Elsku Somoza fékk aurana.

Greinar

Einn grimmasti glæpaforingi Mið-Ameríku er í náðinni hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Somoza, forseti og eins konar eigandi Nicaragua, hefur fengið þar um 24 milljarða króna lán til að geta tugtað þegna sína enn betur en áður.

Síðan í fyrra hefur með hléum geisað borgarastyrjöld í Nicaragua. Þar berst öll þjóðin, illa vopnuð, gegn Somoza og harðvítugum, vel vopnuðum 8000 manna glæpaflokki hans.

Í Nicaragua standa saman verkalýðsleiðtogar og atvinnurekendur, vinstri menn og hægri menn, kirkjunnar menn og menntamenn, börn og gamalmenni. Sameiginlegt markmið þeirra er að losa þjóðina við glæpaforingjann.

Í 42 ár hefur ræningjaflokkur Somoza kúgað íbúa Nicaragua, misþyrmt þeim og stolið eigum þeirra. Og aldrei hefur framferðið verið hrikalegra en einmitt á síðustu misserum.

Somoza hefur stundum verið nefndur: Síðasti bandaríski landgönguliðinn í Nicaragua. Það voru nefnilega bandarískar landgöngusveitir, sem komu honum til valda árið 1933. Glæpaforinginn er sérstakur skjólstæðingur Bandaríkjanna.

Sagnfræði síðustu áratuga sýnir, að bandarísk stjórnvöld eru óhugnanlega veik fyrir stjórnmálaöflum, sem eru yzt á hægri kanti stjórnmála erlendra ríkja. Einkum hafa hægri sinnaðir herforingjar verið í náðinni.

Sumpart stafar þetta af því, að bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur ráðið meiru en utanríkisráðuneytið um samskipti við erlend ríki. Og herforingjarnir í varnarmálaráðuneytinu hafa stutt starfsbræður sína í öðrum löndum.

Stuðningur við Íranskeisara fram á yztu nöf er nýtt dæmi um þessa áráttu bandarískra yfirvalda. Rekja má slík dæmi um allan heim, en hvergi þó fleiri né alvarlegri en í rómönsku Ameríku, er varnarmálaráðuneytið lítur á sem húsagarð sinn.

Undir forustu Kissingers stuðlaði Bandaríkjastjórn á sínum tíma að falli Allende, forseta Chile, og að valdatöku hálfbilaðra hershöfðingja yzt á hægra kanti. Pinochet er skjólstæðingur Bandaríkjamanna, alveg eins og Somoza.

Bandarísk stjórnvöld eiga meiri eða minni þátt í valdaráni herforingja í öðrum ríkjum rómönsku Ameríku, svo sem Argentínu og Brazilíu. Sú ábyrgð rýrnar ekki, þótt sumir þessir herforingjar hafi skotið sér undan bandarísku taumhaldi.

Almenningsálit í Bandaríkjunum og annars staðar á Vesturlöndum hefur dregið úr dálæti bandarískra yfirvalda á hægri sinnuðum einræðisherrum úr herforingjastétt. Skjólstæðingar eins og Somoza eru orðnir að vandamáli.

Taugarnar til hins gamla landgönguliða Bandaríkjahers eru þó enn svo miklar, að Carter Bandaríkjaforseti hefur verið ófáanlegur til að veita íbúum Nicaragua nauðsynlegan styrk, siðferðislegan og peningalegan.

Somoza þarf á miklu fé að halda, bæði til að gera út 8000 manna bófaflokk og til að efla bankainnistæður sínar í Sviss. Almenningsálitið meinar Bandaríkjastjórn að lána honum fé. En hún hefur samt fundið leið úr klípunni.

Bandaríkin hafa tögl og hagldir í Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og hafa stundum notað hann sem skiptistöð fyrir lán, er ekki má kalla bandarísk. Og nú hefur þessi leið verið notuð til að lána Somoza 24 milljarða króna.

Það er raunar alveg furðulegt, hvað dýrkendur erlendra einræðisherra komast upp með mikið í stjórnkerfi Bandaríkjanna. Þar þarf greinilega að hreinsa rækilega til.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið