Ekki í neinum sárum.

Greinar

Hinn nýi forsætisráðherra Bretlands, Margaret Thatcher, varð á sínum tíma formaður Íhaldsflokksins með því að velta úr sessi grónum leiðtoga, sem áður hafði verið forsætisráðherra, Edward Heath.

Samfara þessum formannaskiptum urðu nokkrar væringar með mönnum í Íhaldsflokknum brezka, en þær hurfu brátt í skuggann. Engum datt í hug, að flokkurinn mundi klofna, enda kom brátt í ljós, að hin flokkslega eining var hin sama og áður.

Það er alsiða í Bretlandi og öðrum vestrænum löndum, að flokksleiðtogar verði hvað eftir annað að verja stöðu sína í kosningum innan flokksins. Oftast tekst þeim það, en stundum falla þeir eins og Heath féll fyrir Thatcher.

Hvergi í þessum löndum er talið, að æviráðning felist í flokksformennsku. Hvergi þykir neitt tiltökumál, að flokksmenn þurfi stundum að skipta um leiðtoga sinn, hvort sem fráfarandi formanni líkar betur eða verr.

Í stjórnmálaflokkum Íslands hefur hins vegar ekki tíðkazt, að menn bjóði sig fram gegn formönnum. Sumum finnast slík framboð í hæsta máta ósvífin, alveg eins og formennska væri í rauninni æviráðning.

Mörgum fannst líka næsta ósvífið af Albert Guðmundssyni að bjóða sig fram til formennsku Sjálfstæðisflokksins gegn Geir Hallgrímssyni. Í nágrannalöndum okkar þættu slík mótframboð hins vegar sjálfsögð og eðlileg.

Úrslitin á landsfundinum voru traustsyfirlýsing á Geir Hallgrímsson, sem hlaut atkvæði tveggja þriðju hluta fulltrúanna. Staða hans í flokknum er nú sterkari en áður, er honum hefur tekizt að verja stöðu sína í atkvæðagreiðslu.

Staða Alberts Guðmundssonar í flokknum hefur einnig styrkzt, þrátt fyrir ósigurinn í atkvæðagreiðslunni. Mörgum kann að finnast þetta undarleg röksemdafærsla. En staðreyndin er sú, að Albert hefur sýnt fram á, að hann er sameiningartákn öflugra minnihlutasjónarmiða í Sjálfstæðisflokknum.

Varaformaður flokksins, Gunnar Thoroddsen, styrkti einnig stöðu sína með því að verja sætið, þótt stuðningsmenn sjálfs formanns flokksins reyndu að velta honum úr því. Með því sýndi hann, að vald formannsins dugir ekki til að hnekkja varaformanninum.

Rökrétt framhald þess, sem hér hefur verið sagt, er, að Matthías Bjarnason efldist líka á landsfundinum með því að ná töluverðum árangri í atkvæðagreiðslunni um varaformennskuna. Með þeim árangri hefur hann skipað sér í innsta hring forustusveitarinnar.

Eini sigurvegarinn, sem ekki þurfti að berjast, var Birgir Ísleifur Gunnarsson, þriðji maðurinn í flokknum á eftir Geir og Gunnari. Hans sigur felst í að hafa sýnt fram á, að hann er ekki umdeildur í flokknum eins og hinir leiðtogarnir.

Hvar stendur svo Sjálfstæðisflokkurinn eftir þessi átök? Óhætt er að fullyrða, að hann er ekki í neinum sárum þeirra vegna. Í stórum flokkum er jafnan ágreiningur og það er betra að hafa hann á yfirborðinu en undir niðri.

Sjálfstæðisflokkurinn er heldur sterkari eftir átökin en fyrir þau. Vonandi lærir bæði hann og aðrir íslenzkir stjórnmálaflokkar af þessu. Vonandi fara menn að draga í efa æviráðningu flokksleiðtoga og fara að hugsa sjálfstætt.

Íslenzkir stjórnmálaflokkar mundu styrkjast, ef leiðtogar þeirra yrðu stundum að verja sæti sín fyrir öðrum leiðtogaefnum. Albert Guðmundsson á heiður skilið fyrir að hafa flett upp á nýjum kafla í íslenzkri stjórnmálasögu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið