Ekki sést í botn

Greinar

Engin ástæða er til bjartsýni í samningum þeim, sem nú eru hafnir milli alþýðusambandsins og vinnuveitendasambandsins. Eins og ástandið er í þjóðfélaginu þarf nánast kraftaverk til að ná saman skynsamlegum kjarasamningum. Gjáin milli deiluaðila er dýpri en svo, að í botn sjáist.

Ekki stafar þetta af óeðlilegum kröfum alþýðusambandsins. Hvað er sanngjarnara en hækkun lægstu launa upp í 100.000 krónur og almenn 40% launahækkun? Engum dettur í hug, að fjölskylda geti lifað af minna en 100.000 krónum. Og allir vita, að laun á Íslandi eru ekki nema helmingurinn af því, sem þau eru í nágrannalöndunum.

Ástandið á þessum sviðum er raunar orðið óþolandi. Margir hafa ekki í sig og á, þótt þeir hafi tækifæri til að vinna fullan vinnudag. Og þar á ofan berast ljúfir ómar frá freistingunum úr nágrannalöndunum. Láglaunakerfið hér hlýtur að leiða til aukins flótta fólks frá landinu.

Ekki stafar gjáin heldur af óeðlilegri fyrirstöðu vinnuveitendasambandsins. Þeim, sem til þekkja, dylst ekki almennt léleg greiðslugeta fyrirtækja hér á landi. Þetta kemur fram í tregri afgreiðslu og greiðslu reikninga og á ýmsum öðrum sviðum. Þessi fyrirtæki geta ekki tekið á sig neina hækkun, nema þau megi velta henni jafnóðum út í verðlagið.

Þessi hlið ástandsins er líka orðin óþolandi. Hin bezt reknu fyrirtæki hanga á horriminni án nokkurs svigrúms til að mæta skellum. Og sum þeirra geta ekki keppt við afurðir erlendra fyrirtækja, sem borga þó sínu starfsfólki hærri laun.

Hvað veldur þessu hræðilega ástandi í kjaramálum og efnahagsmálum Íslands?

Svarið er: Ríkisvaldið.

Engu máli skiptir, hvort hægri eða vinstri stjórnir eru við völd hér á landi. Allar hafa þær sömu röngu stefnuna, sem lýsir sér í ýmsum ljótum myndum.

Ríkið hefur smám saman sölsað undir sig mestan hluta fjármagnsins í landinu. Þetta fé notar það til óhóflegrar eigin fjárfestingar og til óhóflegrar miðstýringar atvinnulífsins með sjóðakerfinu. Hvort tveggja veldur því, að fjárfesting er hér of mikil og í röngum verkefnum.

Landbúnaðarstefnan er hreinn skrípaleikur, eins og margoft hefur verið bent á. Hún kostar milljarða á ári hverju. Allt of mörg skip eru að skarka á miðunum. Sá umframkostnaður nemur líka milljörðum ár hvert. Nýr iðnaður fæst ekki byggður upp nema á kostnað opinberra sjóða, sem ekkert samþykkja, nema það sé nógu fáránlegt og nógu flokkspólitískt.

Ef þjóðarleiðtogarnir höguðu sér eins og menn þyrfti hér engan tekjuskatt og ekki nema hálfan söluskatt, auk þess sem ellilaun og örorkubætur gætu verið mun hærri. Jafnframt væru þá til peningar á frjálsum markaði til uppbyggingar atvinnulífs utan sjóðakerfis, atvinnulífs, sem getur staðið undir mannsæmandi lífskjörum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið