Enginn kostur góður

Greinar

Hinar ytri aðstæður þjóðarbúsins hafa þróazt á þann hátt á undanförnum mánuðum, að ráðstafanir þær, sem ríkisstjórnin gerði í haust reynast líklega ekki nógu víðtækar, þótt mörgum þættu þær nokkuð harkalegar á sínum tíma.

Erfiðleikarnir við ákvörðun verðs á loðnu og almenns fiskverðs á vertíðinni eru gott dæmi um þróun mála. Verðlag og söluhorfur erlendis hafa heldur farið versnandi, þrátt fyrir verðbólgu um heim allan.

Ástandið er einna verst í loðnumjölinu, sem gengur á tæpu hálfvirði, miðað við verðið í fyrra, að svo miklu leyti sem það er seljanlegt. Þess vegna er hætta á, að loðnuvertíðin verði styttri en endranær. Tapið á útgerðinni verður of mikið, þegar fitan fer að hverfa úr loðnunni og lítið af henni nýtist til lýsisvinnslu. Og hvað snertir frystu loðnuna er ástandið ekki gott á Japansmarkaðinum, eins og kunnugt er af fréttum.

Útgerð hinna nýju skuttogara rambar á barmi gjaldþrots. Þetta hefur komið mjög illa við mörg bæjarfélög, sem standa í útgerð, og magnað fjárhagsvandræði þeirra. Frysti fiskurinn er áfram í lágu verði á erlendum markaði og verðið virðist fremur hafa tilhneigingu til að síga niður á við en að lyftast upp.

Hin síversnandi viðskiptakjör gagnvart útlöndum koma fram í lækkandi verði á afurðum okkar og hækkandi verði á innfluttum afurðum. Þessi þróun hefur næstum því tæmt gjaldeyrisvarasjóð okkar. Er nú svo komið, að Seðlabankinn hefur orðið að taka lán til að halda sjóðnum gangandi. Við tökum sem sagt ekki lengur erlend lán aðeins til framkvæmda, heldur einnig okkur til matar

Gengi íslenzku krónunnar er að verulegu leyti háð verðlagi afurða sjávarútvegsins á erlendum markaði. Þessar afurðir eru undirstaða nútímaþjóðfélags á Íslandi og eru hinn raunverulegi verðmælir. Því meira sem skráð gengi fjarlægist þennan verðmæli, þeim mun meiri ringulreið kemst á sjávarútveginn og fiskiðnaðinn og síðan í allt efnahagskerfið. Og enginn vafi er á, að hinar ytri aðstæður eru að skekkja gengið um þessar mundir.

Vandamálið er enn verra vegna þess, að lífskjör hafa rýrnað síðari hluta ársins og eru nú engu betri en þau voru á sama tíma í fyrra. Þar sem kauphækkun samninganna í fyrra er nú uppétin, er friður á vinnumarkaðinum ótryggur um þessar mundir. Leiðrétting á gengi krónunnar mundi enn rýra lífskjörin til viðbótar og valda hættu á vinnudeilum síðari hluta vetrar eða í vor.

Við erum ekki einir í heiminum að eiga erfitt með að sætta okkur við hnignandi þjóðartekjur. Þessi saga er að gerast allt í kringum okkur og alls staðar sjáum við, að fólk neitar að trúa staðreyndum lífskjararýrnunarinnar. Víðar en hér er þjóðarbúinu haldið gangandi með erlendum lánum til að létta byrðar almennings. En bæði hér og þar geta slíkar bráðabirgðaaðgerðir ekki gengið til lengdar.

Við stöndum andspænis þeim beizka sannleika, að hinar ytri aðstæður hafa versnað síðan í haust, að haustaðgerðirnar nægja sennilega ekki, og að í efnahagsmálunum er enginn kostur góður um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

Vísir