Engan undanslátt.

Greinar

Luns, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, reynir nú að fá ríkisstjórnina til að hvika frá stefnu sinni og ganga til móts við Breta. Nokkur hætta er á, að stjórnin muni slá af í einhverju vegna þrýstings frá þessum þrautþjálfaða samningamanni. Til þess má ekki koma. Íslendingum finnst almennt, að ríkisstjórnin hafi farið of vægt i sakirnar í landhelgismálum. Við höfum ekkert að bjóða umfram það, sem þegar hefur verið boðið.

Luns átti töluverðan þátt í, að samið var í landhelgisdeilunni 1973. Viðhorfin eru öll önnur nú. Ríkisstjórnin hefur þegar boðið Bretum meira, 65 þúsund tonn, en við getum með góðu móti látið í té. Við höfum góðar vonir um að vinna algeran sigur í landhelgisdeilunni. Miklu skiptir, að fréttir herma, að almenningsálitið í Bretlandi sé um þessar mundir að snúast okkur i vil. Brezka stjórnin verður fyrir þrýstingi heima fyrir. Mönnum ofbjóða aðfarir herskipanna gagnvart varðskipunum. Skilningur á málstað Íslands fer vaxandi. Stór dagblöð leggja Íslendingum lið. Þetta kann að ráða úrslitum.

Rikisstjórnin kvaddi framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins hingað í þeirri von, að hann mundi styðja okkur, en það má ekki gleymast, að Luns er fyrst og fremst fulltrúi bandalagsins. Því aðeins mun hann verða talsmaður íslenzks málstaðar gagnvart Bretum, að honum skiljist ótvírætt, að miklir hagsmunir bandalagsins eru i húfi. Rikisstjórnin verður að segja honum tæpitungulaust, að verði Bretar ekki á burtu með herskip sín munum við endurskoða afstöðu okkar til Atlantshafsbandalagsins og loka varnarstöðinni. Þetta er tungumál, sem Joseph Luns skilur bezt.

Luns stefnir fyrst og fremst að því að bera klæði á vopnin. Þorskastríðið er forráðamönnum NATO eðlilega þyrnir i augum. Þeir vilja mikið til vinna að binda enda á það. En hugmyndir Luns um, að Íslendingar eigi að slá af, ná engri átt.

Stjórnmálaslitin við Bretland á að framkvæma án tillits til skoðana framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins á afleiðingum þeirra. Luns vill, að íslenzka stjórnin fallist á, að brezkir landhelgisbrjótar verði látnir afskiptalausir við iðju sína. Þá muni Bretar kalla herskipin út fyrir 200 mílurnar. Þótti engum mikið.

Í þessu verður rikisstjórnin að sjálfsögðu að standa fast við fyrirheit sín. Stefnan er, og skal verða, að viðræður hefjist ekki að nýju við Breta, fyrr en herskip þeirra og togarar eru á brott úr landhelginni. Frá þessu má í engu hvika.

Mikill meirihluti Íslendinga telur það réttlætiskröfu, að Atlantshafsbandalagið hjálpi okkur að ná skýlausum rétti okkar.

Til þess höfum við verið í bandalaginu, að við fáum þaðan stuðning.

Verði málstað okkar haldið nægilega fast fram við framkvæmdastjórann, mun hann væntanlega beita áhrifum bandalagsins til að Bretar gefi skákina hið fyrsta.

Enda hljóta þeir að tapa henni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið