Er aronskan hafin?

Greinar

Enn er komið tækifæri til að brosa að frægum ummælum Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra, þegar hann var að reyna að kveða niður aronskuna í flokki sínum. Hann og Einar Ágústsson utanríkisráðherra hafa náð nýjum samningi í Washington. Er nú svo komið, að enginn veit lengur, hvar geirskan og einarskan enda og aronskan byrjar.

Mikil var alvörustundin, þegar Geir forsætisráðherra sagði, að ekki mætti setja verðmiða á Ísland og að tilhneigingar í átt til aronsku væru siðferðisbrestur, sem líta bæri alvarlegum augum. Og mikill er farsinn nú, þegar einum verðmiða flugstöðvar hefur verið bætt við alla hina, sem fyrir eru.

Siðferðisbrestur verðmiðanna hófst fyrir þrjátíu árum, er þjóðarleiðtogarnir Bjarni Benediktsson, Eysteinn Jónsson og Gylfi Þ. Gíslason ásamt öðrum virðulegum mönnum þágu Marshall-aðstoð til að reisa orkuverin við Írafoss og Laxá og áburðarverksmiðjuna. Þessi aðstoð, sem slagaði hátt upp í Kröflu á núverandi verðgildi krónunnar, fylgdi í kjölfar varnarsamningsins við Bandaríkin.

Siðferðisbrestur verðmiðanna hélt áfram, er þjóðarleiðtogar okkar þágu endurgjaldslaus afnot af öllum gögnum og gæðum Keflavíkurflugvallar til eigin millilandaflugs Íslendinga. Siðferðisbrestur verðmiðanna hélt áfram við hverja lengingu flugbrauta, endurbót öryggisbúnaðar og smíði nýs flugturns.

Í rauninni fólst hvorki siðferðisbrestur né verðmerking í þessum samningum fremur en í aronskunni. Sú stefna er einungis framhald fyrri stefnu ráðamanna þjóðarinnar og heldur rökréttara framhald. Þess vegna er óþarfi fyrir þjóðarleiðtoga að lasta Aron Guðbrandsson, þótt þeir telji sig þurfa á ódýrum slagorðum að halda.

Íslendingar lögðu sig í mikla hættu, þegar þeir leyfðu herstöðina á Keflavíkurflugvelli í nágrenni tveggja af hverjum þremur Íslendingum. Sennilega hefur engin þjóð lagt sig í jafnmikla útrýmingarhættu í þágu sameiginlegra varna Vesturlanda.

Fyrir þetta hafa Íslendingar þegið upphaf innlendrar stóriðju, upphaf stórvirkjana og nothæft millilandaflug, auk margs annars. Síðast fengum við flugturn og nú er búið að semja um flugstöð fyrir millilandaflugið. Allt þetta hefur verulegt efnahagslegt gildi.

Mönnum hlýtur að vera frjálst að telja þetta ekki nógu góð skipti. Þeir mega telja, að svonefnt “varnarlið” eigi að sjá um almannavarnir á landinu, þar á meðal gerð vega, flugvalla og sjúkrahúsa að vissu marki.

Þess vegna mega þeir Geir og Einar fara sem oftast vestur að semja. Við viljum bara ekki, að þeir séu með samvizkubit út af því, að þeir séu siðferðisbrostnir aronistar með vasana fulla af verðmiðum! Þeir ættu í þess stað að snúa sér að siðferðisbresti á öðrum sviðum sambandsins við varnarliðið.

Þeir eiga að láta bjóða út framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, láta varnarliðið og menn þess greiða tolla, skatta og skyldur á við aðra og nota sömu íslenzku krónurnar og við. Þar með mundi víkja sá siðferðisbrestur, sem lengi hefur verið tengdur hinu svonefnda “varnarliði”.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið