Ellilaun sem ekki rýrna.

Greinar

Gagnmerkt frumvarp Guðmundar Garðarssonar alþingismannss um Lífeyrissjóð Íslands hefur vakið allt of litla umræðu á opinberum vettvangi. Að baki þessu frumvarpi liggur mikil tryggingafræðileg vinna á vegum samtaka verzlunarmanna. Það felur í sér skynsamlega lausn á þeim vanda, er verðbólgan étur upp ellilífeyri þeirra, sem þurfa hvíld að loknum löngum starfsdegi.

Meginhugsun frumvarpsins er sú, að ekki verði lengur safnað í sjóði til elliáranna, þar sem þeir sjóðir rýrna hrikalega á hverju ári. Í staðinn verði Lífeyrissjóður Íslands eins konar millistöð, sem dreifi jafnóðum lífeyri frá starfandi fólki til þeirra, sem hættir eru störfum fyrir aldurs sakir eða af öðrum ástæðum. Í stað uppsöfnunar komi gegnumstreymi.

Þetta þýðir, að sjóðurinn getur alltaf greitt ellilífeyri í samræmi við verðlag hvers tíma. Vísitala tekna verður samkvæmt frumvarpinu reiknuð út fjórum sinnum á ári Og ellilífeyririnn hækkaður sjálfkrafa til samræmis við tekjuhækkunina í þjóðfélaginu.

Samkvæmt frumvarpinu eiga allir landsmenn rétt til greiðslna úr Lífeyrissjóði Íslands. Þeir, sem tekjulausir hafa verið alla ævi, fá greiddan lágmarkslífeyri, sem nemur 27.825 krónum á mánuði á núverandi verðlagi. Þeir, sem alla ævi hafa haft þrefaldar meðaltekjur fá á ævikvöldi sínu greiddan lífeyri, sem nemur 166.950 krónum- Aðrir fá upphæðir milli þessara endimarka. Algengur ellilífeyrir launamanns yrði 55.650 krónur, sem er 60% af 92.750 króna mánaðartekjum.

Allar konur eiga að njóta fulls og sama réttar til ellilífeyrisgreiðslna án tillits til stóðu, einnig þær, sem unnið hafa á heimili sínu alla ævi. Hjón munu því fá töluvert hærri lífeyri en fram kemur í krónutölum þeim, sem nefndar eru hér að framan. Algengur ellilífeyrir launamanns og heimavinnandi konu hans yrði 87.370 krónur á mánuði

Í öllum þessum útreikningum er gert ráð fyrir, að menn fái greidd með verðtryggðum hætti 60% af meðaltekjum sínum, að öðru leyti en því, að jafnað er milli hinna lægst launuðu og hæst launuðu.

Lífeyrissjóður Íslands á ennfremur að hafa bolmagn til að greiða örorkubætur og barnalífeyri til samræmis við ellilífeyrinn. Loks á hann að geta greitt öllum konum, einnig þeim, sem heima vinna, þriggja mánaða fæðingarlaun.

Gert er ráð fyrir, að á hverjum tíma sé lagt á vinnandi fólk iðgjald, sem mæti þeim tryggingagreiðslum sem Lífeyrissjóður Íslands á að inna af hendi. Útreikningar þeir, sem frumvarpið byggist á, benda til þess, að þetta iðgjald yrói 12,4% af tekjum manna, sem er svipuð upphæð og greidd er núna í lífeyrissjóði að viðbættum starfsmannagreiðslum til Tryggingastofnunarinnar.

Jafnframt mundi ríkissjóður losna við um 6000 milljón króna tryggingagreiðslur á ári á núverandi verðlagi. Þennan sparnað mætti hugsanlega nota til að lækka tekjuskatt um tvo þriðju og leyfa fólki í staðinn að greiða 1% af launum til sinna gömlu lífeyrissjóða, sem þá mundu sérhæfa sig í lánastarfsemi.

Kjarni málsins er svo sá, að Lífeyrissjóður Íslands gæti greitt mun hærri lífeyri en nú er gert og þar að auki algerlega verðtryggðan lífeyri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið