Ekki svo með öllu illt

Greinar

Þeir eru búnir að semja, þrátt fyrir alla bölsýnina, sem ríkt hefur undanfarna daga. Allsherjarverkfallið kemur að vísu til framkvæmda, en einungis í einn dag. Ótti manna við margra vikna verkfall hefur reynzt ástæðulaus.

Sáttanefndin og samninganefndirnar eiga mikinn heiður skilið. Þær hafa barið saman samkomulag á örfáum dögum, þótt bilið milli deiluaðila hafi fram á síðustu stund verið breiðara en dæmi eru um á undanförnum árum.

Að sjálfsögðu lækna samningarnir ekki öll mein. Atvinnurekendur ern fremur svartsýnir. Spurningin er um hægan eða skjótan dauðdaga þeirra, sagði einn fulltrúa þeirra í gær. Ef þetta er rétt, hafa þeir valið hægan dauðdaga með því að semja.

En hvað var hægt að gera? Öllum mátti vera ljóst, að slagorðið um, að afkoma heimilanna væri í hættu, átti fullan rétt á sér. Og afkoma fyrirtækjanna varð að víkja fyrir afkomu heimilanna, af því að samningar eru pólitík.

Þessi síðasti og versti galli samninganna kemur meðal annars fram í því, að ríkisstjórnin hefur neyðzt til að ábyrgjast fast verð á landbúnaðarafurðum. Hún hefur tekið að sér að sjá um, að niðurgreiðslur verði auknar með sama hraða og Parísarhjól verðbólgunnar.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um þetta efni er talin vera lykillinn að því, að unnt reyndist að brúa hið breiða bil, sem var milli deiluaðila. Það er slæmur fyrirboði, að samningarnir skuli þurfa að byggjast á efnahagslega rangri ákvörðun stjórnvalda.

Nú lendir þjóðin í hinu gamla og sígilda dæmi, að kjörin breytast eftir allt öðrum lögmálum en samningar gera ráð fyrir. Það skiptir ekki máli, hvort samið hefur verið um hæstu krónutölu, sem um getur í samningum, eins og forseti Alþýðusambandsins talar um.

Krónan hefur lag á að skreppa saman eftir þörfum. Hún skrifar ekki beinlínis undir samningana, þrátt fyrir öll vísitöluákvæði. Hún hagar sér eftir sambandi þjóðartekna og launakjara á hverjum tíma og lætur enga pólitík hafa áhrif á sig.

Samningarnir byggjast á pólitísku mati sáttanefndar á möguleikum aðstöðunnar eins og hún er núna. Á þessum grundvelli var unnt að berja saman samninga. En efnahagslegur grundvöllur samninganna er enginn.

Réttmætt væri, að samninganefndirnar tækju sig saman um að leggjast á bæn og biðja fyrir fiskverðinu í Bandaríkjunum. Þar er að sjálfsögðu prófsteinninn á, hvort samningarnir eru alvörusamningar eða gervisamningar. Því miður fer verðið þar lækkandi á sama tíma og samningamenn skemmta sér við hæstu krónutölur í manna minnum. Þeir hafa ekkert lært og engu gleymt.

Allt þetta nöldur er þó lítils virði í ljósi þess, að vinnufriður ríkir. Hjól atvinnulífsins snúast alténd, þótt smurninguna skorti. Frestur á illu hefur náðst. Betra er að spila upp á lukkuna en að spila alls ekki. Biðskák er betri en töpuð skák.

Jónas Kristjánsson

Vísir