Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafa greinilega gefizt upp við stóru orðin um baráttuna gegn útþenslu ríkisbáknsins. Í þriðja skiptið hefur þessi ríkisstjórn lagt fram frumvarp til fjárlaga, sem felur í sér meiri hlut af þjóðartekjunum en vinstri stjórnin þorði nokkru sinni að taka til opinberra þarfa.
Í þriðja skipti hefur fjármálaráðherra notað gömlu og úreltu vinnubrögðin við gerð fjárlagafrumvarpsins. Enn er byrjað á öfugum enda með því að óska fyrst eftir útgjaldatillögum frá einstökum stofnunum hins opinbera.
Því sniðugri sem forstjórar þessara stofnana eru, þeim mun meira ofáætla þeir fjármagnsþörf sína. Áætlanir þær, sem þeir senda fjármálaráðuneytinu eru oft hreinir óskalistar með himinháum upphæðum.
Þegar allir þessir óskalistar eru lagðir saman, sér fjármálaráðuneytið auðvitað, að út úr dæminu kemur allt of há tala. Þá er byrjað að skera niður, sumpart á alla línuna og sumpart með þrúkki við einstakar stofnanir.
Samt sem áður segir í öllum kennslubókum Í fjármálastjórn, að þessi tegund niðurskurðar sé versta tegund niðurskurðar. Þeir sleppi bezt, sem mest hafa ofáætlað, en hinir líði, er lagt hafa fram raunhæfar áætlanir, sem síðan eru skornar niður. Smám saman venji allir sig á að ofáætla.
Eftir japl og jaml og fuður kemur fjármálaráðuneytið saman því frumvarpi, sem lítur dagsins ljós á Alþingi (eða í Dagblaðinu). Vinnubrögðin valda því, að frumvarpið er jafnan miklu hærra en síðasta frumvarp, að minnsta kosti sem nemur verðbólgu ársins. Og núverandi ríkisstjórn hefur jafnan misst fjárlögin langt upp fyrir verðbólgu.
Með þessum vinnubrögðum verður ríkisrekstrinum aldrei haldið grönnum og heilsugóðum. Enda hafa menn fyrir löngu erlendis tekið upp á öðrum aðferðum. Þar byrja menn á hinum endanum, sjálfum niðurstöðutölum fjárlagafrumvarpsins.
Niðurstöðutölurnar eru ákveðnar í samræmi við verðbólgu og efnahagsástand. Þeim er síðan skipt milli einstakra ráðuneyta og málaflokka. Síðan er þeim upphæðum skipt milli einstakra stofnana.
Þegar þessu er lokið, byrja forstjórar hinna einstöku stofnana að áætla reksturinn á næsta ári. Þeir sjá, að þeim er þröngt skammtað. Þeir fara að velta fyrir sér sparnaði. Þeir hugleiða, hvort þetta og hitt sé í rauninni nauðsynlegt.
Ef til vill má harðviðurinn og hægindastóllinn bíða, flosteppið og flísalögnin. Ef til vill er Í lagi, að þetta eða hitt verkefnið bíði í að minnsta kosti ár. Ef til vill er unnt að nýta húsnæðið betur, starfskraftinn betur. Rekstrarhagfræðin kennir, að menn gera sér sjaldnast grein fyrir öllum þeim sparnaðarmöguleikum, sem til eru.
Aðeins með slíkum aðferðum er unnt að skera niður fjárlög og létta skattaáþjáninni af almenningi. Ríkisstjórninni hefur nokkrum sinnum verið bent á þetta hér í blaðinu. En hún hefur því miður ekki gæfu til að þiggja góð ráð.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið