Erfiðleikar Þörungavinnslunnar við Breiðafjörð eru ekki Rannsóknarráði ríkisins að kenna samkvæmt bréfi, sem framkvæmdastjóri þess og þingmaður Vestfjarða, Steingrímur Hermannsson, ritaði í Dagblaðið á fimmtudaginn. Segir hann Rannsóknaráð ekki hafa átt aðild að málinu síðan í október 1972.
Ennfremur segir Steingrímur, að nú sé of snemmt að, kveða upp dóma yfir aðilum Þörungavinnslunnar, þar sem iðnaðarráðuneytið sé að rannsaka mál hennar. Þetta síðara atriði kann að vera rétt hjá Steingrími, en hitt er svo öllum ljóst, hvað sem eignaraðild líður, að starfsmenn Rannsóknaráðs hafa fóstrað þetta vandræðabarn allt til þessa dags.
Bréf Steingríms er athyglisvert fyrir þá sök, að þar er engin tilraun gerð til að svara hinum alvarlegu ákúrum, sem stjórn Þörungavinnslunnar sætti í leiðara Dagblaðsins frá 7. desember. Svo virðist sem efnislega séu engin svör á reiðum höndum.
Engin tilraun var gerð í bréfinu til að skýra, hvers vegna bolað var frá rannsóknum þeim manni,sem í 17-18 ár hafði annazt þær. Engin tilraun var gerð til að skýra, hvers vegna menn Rannsóknaráðs og aðrir stjórnarmenn Þörungavinnslunnar neituðu að lesa skýrslur þessa manns og hlusta á aðvaranir hans.
Sigurður V. Hallsson efnaverkfræðingur hafði komizt að raun um, að töluverðir möguleikar voru á, að þörungavinnsla á Reykhólum gæti orðið arðbær, ef sigrazt yrði á ýmsum vandamálum. Eitt þeirra var léleg afkastageta þangskurðarpramma og hið síðara hitaskiptin í þurrkofnunum. Þegar Sigurður fór frá, var síðara vandamálið leyst, en hið fyrra óleyst.
Í bréfi Steingríms var engin tilraun gerð til að skýra, hvers vegna hinir nýju sérfræðingar hans töldu 11 þangskurðarpramma nægja, er Sigurður hafði talið 24 nauðsynlega. Því er hér enn spurt: Var þetta fölsuð spá til þess að gera tvísýnt dæmi girnilegt? Hvers vegna viðurkenna hinir nýju sérfræðingar fyrst núna í verki þá skoðun Sigurðar, að enn sé handskurður þangs illskárri en notkun prammanna?
Í bréfi Steingríms er engin tilraun gerð til að skýra, hvers vegna hinir nýju sérfræðingar hans töldu ástæðulaust að kaupa hitara, er nýtt gætu heita vatnið allt niður í 20-25 gráður á Celcius. Sigurður hafði þó lagt það til eftir margvíslegar tilraunir, enda hefði þá heita vatnið í borholunum nægt. Í staðinn voru keyptir hitarar, sem nýttu vatnið aðeins niður í 60 gráður. Og nú kveina hinir nýju sérfræðingar um, að heita vatnið sé of lítið!
Þannig er starfað í þjóðfélagi óskhyggjunnar. Ef einn sérfræðingurinn er með efasemdir, er honum sparkað og fengnir nýir, er framleiða álitsgerðir að skapi framkvæmdastjóra Rannsóknaráðs og þingmanns Vestfjarða. Ætt er áfram í blindni og 270 milljón króna tapi á tveimur árum. Hvers konar hollráðum er hafnað. Og þegar allt er komið í kaldakol, er heimtað enn meira hlutafé úr sameiginlegum sjóði landsmanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið