildi. Þetta er enn einn steinninn í götu erfðabreyttra matvæla og fóðurs í Evrópu og sýnir, að Evrópa er ákveðin að feta aðra braut en Bandaríkin og Ísland, þar sem slík vara er meira eða minna leyfð. Þetta þýðir líka, að erfiðara verður að fá útlönd til að kaupa íslenzka búvöru.