Ekki maður í manns stað

Greinar

Brotthvarf Gylfa Þ. Gíslasonar af alþingi verður umtalsvert áfall Alþýðuflokknum. Eftirmenn hans skortir reisn hans og vídd. Þeir bjóða ekki heldur upp á þá eiginleika, sem Gylfa skortir.

Gylfi er fær sérfræðingur í hagfræðikenningum lýðræðisjafnaðarflokka og hefur sem slíkur haft gífurleg áhrif á hagkerfi Íslands. Enginn maður í Alþýðuflokknum kemst í námunda við hann á þessu sviði.

Gylfi er líka listamaður og hefur í stjórnmálunum hagað sér í samræmi við það. Hann hefur getað látið sig fljóta ofan á í flokknum án þess að nenna að safna í kringum sig hirð skjólstæðinga, svo sem aðrir flokksleiðtogar gera yfirleitt.

Þetta kemur honum nú í koll, þegar Benedikt Gröndal gerir að honum síðustu atlöguna. Það kemur honum líka í koll, að hafa verið slíkur stjórnmálarefur um ævina, að almenningur treystir honum ekki nógu vel.

Þess vegna er trúlegt, að Benedikt Gröndal mundi fella Gylfa í prófkjöri um þingmannssæti á lista Alþýðuflokksins í Reykjavík. Þetta hefur Gylfi séð fyrir og því dregið sig í hlé.

Benedikt fyllir engan veginn út í sæti Gylfa. Ekki er hann hagfræðingur né listamaður. Og afstaða hans til varnarmálanna er dæmi um, að refskapur hans er öllu klunnalegri en refskapur Gylfa.

Fyrir mörgum árum studdi Benedikt Atlantshafsbandalagið og skrifaði bók um nauðsyn varna á hafinu umhverfis Ísland. Þá var hann að afla atkvæða óánægðra sjálfstæðismanna.

Síðan kom vinstri stjórn, Sjálfstæðisflokkurinn efldist og los komst á vinstri væng stjórnmálanna. Þá fór Benedikt mjög að gagnrýna varnarliðið og skipan varnarmála til afla atkvæða á vinstri væng.

Nú eru sjálfstæðismenn aftur óánægðir og er þar því ný aflavon. Þess vegna er Benedikt nú farinn aftur að vitna á fundum Natóvina.

Meira máli skiptir þó, að Benedikt Gröndal færir Alþýðuflokknum ekki fremur en Gylfi nein tengsli við alþýðu manna í verkalýðsfélögunum. Slík tengsli hljóta þó að vera lýðræðisjafnaðarflokki einkar mikilvæg. Og það, sem Alþýðuflokkinn vantar í stað Gylfa, er rótgróinn og vinsæll maður úr verkalýðshreyfingunni.

Varaformaður flokksins, Kjartan Jóhannsson, býður ekki upp á slíkt, enda er hann fyrst og fremst maður flokksvélarinnar. Eggert Þorsteinsson er orðinn of lasinn og þreyttur. Helzt dettur mönnum í hug Björn Jónsson, forseti Alþýðusambands Íslands.

Ýmislegt bendir þó til, að hugur Björns standi ekki til forustu í Alþýðuflokknum, enda er það ólíkt því hlutverki, sem Björn gegnir hjá Alþýðusambandinu. Líklegt er, að Björn átti sig á, að hæfileikar hans nýtist betur í verkalýðsmálum en flokksstjórnmálum.

Alþýðuflokkurinn hefur engan hag af flótta Benedikts úr Borgarfirði til Reykjavíkur. Benedikt verður daufara ljós á þingi en Gylfi hefur verið. Flokknum kæmi bezt að hafa Gylfa áfram á oddinum, unz tekizt hefur að rækta nýja leiðtoga úr röðum verkalýðsfélaganna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið