Í Bandaríkjunum er ekki spurt hvort unnt sé að kenna blaðamennsku við háskóla, né hvort gera eigi það, heldur hvernig eigi að gera það. Þar í landi er um áttatíu ára reynsla af háskólakennslu í blaðamennsku og annarri fjölmiðlun.
Bandaríski blaðamennskuprófessorinn Edelstein flutti fyrirlestur um þetta efni í fyrrakvöld í háskólanum. Hann skýrði frá því, að blaðamennskudeildir bandarískra háskóla væru yfirleitt fjölmennar og sæju ritstjórnum fjölmiðla fyrir öllum þorra starfsliðs þeirra. Ennfremur væri mikið um, að nemendur í öðrum deildum tækju námsefni í fjölmiðlunardeildum háskólanna.
Þessi mikla áherzla Bandaríkjamanna á háskólakennslu í fjölmiðlun er sennilega ein af skýringunum á því, að bandarísk blaðamennska ber höfuð og herðar yfir blaðamennsku flestra annarra landa. Upplýsingar Edelsteins eru því mjög athyglisverðar fyrir nefnd þá, sem nú er að kanna, hvort rétt sé að hefja kennslu í fjölmiðlun við Háskóla Íslands.
Ástand íslenzkra fjölmiðla er ekki nógu gott, þegar á heildina er lítið. Oft er kvartað um, að málfar þeirra sé ekki nógu gott, en það er aðeins eitt af mörgum vandamálum fjölmiðlanna. Eitt veigamesta vandamálið er hin pólitíska einstefna, sem allt of víða ræður ríkjum. Einnig má nefna slælegan rekstur, bæði í fjármálalegu og ritstjórnarlegu tilliti.
Með góðri kennslu ekki aðeins fyrir blaðamenn og fréttamenn, heldur einnig ritstjóra og útgefendur, má áreiðanlega bæta ástandið. Þessi kennsla þarf ekki að verða mjög dýr, því að háskólinn hefur þegar starfskrafta á mörgum sviðum, sem snerta blaðamennsku, svo sem í íslenzku og erlendum tungumálum, landafræði, sögu, hagfræði og félagsfræði, svo að dæmi séu nefnd.
Fjölmiðlun er ákaflega mikilvæg í nútíma þjóðfélagi. Ef fjölmiðlarnir geta flutt á alþýðlegu og auðskildu máli fréttir og aðrar upplýsingar, sem koma almenningi að gagni og sem almenningur treystir, er fengin mikil samgöngubót í þjóðfélaginu. Og þessar samgöngur upplýsinga eru ekki síður mikilvægar en aðrar samgöngur í landinu.
Þessar samgöngur verða alltaf í ólagi meðan pólitískir kommissarar ráða ríkjum í útvarpsráði og á ritstjórnum flestra dagblaðanna. Sjónarmið þessara eftirlitsmanna stangast yfirleitt á við skynsamlegan rekstur og heiðarlega upplýsingastefnu og veldur því, að almenningur getur ekki fyllilega treyst fjölmiðlunum.
Edelstein benti á það í fyrirlestri sínum, að ekki væri nóg að mennta verðandi blaðamenn, áður en þeir hefja störf, heldur þyrfti einnig að endurmennta starfandi blaðamenn og þá ekki síður starfandi ritstjóra og útgefendur.
Ekki má búast við, að sú kennsla, þótt hún verði víðtæk, hafi þegar í upphafi veruleg áhrif á rekstur fjölmiðlanna. En dropinn holar steininn á löngum tíma. Séu menn sammála um að bæta þurfi íslenzka fjölmiðlun, geta þeir líka verið sammála um, að háskólakennsla í blaðamennsku þoli ekki bið.
Jónas Kristjánsson
Vísir