Ríkisstjórnir Íslands og Bandaríkjanna hafa nú lagt fram tillögur um framtíð varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Fátt hefur síazt út um efni þessara tillagna, svo að erfitt er að meta stöðu málsins um þessar mundir.
Ljóst er þó, að málin eru rædd af gagnkvæmum skilningi á þessu stigi, enda eru það utanríkisráðuneyti ríkjanna, sem hafa samningana með höndum. Er gert ráð fyrir framhaldi á viðræðunum, og samningamenn virðast fremur en hitt vera bjartsýnir á, að viðræðurnar leiði til samkomulags.
Líklegt má telja, að verið sé að reyna að bræða saman tvö sjónarmið. Annars vegar vilja Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin, að áfram verði haldið virku eftirliti frá Íslandi með ferðum herflugvéla, herskipa og kafbáta á hluta Atlantshafsins.
Hafið umhverfis Ísland er frá herfræðilegu sjónarmiði viðkvæmasti hluti Atlantshafsins. Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin vilja ekki heldur, að á þessu svæði myndist hernaðarlegt tómarúm, er freistað geti Varsjárbandalagsins.
Hins vegar vill ríkisstjórn Íslands losna við erlenda hermenn af landinu. Ríkisstjórnin er samt ekki sammála um, hversu langt eigi að ganga. Ráðherrar Alþýðubandalagsins vilja, að eftirlitsstöðin á Keflavíkurflugvelli verði lögð niður. En líklegt má telja, að ráðherrar Framsóknarflokksins og frjálslyndra geti sætt sig við minna, verulega fækkun hermanna á stöðinni.
Fremur er líklegt, að unnt sé að finna leið til að bræða saman sjónarmið meirihluta ríkisstjórnarinnar og bandarísku samningamannanna. Næstu mánuðir munu veita svar við því.
Gallinn er sá, að hinir sérstöku varnarhagsmunir Íslands, burtséð frá sameiginlegum vörnum og hernaðarlegu eftirliti í þágu Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna, eiga sér ekki talsmann í viðræðunum. Það virðist því ljóst, að varnir Íslands sem slíks verði útundan í þeirri niðurstöðu, sem samkomulag kann að nást um.
Skoðanakannanir hafa hvað eftir annað sýnt, að meirihluti Íslendinga telur ekki tímabært, að Ísland verði varnarlaust. Flestir hafa mikinn áhuga á viðræðum austurs og vesturs um gagnkvæman samdrátt herja í Evrópu og vona, að þær beri árangur. Þeir telja, að Ísland eigi að vera með í því dæmi, þegar þar að kemur, og hlakka til þess dags, er aðstæður leyfa slíkt. En þeir telja, að enn um sinn beri að skjóta brottför varnarliðsins á frest.
Þessi sjónarmið eru ríkjandi meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins og eiga mikið fylgi meðal kjósenda Framsóknarflokksins og flokks frjálslyndra. En þessi meirihluti ræður því miður ekki ferðinni. Forustumenn tveggja síðastnefndu flokkanna virðast allt of háðir þeim armi, sem vill brottför varnarliðsins á kjörtímabilinu.
Við viljum fá að búa í friði á Íslandi. Við getum gert okkur í hugarlund, að eftir nokkur ár kunni ástandið í stjórnmálum heimsins að hafa breytzt nægilega til þess, að hér þurfi ekki að vera erlent varnarlið. En við teljum, að í svipinn getum við bezt búið í friði hér á landi, að framhald verði á núverandi vörnum. Sumir telja meira að segja, að varnir landsins séu ekki nógu virkar um þessar mundir, og Vísir er í þeim hópi.
Jónas Kristjánsson
Vísir