Reiknað er með, að þrír af hverjum tíu borgarbúum noti ekki einkabíla til að komast milli staða. Þetta eru aðallega börn og gamalt fólk, einmitt þeir, sem erfiðast eiga með að vara sig á hinni hröðu bílaumferð.
Vel skipulagt kerfi strætisvagna, eins og er í Reykjavík, kemur töluvert til móts við þarfir þessa fjölmenna hóps borgarbúa. En þeir, sem lengra hugsa, sjá, að til viðbótar þarf einnig að leggja sérstök kerfi umferðaræða fyrir gangandi fólk og hjólreiðamenn.
Gangstéttir geta ekki talizt sérstakt kerfi umferðaræða, því að menn þurfa alltaf að hætta sér yfir götur, þegar þeir fara milli gangstétta.
Þess vegna er það veigamikill þáttur í tillögum Birgis Ísleifs Gunnarssonar borgarstjóra um útivist og umhverfi, að innan fárra ára verði hægt að ganga og hjóla um alla borgina, án þess að þurfa nokkru sinni að fara út á götu.
Borgarstjóri leggur til, að á næstu fjórum árum verði varið tæplega 200 milljónum króna til að leggja tæplega 100 kílómetra af slíkum stigum. Þeir eiga yfirleitt að vera malbikaðir, meira en þriggja metra breiðir, upplýstir og vel merktir.
Þessi fyrsti áfangi á að mynda net um borgina. Að honum loknum á að vera hægt að komast frá Eiðisgranda um Fossvogsdal og Elliðaárdal upp í Heiðmörk án þess að stíga út á götu. Sömuleiðis frá Skólavörðuholti og Laugarnesi um Laugardal og Árbæjarhverfi upp í Heiðmörk. Fyrir utan þessar aðalæðar verða greinar í ýmsar aðrar áttir og samtengingar milli aðalæðanna.
Síðan á að víkka þetta kerfi næstu sex árin á eftir, þannig að árið 1983 verði komið í Reykjavík fullkomið kerfi göngu- og hjólreiðastíga, sem verði algerlega skilið frá bílaumferðinni. Þá á að vera hægt að komast milli heimilis og skóla án þess að stíga út á bílaumferðaræð. Sömuleiðis milli heimilis og útvistarsvæða, svo og innan útivistarsvæða og milli þeirra.
Dýrasti þáttur kerfisins eru brýrnar yfir götur og göngin undir þær. Stefnt er að því, að ekki verði tröppur í þessum mannvirkjum, heldur lítill, aflíðandi halli til þæginda fyrir reiðhjól, barnavagna og fatlað fólk. Er ráðgert að hafa hugmyndasamkeppni um gerð fyrstu brúarinnar.
Reykvíkingar ganga og hjóla minna um borgina en æskilegt og heilsusamlegt væri. Veðurfar og vani hafa áhrif á þetta, og ennfremur ótti við bílaumferð og óþægindi af henni. Með hinu fyrirhugaða kerfi göngu- og hjólreiðastíga ætti að vera unnt að breyta venjum fólks á þessu sviði, borgarbúum til öryggis, ánægju og heilsubótar. Og ekki má heldur gleyma því, að sérstakt kerfi göngu- og hjólreiðastíga ætti líka að vera til þæginda fyrir bílaumferðina.
Reykjavíkurborg hefur stundum áður verið með djarfar áætlanir um ýmis framfaramál, svo sem malbikunaráætlun og hitaveituáætlun. Þær áætlanir stóðust, og er því ástæða til að ætla, að svo verði einnig um göngu- og hjólreiðastígaáætlunina og aðra þætti útivistar- og umhverfisáætlunar Birgis Ísleifs Gunnarssonar borgarstjóra.
Jónas Kristjánsson
Vísir