Er stjórnin hætt?

Greinar

Í fyrirtækjum, sem búa við mikla rekstrarerfiðleika og þurfa aðstoð banka, er oft kvartað um, að vandræðin séu ekki nógu mikil til þess, að úrlausn fáist. Menn verði að vera á hvínandi kúpunni til þess að fá lán og þá sé líka lánað ótæpilega. Hafi banki einu sinni lánað of mikið í vonlausan rekstur, telji hann sig tilneyddan til að moka áfram lánum í hann, í veikri von um að geta um síðir bjargað fjármunum sínum.

Þannig hafa hrikalegustu gjaldþrotin hér á landi oftast orðið til. Óráðsía hefur leitt til sjálfvirkrar fyrirgreiðslu, unz spilaborgin hrynur um síðir. Þetta er ein leiðin til að gera út á kerfið.

Nú er spurningin sú, hvort Ísland sem heild sé farið að gera út á kerfið. Botnlaust skuldafen þjóðarinnar virðist hafa komið henni í þá aðstóðu, að erlendir lánardrottnar séu farnir að óttast tap fjármuna sinna. Í veikri von um betri tíð veita þeir okkur ný lán til þess að halda rekstri ríkisbúsins og þjóðarbúsins gangandi. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur nú veitt okkur eins konar lán eða yfirdráttarréttindi upp á tvo og hálfan milljarð króna.

Við erum farin að heyra slíkar fréttir mánaðarlega. Á aðeins fáum mánuðum hefur um tíu milljörðum króna verið aflað með þessum hætti, ekki til að bygsja upp atvinnulífið, heldur til að halda rekstri ríkisbúsins og þjóðarbúsins gangandi.

Erlendis er það venja banka að fylgja eftir stórlánum til fyrirtækja með kröfum um, að fulltrúi bankans taki setu í stjórn fyrirtækisins til eftirlits með notkun peninganna. Hins vegar þykir ekki kurteislegt að fara fram á slíkt, þegar skuldunauturinn er fullvalda ríki. Samt er slík krafa líklega einmitt það, sem við þurfum á að halda um þessar mundir.

Fjármálum og efnahagsmálum þjóðarinnar hefur ekki verið stjórnað á undanförnum mánuðum. Fjármálaráðherra og forsætisráðherra láta eins og ekkert hafi í skorizt. Ekkert bólar á aðgerðum til að lækna fársjúkan rekstur ríkisbús og þjóðarbús.

Ástandið hefur verið svo alvarlegt í vetur, að hinir gamalgrónu andstæðingar, samtök launþega og vinnuveitenda, sameinuðust um ábendingar til ríkisstjórnarinnar um leiðir til lækningar. Þeir voru búnir að sjá, að lífskjör gætu ekki batnað og hagur atvinnuvega gæti ekki batnað, nema ríkið skæri niður útgjöld sín. Ríkisstjórnin nuddaði í mesta lagi stírurnar úr alvarlegum augum sínum og lagðist til svefns á nýjan leik.

Ríkisbúið og þjóðarbúið halda áfram að rotna að innan og lækning verður torsóttari með viku hverri. Önnur eins skuldasöfnun og við stöndum í þekkist ekki annars staðar í heiminum utan styrjaldartíma. Lífskjórin eru orðin mun lakari en í nágrannalöndunum og hagur fyrirtækja jafnframt mun lakari. Ríkið sjálft hefur forustu í skuldasöfnuninni með botnlausri eyðslusemi.

Samt heyrist hvorki hósti né stuna frá ríkisstjórninni. Menn eru varla lengur vissir um, að hún sé lengur við völd! Sumir eru farnir að halda, að hún hafi læðst burtu eins og herforingjastjórnin í Aþenu, þegar hún var búin að keyra allt í strand! Þar komu embættismennirnir einn góðan veðurdag að auðum ráðherraskrifstofum.

Megum við eiga von á slíku hér?

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið